Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 08. nóvember 1988

     Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir:
    Herra forseti. Ég vil lýsa stuðningi mínum við þetta frv. sem mér finnst réttlætismál. 2. gr. frv. hljóðar á þennan veg, með leyfi forseta:
    ,,Fyrri málsgr. 10. gr. laganna orðist svo:
    Byggingarsjóður ríkisins er í vörslu Seðlabanka Íslands og annarra bankastofnana sem húsnæðismálastjórn semur við. Skal leitast við að fé sjóðsins sé ávaxtað í byggðarlögum sem næst í samræmi við lán til sjóðsins og lánveitingar hans.``
    Þetta er í raun og veru alveg í samræmi við það sem við borgaraflokksmenn höfum verið að halda fram, að hvert byggðarlag eigi að njóta afraksturs síns erfiðis. Það er vafalaust hægt að finna einhverja agnúa á þessu en þá hlýtur að vera hægt að sníða af. En við sem erum borgarbúar getum ekki bæði verið að tala um að rétta hlut landsbyggðarinnar, gera hlut landsbyggðarinnar réttlátari og ljá því svo ekki eyra þegar landsbyggðarmenn koma og leita réttar síns.
    Ég sem sagt kem hérna upp óviðbúin en eingöngu til þess að lýsa stuðningi við þetta mál.