Stofnlánadeild landbúnaðarins
Þriðjudaginn 08. nóvember 1988

     Flm. (Egill Jónsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingar á lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins. Þetta mál hef ég áður flutt í þessari virðulegu deild á 109. löggjafarþingi. Það var síðbúið á því þingi og náði ekki fram að ganga. Með frv. fylgdi þá ítarleg greinargerð sem er að mestu leyti óbreytt frá því sem þá var. Hún greinir frá viðhorfum sem uppi voru þegar lögin voru sett og síðan þeim breytingum sem voru gerð á lögunum, bæði árið 1971, 1973 og svo 1978. Síðan hefur þessari löggjöf ekki verið breytt, ekki að neinu marki a.m.k.
    Ástæðan fyrir því að ekki hafa verið gerðar breytingar síðan er væntanlega sú að þá var tekin ákvörðun um að verðtryggja öll útlán Stofnlánadeildarinnar. Síðan hefur Stofnlánadeildin bætt rekstur sinn ár frá ári, en fram að þeim tíma komu jafnan upp rekstrarerfiðleikar hjá deildinni, sérstaklega þegar áttu sér stað breytingar á gengi, því að útlán hennar til landbúnaðarins voru þá og sérstaklega framan af ekki gengistryggð eða verðtryggð og urðu það ekki að fullu fyrr en með lögunum 1978.
    Við setningu stofnlánadeildarlaganna var kveðið á um að bændur skyldu greiða til deildarinnar hliðstætt gjald og til Búnaðarmálasjóðs, 1% af framleiðsluverði landbúnaðarvara. Frv. sem ég legg hér fram gerir einmitt ráð fyrir að sú gjaldheimta verði lögð af. Fyrir því eru tvenn meginrök. Í fyrsta lagi er það að nú eru útlán deildarinnar verðtryggð og í öðru lagi að afkoma deildarinnar er orðin með þeim hætti að fjárhagur hennar er einkar traustur. Ég hygg að við síðustu áramót hafi varahöfuðstóll deildarinnar í varasjóði numið tæplega einum milljarði króna en sá varasjóður hefur safnast upp á allra síðustu árum. Það gefur að sjálfsögðu auga leið að það eru algjörlega breyttar aðstæður að því er varðar þessa tekjuöflun deildarinnar frá því sem var meðan deildin var jafnvel með neikvæðan fjárhag eins og Ræktunarsjóður og Byggingarsjóður Búnaðarbankans voru með þegar lögin voru sett árið 1962. Það er að sjálfsögðu grundvallaratriði í sambandi við frv. að þessar aðstæður hafa breyst. Í stað þess að stofnlánasjóðir landbúnaðarins voru þá með neikvæðan höfuðstól er Stofnlánadeildin núna komin með í varasjóð upphæð sem nemur tæplega einum milljarði króna. Þetta er að sjálfsögðu gífurlega verðmæt niðurstaða, sýnir m.a. hversu trúverðugir viðskiptaaðilar bændur landsins eru.
    Það er af þessari ástæðu sem lagt er til að stofnlánadeildargjaldið verði lagt niður. Það þýðir, að því er ég hygg, svona u.þ.b. 3% tekjuaukningu fyrir bændur landsins og þó að það sé út af fyrir sig ekki há tala þá munar þó um það sem minna er í þeim efnum, auk þess sem fleiri gjöld hvíla á bændum landsins sem full ástæða væri til að endurskoða að einhverju marki.
    Nú hefur því verið við borið sem andmælum gegn frv. að þetta mundi þrengja stöðu Stofnlánadeildarinnar og þá sérstaklega að því er varðar rekstur hennar. Það mundi valda erfiðleikum

hjá deildinni að mæta vissri þörf sem jafnan getur verið fyrir hendi til að fresta eða heimila bændum að draga greiðslur á afborgunum vaxta og öðrum gjöldum sem til deildarinnar þarf að greiða. Það hef ég metið sem rök í þessum efnum. Þess vegna er lagt til að settur verði á fót sérstakur sjóður innan Stofnlánadeildarinnar sem hefði hliðstætt form á sér og Stofnfjársjóður fiskiskipa og að bændur mundu greiða af afurðaverði sínu inn í þennan sjóð 2% sem færðust inn á sérstakan reikning sem hver og einn búvöruframleiðandi mundi eiga við deildina.
    Síðan, eins og kveðið er á um í frv., mundu greiðslur af þessum reikningum færast inn í viðskipti við deildina, þannig að þær upphæðir gengju til þess að greiða vexti og afborganir af lánum hjá hverjum og einum bónda eftir nánari reglum sem eru í frv. og síðan færi fram uppgjör þannig að þeir sem ættu meira inni en sem næmi skuldbindingum fengju það reitt af hendi til sín en aðrir mundu gera ráðstafanir til þess að greiða það sem út af stæði.
    Menn bera það kannski fyrir sig að hér yrði um flókið reikningshald að ræða, en í þeim efnum ber að hafa það sérstaklega í huga að þegar er í rauninni fyrir hendi í þessum viðskiptum alveg sams konar bókhald að því er varðar Lífeyrissjóð bænda því að þar eiga sér stað með svipuðum hætti nákvæmlega sams konar viðskipti og hér eru lögð til. Það er þess vegna augljóst mál að tæknilega séð væri auðvelt að koma þessu í framkvæmd.
    Ég læt þessar skýringar mínar nægja, virðulegi forseti, og vísa þá enn og aftur og frekar til þeirrar greinargerðar sem fylgir í þingskjalinu og er býsna nákvæm og reyndar get ég bætt því við, eins og hefur raunar komið fram, um þær röksemdir sem fyrir hendi voru þegar ég lagði frv. fram að tíminn hefur unnið með þeim þannig að staða deildarinnar hefur stórlega batnað frá því að ég flutti þetta mál hér á Alþingi. Með tilliti til þeirra breyttu uppgjörshátta í landbúnaði, sem ég lýsti hér við fyrra málið sem tekið var til umræðu, er þessi breyting enn fremur fullkomlega eðlileg.
    Ég vil svo, virðulegi forseti, að lokinni þessari umræðu gera um það tillögu að málinu verði vísað til 2. umr. og landbn.