Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 08. nóvember 1988

     Kristín Einarsdóttir:
    Herra forseti. Ég vil taka undir það með 1. flm. þessa frv. og frsm. að það er mjög brýnt að grípa til einhverra ráðstafana til að sporna við þeim fjármagnsflutningum sem eru í gegnum húsnæðiskerfið frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Ég er því samþykk megintilgangi þessa frv. Það sem ég hef kannski mestar áhyggjur af er það sem flm. minntist á hér síðast, að þessi leið kosti mikla vinnu og geti orðið mjög flókin í framkvæmd. Þetta gæti orðið mikið apparat, eins og ég er frekar á móti, að þetta verði enn þá flóknara og að það muni fylgja þessu mikil skriffinnska. Það má t.d. benda á að margt af því fólki sem sækir um húsnæðislán og býr úti á landsbyggðinni sækir ekki um lán til þess að byggja í sínu eigin kjördæmi þannig að þetta getur orðið dálítið flókið í framkvæmd. Fólk getur hugsanlega átt lögheimili í ákveðnu kjördæmi og búið annars staðar eða ætlað sér að byggja í kjördæmi, flytja hugsanlega frá Reykjavík og eitthvert út á land eða frá einum stað til annars. Þannig að þetta getur orðið dálítið erfitt í útfærslu. En ef fólk vill þá er það sjálfsagt hægt og er það tæknilegt mál sem e.t.v. er hægt að framkvæma.
    Spurningin er hvort það þyrfti ekki bara sérstaka húsnæðisstofnun í hvert kjördæmi. Ég held að það verði allt of mikið og flókið mál og hætt við að mikill kostnaður yrði því samfara. En ég tel fyllstu ástæðu til að kanna hvernig hægt er að breyta þessum fjármagnsflutningum.
    Það er alveg ljóst að það þarf að auka mjög framlag til leiguíbúða, sérstaklega úti á landi en reyndar í Reykjavík líka. Ég tel að það sem er brýnasti og mesti vandinn og brýnast að leysa sé einmitt bygging leiguíbúða og að meiri hluti fólks sé hlynntur því að fá miklu fleiri leiguíbúðir en hætta þessum byggingum á eignaríbúðum alls staðar.
    Varðandi 6. gr. frv. þá er þar gert ráð fyrir því að veitt verði hámarkslán til sérhannaðra sölu- og leiguíbúða fyrir aldraða. Reglurnar sem gilda núna eru þær að 65% af kostnaði af leiguíbúðum fyrir aldraða er greiddur, þ.e. lánað er fyrir 65% af kostnaðinum, þannig að ef þessi grein yrði samþykkt óbreytt þá gæti þetta hugsanlega verið minni lánsréttur en nú er, a.m.k. í einhverjum tilvikum. Það þyrfti því að kanna það nánar hvernig þetta kæmi út, hvort þessi breyting eins og hún er orðuð þarna mundi ekki skerða rétt einhverra. Mér er líka kunnugt um að um söluíbúðirnar gilda sérstakar reglur sem þarf þá að kanna í sambandi við þessa grein.
    En ég vil ítreka það að ég tek undir megintilgang þessa frv. þó að ég telji að aðrar lausnir gætu e.t.v. verið betri til að breyta þessum flutningi á fjármagni frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins.