Útflutningsleyfi
Miðvikudaginn 09. nóvember 1988

     Flm. (Hreggviður Jónsson):
    Hæstv. forseti. Hér liggur fyrir frv. til l. um breytingu á lögum um útflutningsleyfi, nr. 4 frá 11. jan. 1988. Flm. eru Hreggviður Jónsson, Ingi Björn Albertsson og Óli Þ. Guðbjartsson. Með leyfi forseta ætla ég að lesa upp hvað stendur í frv. en það er svohljóðandi:
    ,,1. gr. 1. gr. laganna orðist svo:
    Útflutningur hvers konar er frjáls og óháður útflutningsleyfum.
    Útflytjendur eru þó skyldir að veita utanrrn. þær upplýsingar, sem óskað er, um magn og tegund vara eða vinnu sem seld er til útlanda.
    Utanrrn. er heimilt að viðurkenna og hafa samvinnu við félög í einstökum atvinnugreinum sem hafa með gæðaflokkun á einstökum vöruflokkum að gera og getur löggilt slík félög.
    2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Frv. þetta er flutt til að draga úr miðstýringu ríkisins. Frjáls útflutningur er forsenda efnahagsframfara og þegar til lengdar lætur skilar hann meiri og betri tekjum í þjóðarbúið en nú er. Það að binda útflutning á vörum leyfisveitingum frá utanrrn. er tímaskekkja og leifar gömlu selstöðuverslunarinnar. Þótt verðfall geti orðið á erlendum mörkuðum vegna offramboðs á stundum er ekki rétt að taka þá ábyrgð og áhættu frá útflytjendum sem ávallt fylgir frjálsum markaðslögmálum. Þegar útflytjendur hafa áttað sig á hvaða lögmál gilda á mörkuðum erlendis munu þeir halda vel á þeim málum. Útflytjendur geta hins vegar sjálfir haft samráð eða félagsskap á milli sín óháð stjórnvöldum.
    Nú eru allt aðrar forsendur fyrir verslun en fyrst eftir að við fengum hana í okkar hendur. Fjöldi vel menntaðra manna á sviði viðskipta og markaðssetningar er nú í landinu og reynslumiklir kaupsýslumenn sem aðallega eru í innflutningi en gætu vel tekið mun virkari þátt í gjaldeyrisöflun þjóðarinnar en hingað til.
    Nauðsynlegt er samt sem áður að halda uppi gæðaeftirliti og má í því sambandi t.d. efla starfsemi eins og Ríkismat sjávarafurða. Gæðaflokkun og gæðamerking á útfluttum vörum mun skila góðum árangri og má í því tilliti taka Japana sér til fyrirmyndar og gæðamerkingu ýmissa frjálsra neytendasamtaka.``
    Hæstv. forseti. Með þessu frv. er í raun verið að rjúfa síðustu böndin sem bundin voru á dögum einokunarverslunar Dana. Þá voru aðeins valdir herrar sem fengu að flytja út vörur. Nú er að sönnu margfalt rýmra um útflutning og í mörgum greinum útflutningsfrelsi. Samt sem áður verður að afla útflutningsleyfa á nokkrum vörutegundum sem ekki verður séð að þörf sé á að hafa.
    Eins og frjáls milliríkjaviðskipti örva verkaskiptingu milli þjóða og þar með betra og meira og ódýrara vöruval leiða þau til verkaskiptingar milli einstaklinga á Íslandi og leysa úr læðingi og nýta starfsorku hvers einstaklings betur. Sú menntun, reynsla og þekking sem fjöldi einstaklinga í viðskiptum hefur aflað sér á

