Framleiðsla og sala á búvörum
Þriðjudaginn 08. nóvember 1988

     Flm. (Egill Jónsson):
    Virðulegur forseti. Ég verð að segja það eins og er að það veldur vonbrigðum hvernig undirtektir núv. stjórnarsinna eru við þessu máli. Ég verð að segja það gagnvart ræðu hv. núv. formanns landbn. Ed. að mér fannst áhugi hans fyrir að koma þessu máli fram í landbn. Ed. og hér í deildinni í fyrra, sem ég met afar mikils og er honum afar þakklátur fyrir --- mér finnst óneitanlega að í þeim efnum sé nú Bleik brugðið, hver sem ástæðan kann að vera fyrir því.
    Ég á frekar von á því að það eigi eftir að eiga sér stað umfjöllun um málefni landbúnaðarins hér á þessu þingi við ýmsar aðstæður. Ég hef ekki valið þann kostinn að blanda almennri, pólitískri umræðu um þau mál inn í þessa umfjöllun núna, en ég get þó ekki annað en minnt á það að nú hafa menn væntanlega byr í þessum efnum. Það er satt að segja afar merkilegur leiðari í Tímanum á þessum degi sem ég ætla að leyfa mér að vitna aðeins til örfáum orðum. Þar segir svo m.a., með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Hins vegar slæddist óheppilegt inn í búvörulögin.`` Þarna er býsna sérkennilega að orði komist og svo er haldið áfram: ,,Fyrir ákafan þrýsting frá Sjálfstfl. var látið undan þeirri kröfu að afnema samvinnuskipulagið í sölu búfjárafurða. Framsóknarmenn gengust undir þessa óæskilegu nýskipan afurðasölunnar í trausti þess að viðeigandi afurðalánakerfi yrði sett á laggirnar í kjölfar þess að samvinnuskipulagið var lagt af og hin félagslega samábyrgð framleiðenda jöfnuð við jörðu með einni lagagrein. Það mátti hver maður sjá að þessi bylting á grónu skipulagi, sem nýkapítalistar og verslunarauðvald Sjálfstfl. knúði fram, krafðist í senn nýs lánakerfis og nýs rekstrarforms afurðastöðva, ekki síst sláturhúsa, auk viðeigandi verðlagsstefnu og markaðsátaks.``
    Enn fremur segir í þessum sama leiðara:
    ,,Þrátt fyrir fullan skilning og ötula forustu Jóns Helgasonar í embætti landbrh. tókst framsóknarmönnum ekki að fá sjálfstæðismenn til samstarfs um rétta framkvæmd búvörulaga. Eins og fyrri daginn var ekkert gagn að svokölluðum landsbyggðarþm. Sjálfstfl. Þótt þeir slagi hátt upp í að vera helmingur af þingflokknum og þótt formaður flokksins sé á þingi í landsbyggðarkjördæmi, þá er þessi hópur afar kraftlítill í frægu reiptogi um völd og áhrif í Sjálfstfl.``
    Ég hef, bæði hér á Alþingi og reyndar í hinni almennu umræðu um búvörulögin og þá alveg sérstaklega af hendi Framsfl., verið talinn sérstakur höfundur þeirra laga, a.m.k. meðan bændur voru að átta sig á hvað í þeim fólst. Nú vill svo til að það er aðallega farið að kenna þetta við eitthvert verslunarauðvald í Sjálfstfl. Ég skil eiginlega ekki vel í því hvaða ástæður Framsfl. er nýbúinn að finna upp til þess að hvítþvo t.d. mig af þessari löggjöf. Þetta eru afar nýleg tíðindi fyrir mig.
    Nú hafa aðstæður hins vegar breyst. Það er kominn nýr meiri hluti í Alþingi Íslendinga. Framsfl. er í þessum leiðara búinn að lýsa því yfir að eitthvað óheppilegt hafi komið inn í búvörulögin fyrir atbeina

Sjálfstfl. og allir vita nú að bæði Alþb. og Alþfl. voru á móti þessari löggjöf. Þess vegna hlýtur það að vera alveg augljóst mál að þeir sem nú eiga samleið í málefnum landbúnaðarins hljóta að hreinsa eitthvað til, taka þetta óheppilega út úr og bæta þá einhverju betra við.
    Það ætti að liggja nokkuð ljóst fyrir eftir þessar yfirlýsingar og skal ég svo sleppa allri pólitík út úr þessu máli.
