Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 08. nóvember 1988

     Pálmi Jónsson:
    Herra forseti. Ég þakka þær undirtektir sem fram hafa komið hjá hv. þm. hér í þessari hv. deild sem tekið hafa til máls um þetta frv. sem nú er flutt öðru sinni að mestu óbreytt.
    Ég held að það sé óhjákvæmilegt, eins og fram kom hjá 1. flm. og frsm. frv., hv. 1. þm. Vestf., að bregðast nú við í þessum málum á þann hátt að stöðvað verði fjármagnsstreymi í gegnum opinbera sjóði til höfuðborgarsvæðisins utan af landsbyggðinni, þannig að féð streymi ekki eftir opinberum farvegum beinlínis til þess að auka á þenslu og uppbyggingu hér á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er vitaskuld ekki mælt til þess að draga úr nauðsyn þess að halda áfram eðlilegri uppbyggingu hér í höfuðborginni en við höfum öll daglega fyrir augunum hvað þensluástandið hér í Reykjavík hefur mikinn kostnað í för með sér fyrir Reykvíkinga sjálfa og fyrir þjóðarbúið. Þessi kostnaður á eftir að fara vaxandi, ekki síst í gífurlegum framkvæmdum í samgöngukerfi sem er einn sá þáttur sem er dýrastur þegar borg á stærð við Reykjavík heldur áfram að vaxa stórlega.
    Ég hef auðvitað ekki neina ástæðu til að bæta verulega við það sem hv. 1. flm. hefur glögglega gert grein fyrir. Ég vil aðeins segja það að við flm. frv. erum auðvitað opnir fyrir þeim hugmyndum sem kynnu að vera enn til bóta á því kerfi sem frv. gerir ráð fyrir að breyta, þar á ég við til að mynda ábendingu hv. 1. þm. Vesturl. Það er eðlilegt að gefa því mjög gaum hvort hægt er að finna ákvæði til að setja inn í frv. sem svari því sem hann hefur hér getið um.
    Ég tel hins vegar ekki neina sérstaka ástæðu til að óttast það sem fram kom hjá hv. 12. þm. Reykv. að hér verði um allt of flókið kerfi að ræða. Við vitum það að nú eru þessi mál unnin á allt annan máta en áður var. Tölvukerfið hefur komið þar til hjálpar og leysir það margan vanda t.d. þegar um skiptingu á fjármagni er að ræða. Ég held að það sé ekki ástæða til að óttast að það kerfi sé svo flókið að við það verði ekki ráðið með tiltölulega auðveldum hætti. Það er auðvitað ekki meiningin eftir þessu frv. að setja upp sérstaka húsnæðisstofnun í hverju kjördæmi þó að það fé sem hvert kjördæmi leggur til í húsnæðiskerfið sé ávaxtað í innlánsstofnunum í heimabyggð og það fé sem þannig fellur til í hverju kjördæmi sé notað til uppbyggingar þar. Þetta þýðir ekki að við séum að leggja til að taka upp sex eða sjö nýjar húsnæðisstofnanir.
    Það er vitaskuld ekkert ofsagt að þetta nýja húsnæðiskerfi hefur verið gagnrýnt eins og að er vikið bæði í grg. frv. og í ræðu hv. 1. flm. Það er ekki hægt að una því að kerfi gildi áfram sem virkar með þessum hætti. Við megum ekki við því á landsbyggðinni, sem stendur afar veikt nú um þessar mundir, að löggjöf beinlínis virki þannig að draga þaðan fé til að auka á þenslu í öðrum landshluta, þ.e. á höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna er það algjör nauðsyn að bregðast við þessu með því að breyta lögunum eins og hér er lagt til. Ég vil því taka mjög

undir það að að þessu verði staðið á þann máta að þetta frv. verði afgreitt. Við flm. erum opnir fyrir því að taka inn einhver þau atriði sem kynnu að þykja enn til bóta eða að útfæra þetta nánar ef mönnum þykir það við horfa, en ég tel að það sé afar þýðingarmikið að stefna að því að afgreiða þetta mál á þessu þingi.
    Ég vil gjarnan bæta því við, sem út af fyrir sig kemur ekki þessu frv. við, að þegar hið nýja húsnæðiskerfi var tekið upp með mjög auknu fjármagni, sem lofað var húsbyggjendum árið 1986, þá tel ég að það hafi í sjálfu sér verið efnahagsleg mistök vegna þess hvað fé til þessa málaflokks var aukið skyndilega um mikla fjármuni. Það leiddi til þess í fyrsta lagi að meðalíbúð í blokk hækkaði um sem svaraði 1 millj. kr. á örfáum vikum. Það leiddi til þess að umsóknir streymdu inn sem allar fengu lánsloforð fyrsta kastið þangað til að kerfið sprakk, og það varð aftur til þess að glæða mjög, að ég segi ekki hrinda af stað því þensluástandi sem upp kom hér á höfuðborgarsvæðinu á árunum 1986 og 1987.
    Þetta er eitt dæmi um það að mjög miklar og hastarlegar sveiflur í meðferð fjármuna verða til þess að raska efnahagslegu jafnvægi sem okkur er meiri nauðsyn á að halda hér á okkar landi heldur en margir hafa gert sér grein fyrir.
    En þessi þáttur málsins kemur í sjálfu sér ekki þessu frv. við. Hann fjallar aðeins um það sem þar greinir: að bregðast við öðrum galla þessara laga og þessa kerfis, sem sé því að stöðva fjárstreymið af landsbyggðinni í gegnum húsnæðiskerfið og taka þar upp nýtt fyrirkomulag sem ætti að verða til þess að meiri friður ríki um þessi efni en verið hefur nú síðustu árin.