Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 08. nóvember 1988

     Flm. (Matthías Bjarnason):
    Herra forseti. Þetta frv. sem ég mæli hér fyrir er að meginefni sama frv. sem flutt var á síðasta þingi, um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, og fjallar um það að útlán í helstu lánaflokkum í Byggingarsjóði ríkisins skiptist í sama hlutfalli milli kjördæma og greitt er til lífeyrissjóða.
    Með það í huga að miklir fjármagnsflutningar hafa átt sér stað frá landsbyggðinni í skjóli húsnæðislánakerfisins, sem ekki varð séð fyrir við næstsíðustu breytingar á húsnæðislánakerfinu, tel ég nauðsynlegt að þetta sé gert.
    Enn fremur er í frv. ákvæði um að Byggingarsjóð ríkisins megi varðveita í öðrum lánastofnunum en Seðlabanka Íslands, að fyrirtæki geti sótt um almenn húsnæðislán til að byggja leiguíbúðir fyrir starfsfólk sitt, að lán megi veita til að auðvelda byggingu almennra leiguíbúða fyrir aldraða og að heimilt sé að breyta kjörum á óhagstæðum eldri húsnæðislánum til samræmis við núverandi kjör.
    Eins og fram kemur í grg. og töflu með þessu frv., sem raunar kom einnig með frv. sem flutt var í fyrra, þá kemur í ljós í þeirri grg. sem fylgdi frv. þá að skipting lánsloforða eftir kjördæmum er þessi, þ.e. bæði fjöldi lánsloforða og hlutfall: Reykjavík var í fyrra með 4326 lánsloforð og hlutfallið 48,3%, en miðað við skiptingu lánsloforða 12. okt. sl. er Reykjavík með 6237 lánsloforð og hlutfallstalan er 46,7%. Reykjanes kemur þar næst á eftir. Í fyrra var það 2192, hlutfall 24,5% en er nú samkvæmt þessum tölum 3401 lánsloforð og hlutfallið 25,5%. M.ö.o.: Hlutur lánsloforða var í fyrra 72,8% á þessu svæði, Reykjavík og Reykjanessvæðinu, á móti 72,2% nú miðað við 12. okt.
    Skiptingin hjá öðrum kjördæmum í landinu er í fyrra 418, nú 605, hlutfall í fyrra 4,7% og nú 4,5% hvað Vesturland varðar; 280 í fyrra, nú 393 eða 3,1% og nú 2,9% á Vestfjörðum; á Norðurl. v. í fyrra 209, nú 333, hlutfallið er 2,3%, er núna örlítið hærra eða 2,5%; Norðurl. e. í fyrra 673, hlutfall 7,5% og nú 1065 og hlutfall 8%. Á Austurlandi eru það 298 í fyrra, 486 nú eða 3,3% í fyrra en 3,6% nú; og á Suðurlandi 502 í fyrra, 701 núna, hlutfall 5,6% í fyrra en núna 5,2%. Óskilgreint eru 60 lánsloforð í fyrra en 137 núna, en hlutfallið er það sama, 0,7% í báðum tilfellum.
    Með því að skoða framtaldar launagreiðslur eftir kjördæmum fæst einna öruggasta vísbendingin um hvernig greitt er í lífeyrissjóð, en þá ber að gæta þess að sumir lífeyrissjóðir eru fyrir launþega á öllu landinu og því er réttindamyndun í þeim bundin við tiltekna landshluta. Þess vegna er ekki unnt að miða við hvar lífeyrissjóðirnir starfa til þess að reikna út tilflutning á fjármagni með húsnæðislánakerfinu.
    Á árinu 1987 nam fjármagn frá lífeyrissjóðum yfir 90% af útlánum Byggingarsjóðs ríkisins, en afgangur er eigið fé og framlag ríkissjóðs. Eigi að reyna að finna út hvernig eigið fé húsnæðislánakerfisins eða framlag ríkissjóðs sé myndað miðað við kjördæmi er skipting launagreiðslna eftir kjördæmum einna

