Iðnráðgjafar
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Matthías Bjarnason:
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sjónarmið hæstv. ráðherra að útvíkka þessa starfrækslu þannig að þetta sé ekki bundið við iðnráðgjafa heldur auðvitað fleiri atvinnugreinar og ég tel að sú hugmynd, sem fram kom hjá honum, að færa þetta til Byggðastofnunar, yfirstjórn, sé ekki annað en að það er fært frá iðnrn. til einnar stofnunar. Annað er það ekki. Ég legg áherslu á að þær fjárveitingar sem Alþingi hefur veitt á fjárlögum til þessarar starfsemi séu tryggðar og ekki blandað saman við aðrar fjárveitingar til þessarar stofnunar. Ég vil benda á það sem höfuðkost þessara breytinga og hugmynda ráðherra að innan ekki langs tíma verða komin a.m.k. þrjú útibú þessarar stofnunar þar sem þessir ráðgjafar geta haft aðsetur. Það skiptir verulegu máli. Það tel ég mikinn kost. Það er hægt þar að sameina húsnæði, sameina ýmsa vinnu í sambandi við skrifstofu og tengja starfsemi þessara ráðgjafa við þau verkefni sem um er að ræða úti í kjördæmum landsins. Þau kjördæmi sem eru næst Reykjavík yrðu eðlilega eða þeir ráðgjafar að hafa nána samvinnu við höfuðbækistöðvarnar hér syðra. En fyrst og fremst lít ég svo á að þessi starfsemi eigi að vera í nánum tengslum við sveitarfélögin. Hitt er nánast sagt til sparnaðar, að samræma það Byggðastofnun, en ekki til aukinna yfirráða eða miðstýringar stjórnar Byggðastofnunar. Það tel ég ekki vera til góðs og ekki ástæðu til að fara þá leið.
    En í heild sagt er ég sammála hugmyndum hæstv. ráðherra í þessum efnum og styð þær heils hugar.