Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 08. nóvember 1988

     Alexander Stefánsson:
    Herra forseti. Ég vil lýsa yfir stuðningi við það sem liggur á bak við þetta lagafrv. Ég held að það sé enginn vafi á því að það er rétt stefna, sem kemur hér fram, að reyna að sjá til þess að það fjármagn sem skylda er að leggja til í gegnum opinbera sjóði verði ekki flutt, að það verði nýtt á heimaslóðum eins og hér er gert ráð fyrir.
    Það var aðeins eitt atriði sem mig minnir að ég hafi gert athugasemd við þegar þetta frv. var fyrst lagt fram. Það er nauðsynlegt að finna möguleika á því að lagaákvæði hamli ekki gegn því að ef einhver svæði úti á landsbyggðinni yrðu þeirrar gæfu aðnjótandi að þar yrði uppsveifla í atvinnulífi og öðru slíku sem mundi þýða miklu meiri þörf fyrir íbúðarhúsnæði á viðkomandi svæði heldur en kannski þessar töflur gera ráð fyrir, að ákvæði í lögum um aðgengi að lánum á viðkomandi svæði hömluðu ekki gegn því að slík framþróun gæti orðið með eðlilegum hætti inni í lánakerfinu. Ég held að það sé nauðsynlegt að taka þetta með í athugun á þessu máli þannig að það sé alveg öruggt að það yrði ekki bremsa á mikilli uppsveiflu í byggingarsvæði þar sem tilefni gæfist til, vonandi sem víðast.
    Ég vildi aðeins koma þessu að til þess að það yrði þá tekið með í athugun málsins. Að öðru leyti lýsi ég því yfir að ég tel að hér sé gott mál á ferðinni og sjálfsagt að finna flöt á að afgreiða það.