raunhæfasta viðmiðunin, ekki síst vegna fyrri tengsla launaskatts og húsnæðislána.
    Á töflu 2 sem fylgir með frv. á bls. 3 er sýndur tilflutningur fjármagns á milli kjördæma með húsnæðislánakerfinu. Miðað við þær heimildir sem við flm. höfum fengið, þá er fyrri heimildin (þ.e. tafla 1) frá Húsnæðisstofnun ríkisins en sú sem ég tala hér um er bæði frá Húsnæðisstofnun og Byggðastofnun.
    Framtaldar launagreiðslur eru í Reykjavík um 37,4%. Árlegt framlag til lánsloforða miðað við 5800 millj. kr. árleg útlán eru því 2169 millj. kr. hér í Reykjavík. Þá hefur tilflutningur annars staðar frá orðið hingað til Reykjavíkur um 540 millj. kr. á móti 995 millj. kr. sem var samkvæmt upplýsingum þegar frv. var flutt í fyrra. Í Reykjaneskjördæmi eru framtaldar launagreiðslur 24,6% og árlegt framlag 1427 millj. kr. Tilflutningur til kjördæmisins er því 52 millj. kr. sem hefur aukist frá því í fyrra, en þá stóð það á jöfnu.
    Í öllum öðrum kjördæmum hefur tilflutningurinn orðið frá þeim og til þessara tveggja þannig að frá Vesturlandi hafa framtaldar launagreiðslur orðið 6,2% og árlegt framlag lánsloforða 360 millj. kr., þannig að þaðan hefa farið 99 millj. kr. miðað við 125 í fyrra. Á Vestfjörðum eru framtaldar launagreiðslur 4,5% og árlegt framlag lánsloforða 261 millj. kr., en þaðan hafa farið 93 millj. kr.; Norðurl. v. er með framtaldar launagreiðslur 4%, árlegt framlag 232 millj. kr., þaðan hafa því farið 87 millj. kr.; Norðurl. e. er með framtaldar launagreiðslur 10%, árlegt framlag 580 millj. kr. og tilflutningur framlags 116 millj. kr.; Austurland með framtaldar launagreiðslur 5,2%, árlegt framlag 302 millj. kr., tilflutningur hefur orðið þar frá þeim 93 millj. kr.; og Suðurland er með framtaldar launagreiðslur 8%, árlegt framlag 464 millj. kr. og tilflutningur frá þeim 162 millj. kr. Óskilgreint hafa orðið 58 millj. kr. á móti 60 millj. kr. í þeim upplýsingum sem fylgdu frv. þegar það var síðast flutt.
    Ég held að það fari ekki á milli mála og verði að teljast sjálfsögð leið
að gera þessa breytingu á húsnæðislánakerfinu. Við vitum það og finnum að landsbyggðin á sífellt meira í vök að verjast. Byggingarmál þar hafa dregist meira saman en sú nefnd gerði ráð fyrir sem endurskoðaði húsnæðislánakerfið. Ég er sammála þeirri nefnd og starfsemi hennar að það var nauðsynlegt að gera kerfið eins einfalt og hægt er að svo miklu leyti sem hægt var að kalla það einfalt. Hins vegar skal ég játa það að þetta er ekki einföldun heldur verður einhver meiri vinna ef þetta frv. nær fram að ganga í þeirri mynd sem það er flutt eða líkri mynd, en það verður landsbyggðinni til mikils gagns og það verður líka t.d. höfuðborgarsvæðinu til mjög mikils gagns að draga hér úr þeirri spennu sem ríkt hefur því það fylgir því mikill kostnaður fyrir hvaða sveitarfélag sem er sem á að taka við sífellt fleiri íbúum, það verður að byggja svo margt sameiginlegt þannig það er ekki allt hagnaður fyrir sveitarfélögin sem fólkið flytur til. Það eru einnig af því töluverð útgjöld, en við það koma

þyngri útgjöld á þau byggðarlög sem missa íbúana í burtu.
    Á Fjórðungsþingi Vestfirðinga, sem haldið var í septembermánuði, var samþykkt ályktun sem var flutt af, ég held ég megi segja, fulltrúum úr flestum eða öllum stjórnmálaflokkum sem áttu þar fulltrúa. Þar lýsir þingið yfir stuðningi sínum við frv. um breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, sem flutt var af Vilhjálmi Egilssyni og mér á síðasta þingi. Skorar þingið á stjórnvöld eða flm. að taka þetta mál upp að nýju.
    Ég vil líka segja það að við 1. flm. þessa máls í fyrra urðum varir við mikinn áhuga fólks víðast hvar úti á landi á framgangi þessa máls. Frv. var flutt tiltölulega seint á síðasta þingi og var því ekki óeðlilegt að það hlyti ekki afgreiðslu þá. En nú er það flutt hér svo að segja í þingbyrjun og er verið að kynna það hér öðru sinni svo að ég leyfi mér að gera mér vonir um að menn taki þessu frv. vel. Það var svo sannarlega gert við þá einu umræðu sem átti sér stað í þessari hv. deild því þeir sem til máls tóku töldu hér vera hreyft mikilsverðu máli sem nauðsynlegt væri að skoða gaumgæfilega. Við flm. þessa frv. vonumst því til að hv. þingdeild taki þessu frv. vel og við gerum okkur vonir um það að samstaða geti náðst um það að fá afgreiðslu á því nú á þessu þingi.
    Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.