    Mér urðu það nokkur vonbrigði að heyra fyrstu orð hæstv. landbrh. í umræðum um löggjöf sem snertir bændur landsins, bóndasonur norðan úr Þistilfirði sem ég veit mætavel að þekkir vel aðstæður í þessari grein. Hæstv. landbrh. hafði sérstaklega tvennt fram að færa. Það var í fyrsta lagi það að þá yrði að vera eðlileg rekstrarafkoma í sláturhúsarekstrinum, rekstri afurðastöðva í sauðfjárrækt, og að fjármögnunin þyrfti að vera með eðlilegum hætti. Ég reyndar geri mér það vel ljóst að hæstv. landbrh. hefur ekki haft mikil tök á því að kynna sér það sem kemur hér fram í grg. og nál. frá því í fyrra og ég tel það út af fyrir sig vera ágæta afsökun. Ég held að það sé hins vegar algjörlega sannað að afurðastöðvar í sauðfjárframleiðslu hafa ekki verið sveltar.
    Ég vek athygli á því sem kemur fram á bls. 16 í frv. þar sem skýrlega kemur fram að hlutdeild afurðastöðva hefur stöðugt farið vaxandi í heildsöluverði sauðfjárafurða og ef farið er í gegnum tíðina í þessum efnum hefur sá kostnaður numið árlega rétt um það bil 1 milljarði kr. og hefur ekki breyst frá því að hér voru lögð að velli í þessu landi hátt í 16 þúsund fjár til þess að nú er þessi sláturtala komin niður í 12 þúsund fjár. Afurðastöðvar í sauðfjárrækt taka til sín jafnmargar krónur nú og áður var og ég hygg að eftir síðustu verðlagningu hafi þetta stórlega breyst þeim til betri vegar. Ég held að illa væri komið ef bændur landsins hefðu unnið með sama hætti, ef þeir settu nú jafnháa reikninga inn í afurðaverðið og þeir gerðu þegar slátrunin var 16 þúsund fjár. Þetta eru náttúrlega algjörlega óyggjandi tölur.
    Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir minnti á umræðu sem hefði farið fram í landbn. Ed. á sl. vetri, um kostnaðinn við að breyta þessu skipulagi á þann veg sem ég hef hér lagt fyrir. Það er alveg hárrétt að ég rengdi röksemdir afurðastöðvanna í þeim efnum, að þetta mundi kosta ótalda milljónatugi. Hvert skyldu þá þessir milljónatugir hafa lent? Ætli þeir hafi þá ekki lent í vasa sauðfjárbændanna? Það hygg ég vera. En til þess að menn gætu sleppt öllum deilum um þessi efni á sl. vetri var fengin umsögn um þetta frá vararíkisendurskoðanda, starfsmanni Alþingis. Og hvað leiddi hún í ljós? Að þessi breyting mundi kosta u.þ.b. 20 millj. kr. Það voru nú öll ósköpin. Og aðrar greinargerðir sem liggja hér frammi sögðu það með skýrum hætti að þetta mundi ekki kalla á aukið fjárstreymi inn í þessa greiðslu vegna þess, þó að slæmt sé frá að segja, að afurðastöðvarnar hafa ekki skilað staðgreiðslulánunum. Hér var því um það að ræða að einungis þurfti að breyta texta á

skuldabréfunum, fjármagnið var og er fyrir hendi. Þetta er að því er varðaði það sem kom fram hjá hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur.
    Ég held að það sé nauðsynlegt, þrátt fyrir það að ég hafi tekið það hér fram í framsöguræðu minni, að skýra það enn frekar, vegna þess sem kom fram í ræðu hv. þm. Skúla Alexanderssonar, af hverju menn hafa ekki séð þessa skipan mála fyrir þegar afurðalögin voru sett. Þetta sagði ég í minni fyrri ræðu, vafalaust ekki nógu skýrt. Ástæðan var einfaldlega sú að í lögunum var ekki fundin aðferð til þess að skipta niður framleiðsluréttindum á milli bændanna í landinu. Það lá ekki fyrir fyrr en reglugerð var sett við þessi lög. Þar af leiðandi þótti eðlilegt að gefa nokkurt ráðrúm, ef hv. þm. vill nú fylgjast með því sem ég er að segja, til þess að sláturleyfishafar gætu sansað sín uppgjörsmál. Síðan, eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, hafa mál skipast þannig að bændur hafa fengið ákveðinn og tiltekinn fullvirðisrétt. Á þessu hausti var ekki hægt að flytja á milli ónýttan fullvirðisrétt þannig að það er alveg ákveðin framleiðsluheimild sem hver og einn bóndi fær alveg eins og í mjólkurframleiðslunni og þess vegna geta menn nú fundið aðferðir til þess að koma þessum greiðslum til bændanna með skilvísum hætti.
    Svo að það valdi nú ekki misskilningi, að því er varðaði mína fyrri ræðu þar sem ég talaði um kjör bænda í sauðfjárrækt, betri afkomu sem ég reyndar stend við, þá vil ég taka það fram að fyrir liggja um það upplýsingar sem engan veginn er hægt að hrekja. Ég get vel lagt þær fram við umfjöllun þessa máls í landbn. Ed. Alþingis. Ég skýrði það hvers vegna þessar breytingar hefðu orðið og ég tel ekki þörf á því að fara yfir það hér. Og það er rétt sem fram kom að ég talaði um fjölskyldutekjur fyrir fjármagnskostnað. Ástæðan fyrir því að fjármagnskostnaður er ekki tekinn með í þessu er sú að þær heimildir sem ég byggi á í þessum efnum hafa metið fjármagnskostnað með tvennum hætti og það ruglar þannig samanburðinn þegar til lengri tíma er litið.
    Svo er það hins vegar annað mál að hér skiptir það afar miklu máli að fjármagnskostnaður í sambandi við sauðfjárræktina hefur sem betur fer lítil áhrif. Nú sé ég að hv. formaður landbn. lyftir brúnum, en ástæðan fyrir því er nefnilega sú að það eru fáar greinar og kannski engar í þessu landi sem búa við eins góða eiginfjárstöðu og bændur í sauðfjárrækt, hefur reyndar bjargað býsna miklu á síðustu árum. Heildarskuldir þeirra við Stofnlánadeild landbúnaðarins eru innan við 1 / 5 hluti af brúttóverðmætum sauðfjárafurða, enda hafa þeir verið að bæta eiginfjárstöðu sína á síðustu árum.
    Ég hef út af orðum hæstv. landbrh. svarað annarri þeirri athugasemd sem hann hafði fram að færa, þ.e. í sambandi við rekstur afurðastöðvanna, en þá er það annað atriði sem ég má til með að koma hér á framfæri einu sinni enn. Það er eins og mönnum finnist ekkert sjálfsagt að virða lög í þessum efnum. Ef ekki er hægt að slá peninga til þess að greiða

bændum þetta þarf ekkert að virða nein lög, þá er bara lagabókstafurinn dauður. Nú vildi svo til að þegar þessi búvörulög voru til meðferðar hér í Alþingi, reyndar í Nd. Alþingis, var leitað eftir því við þrjá mjög þekkta lagamenn að fá umsagnir um einstakar greinar frv. sem gátu hugsanlega orkað tvímælis.
    Hér á bls. 2 í þingskjalinu er enn einu sinni birt umsögn þessara heiðursmanna og vegna þess að sá boðskapur verður aldrei of oft lesinn né skýrður, m.a. hér í þessari deild, ætla ég að leyfa mér að fara enn einu sinni með hann úr þessum stóli. Þeir menn sem þarna var leitað umsagnar hjá voru Benedikt Blöndal, nú hygg ég að hann sé orðinn hæstaréttardómari, Jón Þorsteinsson hæstaréttarlögmaður og Gaukur Jörundsson, umboðsmaður Alþingis. Það ætti nú satt að segja ekki að vera mikill vandi að taka mark á orðum þessara manna. Um þessi efni segja þeir þetta:
    ,,Að lokum viljum við taka fram að í 18. gr. frv. er því slegið föstu að enginn megi kaupa eða selja búvöru innan lands á öðru verði en ákveðið hafi verið samkvæmt ákvæðum þess. Skiptir í því efni engu hvort um er að ræða umboðssölu eða ekki, framleiðanda ber það grundvallarverð sem ákveðið hefur verið, hvorki hærra né lægra. Í 29. gr. frv. eru ákvæði um gjalddaga. Heimilt er að semja um aðra gjalddaga`` --- nú bið ég hv. þm. að taka vel eftir --- ,,en slíkir samningar hljóta að verða einstaklingsbundnir. Ef frv. verður að lögum
falla núgildandi samningar í þessu efni úr gildi, hvort sem þeir eru einstaklingsbundnir eða fólgnir í stofnsamningum félaga og ber að fara eftir reglum 29. gr. nema nýir samningar takist um aðra greiðslutilhögun en þar er ákveðin. Hitt er svo annað mál að framleiðendur geta síðar notið hagnaðar afurðastöðvar sem eigendur hennar, hvort sem er í samvinnufélagi, hlutafélagi eða með öðrum hætti. Fari svo að afurðastöð inni lögmætar greiðslur ekki af hendi á réttum gjalddaga ber henni að greiða framleiðanda dráttarvexti með sama hætti og tíðkast í verslunarviðskiptum.``
    Virðulegi forseti. Ég læt þessar mikilvægu skýringar þessara þriggja lagamanna nægja hér til þess að sýna fram á það enn einu sinni hversu réttur bænda er ótvíræður í þessum efnum. Ég skil það ekki að hér úr þessum stóli telji menn það sem sjálfsagðan hlut að svona skýr niðurstaða sé ekki virt að fullu og öllu.