Útflutningsleyfi
Miðvikudaginn 09. nóvember 1988

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Herra forseti. Aðeins örfá orð í tilefni af flutningi þessa frv. og þeirri framsöguræðu sem við hlýddum á, framsöguræðu 11. þm. Reykn.
    Hv. þm. spurði: Styðja aðildarflokkar núv. ríkisstjórnar það sem í málefnasamningi stendur um að stefna okkar í milliríkjaviðskiptum sé sú að stuðla að sem mestu frjálsræði í viðskiptum, byggja á grundvallarreglum um fríverslun? Svarið við því er já. Allir aðildarflokkarnir hafa undirgengist þá stefnuyfirlýsingu sem þarna kemur fram.
    Jafnframt er þess að geta að eitt helsta viðfangsefni stjórnvalda á vettvangi milliríkjaviðskipta á næstu mánuðum, missirum og árum er í því fólgið að laga íslenskt efnahags- og atvinnulíf, grundvallarreglur þess og starfsskilyrði að þeirri þróun sem nú á sér stað á meginlandi Evrópu. Þá er ég að sjálfsögðu að vísa til samræmingar innri markaðar Evrópubandalagsríkja fyrir 1992 og viðræðna og samningaumleitana milli þeirra annars vegar og EFTA-ríkjanna um það að hrinda af stað samstiga þróun í þessu efni. Jafnframt vil ég bæta því við að það er mitt sjónarmið og okkar jafnaðarmanna að um leið og við fögnum þessari þróun í Evrópu í átt til þess að ryðja úr vegi viðskiptahindrunum og stuðla að því að koma með kerfisbundnum hætti á stærri og öflugri markaði meðal Evrópuþjóða og ryðja þar með úr vegi viðskiptahindrunum, þá leggjum við á það áherslu að þessi þróun má ekki verða til þess að hlaða upp nýjum viðskiptahindrunum, nýjum tollmúrum eða stuðla þar með að því að Evrópa vilji á einn eða annan hátt útiloka önnur ríki frá því að njóta ávaxta svipaðrar þróunar.
    Það er jafnframt stefna þessarar ríkisstjórnar að jafna skilyrði íslenskra atvinnuvega því sem gerist í samkeppnislöndum okkar. Útflutningsleyfakerfi er þess vegna einn af þeim þáttum sem taka ber til endurskoðunar. Í utanrrn. er nú unnið af hálfu embættismanna samkvæmt fyrirmælum ráðherra að heildarathugun á útflutningsmálum okkar með það að markmiði að draga úr vægi raunverulegra útflutningstakmarkana þó að eftirlitshlutverkinu verði sinnt eftir sem áður. Meðan á þeirri athugun stendur og hún hefur ekki leitt til endanlegrar niðurstöðu er ég ekki reiðubúinn til þess fortakslaust að gjalda jáyrði við þessu frv. Það er margt sem verður að athuga í því efni: alþjóðlegar skuldbindingar okkar, áhrifin af því að falla skyndilega og í einu átaki frá slíkum kerfum. Þetta eru hins vegar einungis álitamál en ekki ágreiningur um stefnu. Stefna okkar er sú að auka frelsi í viðskiptum hvar sem því verður við komið og í þeim samningum sem fram undan eru milli EFTA og Efnahagsbandalagsins á seinni hluta árs undir okkar forustu hlýtur það að verða meginmarkmiðið því að hinn innri markaður Efnahagsbandalagsins kallar á að við hröðum þessari aðlögun í okkar efnahagsstarfsemi, þar með talin útflutningsstarfsemi, að þeim viðskiptaháttum sem þar er verið að móta.
    Hitt er svo rétt að taka skýrt fram að það eru

