Bjargráðasjóður
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Fyrirspyrjandi (Friðjón Þórðarson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. svarið. Ég vissi að hann mundi ekki telja eftir sér að svara mér. Hitt er svo hverju orði sannara, sem hann benti á, að málefni Bjargráðasjóðs eru dálítið á reiki milli þessara tveggja ráðuneyta, landbrn. og félmrn., og þarf að skýra þær línur. En það breytir ekki því að í fskj. með stefnuræðu forsrh. nú er hvergi minnst á Bjargráðasjóð, hvorki undir félmrn. né landbrn.
    Auðvitað geta menn nú á tímum keypt sér tryggingar fyrir ýmsu, en þó ekki öllu. Það er mitt álit að Bjargráðasjóður hafi enn miklu hlutverki að gegna. En það er alls ekki einfalt mál hvernig á að skipa þeim málum eins og hæstv. ráðherra vék að. Þess vegna kemur mér það svolítið einkennilega fyrir sjónir þegar ofan á þetta bætist að í fjárlagafrv. fyrir árið 1989 á bls. 219 er hið hvimleiða ákvæði sem ég vil leyfa mér að kalla svo: ,,Þrátt fyrir ákvæði laga nr. 51 frá 1972 um Bjargráðasjóð, sbr. lög nr. 57/1980, skal framlag til sjóðsins falla niður.`` Sams konar ákvæði var í fjárlagafrv. fyrir árið 1988, að mig minnir á bls. 221. Þetta er heldur leiðinlegt ákvæði og raunverulega andstætt öllum góðum siðum.
    Loks má geta þess að eftir því sem mér hefur verið tjáð liggja 130 erindi fyrir stjórn Bjargráðasjóðs á morgun. Og við skulum minnast þess að þegar á þjóðveldisöld stóðu Íslendingar fremstir þjóða á sviði tryggingaréttar, þ.e. þeir fylgdu mjög merkilegum reglum til bjargræðis þeim sem varð fyrir óvæntu, tilfinnanlegu tjóni. Við ættum að sjá sóma okkar í því nútímamenn að halda í horfinu hvað þetta varðar.