Bjargráðasjóður
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Það er rétt að taka fram í upphafi að málefni Bjargráðasjóðs heyra undir félmrn. og það er nokkur skýring á hvers vegna breytingar á lögum um Bjargráðasjóð er ekki að finna á listum frá landbrn. Það er hins vegar svo að mestur hluti núverandi starfsemi Bjargráðasjóðs fellur undir málefni landbúnaðarins sem slíks og því er ekki nema eðlilegt að svarað sé hér þessari fsp.
    Í fyrsta lagi er það svo, eins og hér var reyndar vikið að hjá hv. fyrirspyrjanda, að Bjargráðasjóður var stofnaður með lögum frá 10. nóv. 1913 til hjálpar í hallæri eða til að afstýra því og hallæri þannig skilgreint að það væri ef sveitarfélög yrðu svo illa stödd að þau megnuðu ekki af eigin rammleik að forða mönnum og skepnum frá harðrétti eða felli. Síðan hafa verið gerðar nokkrar breytingar á lögum sjóðsins, 1967, og 23. mars árið 1982 skipaði þáv. félmrh. nefnd til að athuga eftirfarandi atriði: Hvernig tryggja megi Bjargráðasjóði fjármagn, hvort eitthvað af þeim verkefnum sem Bjargráðasjóður hefur sinnt samkvæmt þágildandi lögum geti fallið að verkefnum Viðlagatryggingar og hvort hagkvæmt gæti verið að taka upp sérstakt tryggingakerfi fyrir landbúnaðinn í framtíðinni er tæki þá við stærstu verkefnum Bjargráðasjóðs.
    Þessi nefnd skilaði áliti 23. febr. 1984, en skilaði ekki tillögum í formi lagafrv. Síðan var enn skipuð nefnd af félmrh. 15. apríl 1985 til að endurskoða lög um Bjargráðasjóð og sú nefnd tók í meginatriðum undir í áliti sínu nefndarálitið frá 1982 og er það á þá leið að með breytingum á lögum um Viðlagatryggingu sé í raun og veru hægt að færa öll verkefni hinnar almennu deildar Bjargráðasjóðs þar undir þannig að eftir stæðu eingöngu þau verkefni sem verið hafa hjá búnaðardeild sjóðsins og þá kæmi til álita að setja sérstök lög um þá starfsemi.
    Síðan hefur í raun og veru ekkert frekar gerst í þessu máli nema það, eins og hér var áðan að vikið, að það hefur verið á dagskrá að breyta þessum lögum. Aðalfundur Stéttarsambands bænda og bændasamtökin hafa nokkuð um þetta fjallað og lagt áherslu á að tryggingamálefni í landbúnaði í heild sinni yrðu tekin til skoðunar og reynt yrði að samræma tryggingaskilmála fyrir hefðbundinn búskap þannig að tryggingamál landbúnaðarins gætu orðið með sambærilegum hætti og annarra atvinnugreina. Eftir sem áður gætu staðið út af ákveðin verkefni, svo sem tjón af völdum grasbrests og óþurrka og uppskerubrests sem ekki yrði með auðveldum hætti komið inn í almenna tryggingaskilmála atvinnugreinarinnar og þyrfti þá að skoða sérstaklega hvort eftir sem áður væri þörf fyrir sérstakan viðlagasjóð í því skyni.
    Ég tel sem sagt af framansögðu augljóst að það er þörf á því að vinna að þessu máli og ég mun ræða það við félmrh., sem lögformlega fer með málefni Bjargráðasjóðs, á næstunni og vona að þetta svari í einhverju fsp. hv. þm.