Framleiðsla og sala á búvörum
Þriðjudaginn 08. nóvember 1988

     Valgerður Sverrisdóttir:
    Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frv. til laga sem kemur okkur kunnuglega fyrir sjónir sem sátum í landbn. þessarar hv. deildar í fyrra. Ég hafði ekki hugsað mér að ræða það neitt hér við 1. umr. þar sem ég sit í landbn. En eftir að ég hafði heyrt fullyrðingar hv. 4. þm. Austurl., sem komu mér ekki á óvart, að ekki hafi staðið á fjármagni frá ríkisvaldinu á síðasta ári, þá gat ég eiginlega ekki setið undir þeim fullyrðingum. Það var nefnilega þannig að við ræddum þetta í landbn. og þar kom fram að þessi breyting, ef af yrði, kostaði einhverja milljónatugi í fyrirgreiðslu vegna þess að bændum yrði greitt fyrr en nú er (Gripið fram í.) og þessar staðreyndir sem embættismenn létu í ljósi vildi hv. 4. þm. Austurl. alls ekki skilja. Ég vil þá leyfa mér að spyrja hann að því núna hvort hann sé enn þá þeirrar skoðunar að þessi breyting, ef af yrði, kosti ekki peninga. Auk þess vil ég mótmæla þeirri fullyrðingu að ekki hafi staðið á fjármagni frá ríkisvaldinu á síðasta ári.
    Ég vil svo lýsa ánægju minni með undirtektir hæstv. landbrh. um þetta mál. Það leynir sér ekki að hann skilur málið og það er mikils virði. Ég vil líka taka undir með honum þar sem hann sagði að auðvitað þurfi að tryggja afurðastöðvunum forsendur til þess að uppfylla kvaðir laganna og um það snýst málið.