vissir þættir í okkar utanríkisviðskiptum sem eðlis síns vegna kalla á sérstöðu eða sérstök viðbrögð af okkar hálfu. Ef spurt væri hvaða rök væru fyrir því víðtæka útflutningsleyfakerfi sem við enn búum við mundu menn tilfæra sérstaklega: Í fyrsta lagi sérstöðu markaða í hinum lokuðu hagkerfum sem við eigum umtalsverð viðskipti við og þá á ég einkum við Sovétríkin og Austur-Evrópu þar sem hingað til hafa gilt aðrar reglur um viðskipti en tíðkast í vestrænum ríkjum. Þetta kann að vera að breytast, en enn sem komið er er sú breyting fyrst og fremst í orði fremur en á borði. Sama máli gegnir um ýmsa hefðbundna markaði okkar í Suður-Evrópu, sérstaklega að því er varðar saltfisk. Þeir hafa hingað til lotið ákveðnum reglum ríkisfyrirtækja. Þá hef ég einkum í huga Portúgal. En að öðru leyti er um að ræða kvóta, nokkuð flóknar reglur um kvóta, þannig að við erum í þessum tilvikum tilneyddir að taka tillit til þeirra viðskiptahátta sem í þessum löndum ríkja og gæta þess að skaða ekki okkar eigin hagsmuni með því að víkja frá þeim.
    Í annan stað höfum við skuldbundið okkur til þess samkvæmt Bókun 6 í fríverslunarsamningi Íslands og Efnahagsbandalagsins frá árinu 1972, sem kom til framkvæmda 1976, að fullnægja skilyrðum um viðmiðunarverð Efnahagsbandalagsins á þeim fisktegundum sem njóta fríðinda. Þetta er meginskýringin á því hvers vegna útflutningsleyfakerfi hefur verið beitt til þess að hafa stjórn á framboði á ferskum fiski á uppboðsmarkaðina í Bretlandi og Þýskalandi. Þar er fyrst og fremst um að ræða skuldbindingu fyrir utan það að reynslan kenndi okkur á tímabilum þegar um mikið offramboð hefur verið að ræða að þar höfðu fyrirtækin, einstaklingarnir, atvinnufyrirtækin, hegðað sér óskynsamlega og það var ekki hvað síst til þess að bregðast við því og fyrir þrýsting utan að sem til þess var gripið að frumkvæði stjórnvalda. Spurningin er hins vegar sú hvort þessu megi koma fyrir á annan hátt án aðildar eða frumkvæðis ráðuneytis og það er auðvitað einn af þeim þáttum sem eru í endurskoðun eins og ég vék að áðan.
    Þá er þess í þriðja lagi að geta að kvótakerfi er viðhaft af hálfu Efnahagsbandalagsins t.d. varðandi útflutning á lambakjöti og það sama á við um sum önnur EFTA-ríki sem kallar á að við virðum það ef við viljum njóta þeirra fríðinda sem því fylgja að öðru leyti. Loks hefur verið hreyft þeim rökum að eftirlit með gjaldeyrisskilum vegna útflutnings kalli í sumum tilvikum á slík leyfakerfi þó þau rök geti undir engum kringumstæðum talist vega þungt.
    Herra forseti. Ég hef í stuttu máli gert grein fyrir afstöðu minni og ríkisstjórnarinnar út frá málefnasamningi hennar til þessa frv. Ég dreg það saman í eina setningu: Það er ekki ágreiningur um það meginmarkmið, þá stefnumörkun að við eigum eins og aðrar grannþjóðir okkar að stuðla að sem víðtækustu frelsi í viðskiptum og halda þannig á málum að við njótum tollfrjáls aðgangs að mörkuðum og veita það á móti.

    Við höfum hins vegar af sögulegum ástæðum búið við margvíslega ríkisíhlutun í þessu efni sem nú er til endurskoðunar, en sú endurskoðun tekur sinn tíma og henni þarf að ljúka áður en kveðið er upp úr með svo afdráttarlausum hætti um það að við víkjum frá því kerfi sem við nú búum við.