Útflutningsleyfi
Miðvikudaginn 09. nóvember 1988

     Guðrún Helgadóttir:
    Herra forseti. Ég vil byrja á því að lýsa því yfir að ég get ekki stutt þetta frv. einfaldlega vegna þess að ég tel að það sé afar hæpið að nokkuð það sé í því sem heitir frelsi í viðskiptum sem hugsanlega getur verið nokkurri þjóð til góða. Einnig þótti mér vanta í málflutning hæstv. utanrrh. hér áðan alla skilgreiningu á því um hvað hann var að tala. Hvað eiga menn við þegar þeir tala um frelsi í viðskiptum? Varla frelsi til þess að flytja út ónýta vöru sem ekkert gerir nema að skaða viðskiptamöguleika Íslands á erlendri grund. Ég tel nefnilega að við þurfum að hafa miklu strangari reglur um útflutning og raunar innflutning líka. Það þýðir ekki að fólk megi ekki flytja út og inn það sem það óskar svo fremi sem gæði vörunnar séu tryggð. Og það held ég að sé aðalatriði málsins.
    Mig langar til að biðja hæstv. ráðherra að hlýða á mál mitt sem skal ekki verða langt. Það sem ég var að segja var það að ég vil gjarnan heyra hver er skilgreiningin á því sem ráðherrann kallaði áðan ,,frelsi í viðskiptum``. Það getur ekki verið frelsi til að flytja út ónýta vöru eins og oft hefur verið gert. Og það getur heldur ekki verið neitt frelsi í viðskiptum að flytja inn ónýta vöru. Ég held nefnilega að það þurfi að hafa miklu strangari reglur um út- og innflutning í þessu landi.
    Ráðherrann minntist á Efnahagsbandalagið og ég held að ég verði að minna hæstv. ráðherra á að hér hafa orðið alls kyns stórslys vegna þekkingarleysis embættismanna á reglum Efnahagsbandalagsins. Nægir að minna á niðurlægjandi meðferð sem Íslendingar urðu fyrir vegna flutnings hvalkjöts sem bannað var að flytja um lönd Efnahagsbandalagsins á tveimur síðustu árum.
    Annað hef ég hnotið um í sambandi við ónákvæma vinnu þess sama ráðuneytis. Ef ég skil það rétt að upplýsingar Hagstofu um útflutning byggist á útflutningsleyfum, sem ég held að hljóti að vera, þá hefur margsinnis komið í ljós þegar við viljum fletta því upp hvað hefur verið flutt út, að þær upplýsingar sem í Hagtíðindum er að finna eru rangar. Vörur eru ekki rétt nefndar. Vinnubrögð á borð við þetta held ég að séu stórhættuleg öllum viðskiptasamböndum Íslands og annarra þjóða.
    Ég get verið sammála ráðherranum um að auðvitað eiga menn að hafa frelsi til að framleiða vöru ef hún er góð og ef hún er þjóðinni til sóma. Ef hún er það ekki eiga menn ekki að hafa frelsi til að flytja hana út.
    Þess vegna held ég að það sem okkur Íslendinga vanti sé miklu strangara gæðamat, bæði á út- og innflutningi. Þá fyrst getum við farið að tala um frelsi í viðskiptum. En þetta mat verður auðvitað að byggjast á þekkingu. Þetta á ekki að vera skrifborðsvinna manna sem sitja og horfa á skýrslur með skriflegum upplýsingum, heldur verður að byggja upp gott og heilbrigt vörueftirlit í landinu. Og auðvitað verður ráðuneytið líka að hafa á að skipa mönnum sem þekkja alþjóðlegar reglur um viðskipti og viðskiptahömlur.

    Þessu vildi ég koma á framfæri.