Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 08. nóvember 1988

     Jón Sæmundur Sigurjónsson:
    Herra forseti. Aðeins nokkur orð til að lýsa yfir stuðningi við þá grundvallarhugsun sem felst í frv. sem hér er til umræðu. Á undanförnum árum hefur þróunin verið sú, og verið mjög til vandræða fyrir landsbyggðina, að fjármagn hefur streymt hingað til höfuðborgarsvæðisins og aukið á þá þenslu sem hér hefur skapast, m.a. ein sog hv. 2. þm. Norðurl. v. lýsti hér áðan vegna breytinga á húsnæðislöggjöfinni á sínum tíma. Þess vegna held ég að frv., sem lýsir þeirri hugsun að fjármagn skuli ávaxtað í heimabyggð og notað að meginstofni til framkvæmda þar, sé af réttum toga.
    Nú þarfnast frv. að sjálfsögðu nánari athugunar, sérstaklega með tilliti til þeirrar hugsunar sem kom fram hjá 1. þm. Vesturl. varðandi þá hættu sem getur skapast ef viss svæði úti á landsbyggðinni lenda í fjármagnshungri vegna þess að það fjármagn sem verður til á staðnum verður einungis notað til fjárfestinga þar og ekki annars staðar. Það þarf þess vegna visst flæði á milli svæða og frelsi þarf að vera til þess.
    Það er athyglisvert í sambandi við frv. að þeir flm. sem að því standa koma úr Sjálfstfl. Það hefur yfirleitt verið grundvallarhugsun hjá sjálfstæðismönnum og öðrum borgaralegum flokkum að viðhalda frelsi fjármagnsins og að flæði þess skuli yfirleitt vera óheft. Það er allrar athygli vert að einmitt fulltrúar frá slíkum flokki skuli komast að þeirri niðurstöðu að sú grundvallarhugsun sé í raun ekki rétt og eigi a.m.k. ekki við hér á landi.
    Það kom fram hjá hv. 11. þm. Reykn. Hreggviði Jónssyni að hann teldi að frv. miðaði að átthagafjötrum. Ég er að vísu ekki hingað kominn til að verja frv. á neinn hátt, það gera flm. þess væntanlega, en ég get ekki séð að það hafi vakað fyrir flm., enda stendur í 4. gr. að skiptingu útlána milli kjördæma skuli miða við búsetu umsækjanda, þ.e. útlán skuli veitt til viðkomandi eftir hans búsetu en ekki miðað við framkvæmdastað þannig að viðkomandi gæti þá væntanlega framkvæmt á þeim stað sem hann hugsar sér einna helst. Því sýnist mér að grundvallarhugsunin beinist miklu heldur að ávöxtuninni en að framkvæmdinni og þá erum við aftur komnir að hinni grundvallar borgaralegu hugsun, að það er þó tryggt eitthvert frjálst flæði fjármagnsins.
    Hvað varðar 7. gr. um vexti af lánum Byggingarsjóðs ríkisins sé ég ekki að hún breyti mjög miklu. Ég sé ekki að miklar breytingar verði á núverandi skipan. Vextir á lánum Byggingarsjóðs eru breytilegir, ríkisstjórnin tekur ákvörðun um vexti á hverjum lánaflokki á hverjum tíma þannig að ég sé ekki að þessi grein breyti mjög miklu.
    Ég vil síðan endurtaka samþykkt mína við þá grundvallarhugsun sem liggur að baki frv.