Iðnráðgjafar
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Það er rétt, sem hér hefur komið fram í umræðunum, að á síðasta þingi svaraði ég fsp. frá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni og taldi að þessari starfsemi ætti að halda áfram. Því miður gekk ekki mjög hratt fyrir sig að setja nefnd til þess að endurskoða lögin, en sú nefndarskipun byggðist á samþykkt ríkisstjórnarinnar frá því í fyrravetur.
    Ég get út af fyrir sig tekið undir hugmyndir hæstv. ráðherra um að það sé óhætt að breyta þessari starfsemi, jafnvel að færa hana til eins og kom fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns, en ég vil þó nefna tvennt sem mér finnst þá vera skilyrði. Annað er að fjármunir komi áfram með sama hætti og hingað til. Ég hygg að ég hafi sagt frá því í svari mínu á síðasta þingi að í raun skipta lögin ekki mjög miklu máli. Það er miklu meira virði að fá fjármunina en að hafa þetta í öðrum lögum en fjárlögunum því auðvitað þarf starfsemi eins og þessi að þróast. Hitt atriðið, sem ég held að skipti ákaflega miklu máli, er að þessi starfsemi verði áfram í einhvers konar tengslum við Iðntæknistofnun Íslands. Byggðastofnun, jafngóð og hún er, er fyrst og fremst fjármálastofnun, en Iðntæknistofnun er þjónustustofnun fyrir atvinnulífið og þjónusta Iðntæknistofnunar nær til fleiri greina en iðnaðarins eingöngu.
    Ég skil það hins vegar vel að hv. þm. vilji útvíkka þessa starfsemi, einkum og sér í lagi þegar tekið er tillit til þess að iðnráðgjafar eru ekki starfandi alls staðar á landinu og það kann að vera heppilegra að ráðgjafar, atvinnuráðgjafar, hafi víðtækara svið en að vera eingöngu iðnráðgjafar. Það má benda á t.d. Vestfirði í því sambandi.