Nýtt hús fyrir Alþingi Íslendinga
Mánudaginn 07. nóvember 1988

     Júlíus Sólnes:
    Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að taka þátt í þessum umræðum með örstuttri athugasemd. Ég held að það sé orðið mjög brýnt að við alþingismenn tökum til gagngerrar umræðu húsnæðismál Alþingis og þá framtíð sem við sjáum fyrir okkur hér á þessum stað. Það er alveg ljóst að með byggingu ráðhússins í Reykjavíkurtjörn, sem ég persónulega tel nú að verði ekki stöðvuð héðan í frá og ráðhúsið muni rísa á þessum stað, þá er spurning hvort skipulagsyfirvöld Reykjavíkurborgar og hvort almenningur yfirleitt muni líða það að stórbygging Alþingis muni rísa á þeim stað sem henni hefur verið ætlaður.
    Ég skil vel áhyggjur hv. 4. þm. Vestf. Þorv. Garðars Kristjánssonar, sem hefur beitt sér mjög í þessu máli, að menn íhugi vandlega sinn gang og rasi ekki um ráð fram, en ég held því miður að það sé að verða alveg ljóst að það verður erfiðara og erfiðara fyrir Alþingi að fá samþykki fyrir þessu húsi sem fyrirhugað er og hefur verið unnið að undanfarið á þeim stað sem því er ætlaður. Þess vegna held ég að sé mjög brýnt að þessi mál séu tekin til gagngerrar endurskoðunar. Það má e.t.v. vekja þá umræðu upp á nýjan leik hvort Alþingi eigi endilega að vera á þessum stað áfram. E.t.v. er orðið tímabært, jafnvel að skoða á nýjan leik hugmyndir þess efnis, að Alþingi verði flutt til Þingvalla. Það er orðin greið leið þangað, það er ekki orðið nema kannski 40 mínútna akstur á Þingvöll þannig að það er kannski sú lausn sem gæti leyst húsnæðisvandamál Alþingis.
    Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð, en bara ítreka þá skoðun mína að það þurfi að fara fram mjög ítarleg umræða um húsnæðismál Alþingis sem fyrst í þinginu.