Iðnráðgjafar
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Ég eftirlæt hæstv. ráðherrum að svara þeirri túlkun sem hér kom fram frá hv. 4. þm. Austurl., en kjarninn í því máli sem hér hefur verið til umræðu finnst mér vera sá að það þarf að marka skýrari stefnu en fyrir liggur af hálfu Alþingis varðandi atvinnuráðgjöf í landinu og tryggja fjárveitingar af hálfu ríkisins til að örva þá starfsemi til stuðnings við frumkvæði á hinum einstökum svæðum.
    Ég held að það megi alls ekki líta á þessi mál þeim augum að ríkið geti leyft sér að draga við sig í þessum efnum varðandi stuðning. Ég held að allar aðstæður bjóði að hann verði aukinn. Ég tel ekki vænlegt að tengja þetta í löggjöf við Byggðastofnun heldur eigi þarna að vera sérstök löggjöf um stuðning við atvinnuráðgjöf í landshlutunum og vil skoða þetta mál áframhaldandi út frá þeirri hugsun.