Fjarvera allra forseta Sþ. samtímis
Miðvikudaginn 09. nóvember 1988

     Forseti (Óli Þ. Guðbjartsson):
    Forseti getur upplýst fyrirspyrjanda, hv. 2. þm. Vestf., um það að forsetar deilda hafa ekki komið saman til úrskurðar í því efni sem fyrirspurnin fól í sér, enda býst forseti ekki við því að það verði á einn eða neinn hátt í þeirra verkahring að fjalla um slíkt. Hins vegar ætti hv. þm. eins og öðrum að vera vel kunnugt um að í næstu viku hefur verið boðaður aukafundur Norðurlandaráðs og það liggur líka fyrir hverjir fulltrúar eru héðan kjörnir til þess fundar. Alþingi hefur ekki breytt þar neinu um enn þá. Þess vegna getur forseti ekki uppfrætt hv. 2. þm. Vestf. frekar um þetta efni.
    Hins vegar hefur forseti Sþ. þegar tilkynnt um ætlun funda í næstu viku og það ætla ég að öllum sé þegar vitanlegt.