undanförnum árum er dýrmæt eign sem aðeins nýtist til fullnustu með útflutningsfrelsi.
    Verðmæti framleiðslu okkar innan einstakra atvinnugreina verður best tryggt með frelsi til athafna. Sú athöfn þýðir og að verðmæti útflutningsvara og útfluttrar þjónustu verður meira og ef til lengri tíma er litið þýðir þetta meiri gjaldeyristekjur.
    Þar sem þau stjórnvöld sem veita öll útflutningsleyfi eru valin eftir stjórnmálalegum sjónarmiðum fylgja þessu fyrirkomulagi ýmsir gallar sem erfitt er að koma í veg fyrir. Hér má nefna kunningsskap, mútur og hrossakaup. Þetta leiðir einnig af sér jafnvægisleysi og gerir útflutningsverslunina oft óhagkvæma og hætt er við að svartur markaður myndist með neðanjarðarbraski við slíkar aðstæður. Þetta gerir og allan útflutning miklu þyngri í vöfum og hefur ýmsan kostnað í för með sér.
    Einnig má benda á að í öllum haftakerfum verður sú tilhneiging að hlaða stöðugt utan á sig nýjum takmörkunum og reglum. Ljósasta dæmið er núverandi fiskveiðistefna sem verður æ meiri óskapnaður án þess að með henni sé náð þeim markmiðum að auka fiskveiðarnar og vernda fiskistofna.
    Stefna fríverslunarmanna hefur eftir síðari heimsstyrjöld getið af sér mestu velsæld fyrir hinn vestræna heim sem sögur fara af og er nú ásamt starfi NATO að orsaka ótrúlega hluti. Hver hefði við lok síðustu heimsstyrjaldar látið sér detta í hug samruna stjórnmálaafla í Evrópu, niðurfellingu landamæra og frjálsan markað innan Efnahagsbandalagsins sem var stofnað 1957? Hverjum hefðu dottið í hug áhrifin af starfi EFTA sem var stofnað 1959?
    Hér á landi hefur stefnt í rétta átt hægt og sígandi. Frelsi til útflutnings er eina leiðin til að tryggja okkur góða og örugga markaði til frambúðar. Þeir erfiðleikar sem hafa komið upp á frjálsum mörkuðum eins og ferskfiskmörkuðum eru fyrst og fremst afleiðing rangrar fiskveiðistefnu þar sem haftakerfið hefur skekkt útkomuna. Þrátt fyrir frjálst fiskverð og fiskmarkaði hefur ekki tekist að ná þeirri hagkvæmni sem mætti ná vegna þess að útkoman er gerð röng með útflutningsleyfum, kvótum, rangri fjárfestingu, niðurgreiddu bankakerfi og óþörfum afskiptum stjórnmálamanna.
    Þau einu afskipti af útflutningi sem eru nauðsynleg eru vöruvöndun og eftirlit með gæðum. Í því sambandi er gæðaeftirlit og gæðamerking nauðsyn. Ríkismat sjávarafurða hefur á því sviði unnið gott starf bæði með úttekt á fiskvinnslustöðvum og með eftirliti á gæðum á fiski. Efling á slíkri starfsemi er því nauðsyn og forsenda frjáls útflutnings nú. Því er í frv. gert ráð fyrir að utanrrn. sé heimilt að viðurkenna og hafa samvinnu við félög í einstökum atvinnugreinum um gæðaeftirlit og geti löggilt þau.
    Hæstv. forseti. Í stefnuræðu forsrh. á Alþingi fyrir nokkrum dögum sagði hann, með leyfi forseta:
    ,,Í atvinnumálum verður lögð áhersla á hagvöxt og skynsamlega nýtingu sameiginlegra auðlinda þjóðarinnar. Tekið verður í því sambandi fyllsta tillit til byggðasjónarmiða. Byggt verður á athafnafrelsi

einstaklinga og félaga og frjálsræði í milliríkjaviðskiptum. Hvatt verður til ábyrgðar eigenda þannig að arðsemissjónarmið ráði ákvörðun.``
    Nú er spurning mín þessi: Er þetta stefna ríkisstjórnarinnar allrar eða er þetta aðeins stefna hæstv. forsrh.? Styðja allir flokkar ríkisstjórnarinnar frjálsræði í milliríkjaviðskiptum eða eru þetta orðin tóm?
    Um stefnu Sjálfstfl. þarf ekki að spyrja. Þingmenn hans hljóta að styðja þetta frv. eða svo skyldi maður a.m.k. ætla.
    Hæstv. forseti. Ég hef lokið máli mínu og óska eftir að frv. verði vísað til 2. umr. og fjh.- og viðskn.