Greiðslur fyrir sauðfjárafurðir
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Spurt er að því hvaða reglur gildi um greiðslur til sauðfjárbænda skv. 29. gr. búvörulaga. Því er til að svara að í þessu efni hafa þær reglur verið viðhafðar sl. ár að miðað er við að 3 / 4 hlutar framleiðsluverðsins kæmu til útborgunar á tilsettum dagsetningum sbr. ákvæði búvörulaganna. Það er ljóst að þær reglur hafa m.a. verið lagðar til grundvallar útreikninga á vaxtagjaldi. Við þá útreikninga hefur verið miðað þegar vaxtagjald hefur verið reiknað að sláturleyfishafar greiddu 3 / 4 hluta afurðaverðs sauðfjárins til innleggjenda 15. okt. Svarið er því að þetta eru þær reglur sem notaðar hafa verið og settar eru af Framleiðsluráði landbúnaðarins og á öllum sláturleyfishöfum að vera það ljóst að þetta eru þær verklagsreglur sem Framleiðsluráð miðar við.
    Í öðru lagi er spurt hvort greiðslur hafi verið í samræmi við þessar reglur, og ég endurtek og undirstrika orðið reglur. Því er til að svara að því miður hafa verið einhver brögð að því öll þau ár sem búvörulögin hafa verið í gildi að greiðslur hafi ekki alls staðar verið með þeim hætti. Greiðslurnar hafa verið eitthvað mismunandi en aðalatriðið er þó að lögin eru ótvíræð hvað varðar það atriði að uppgjör skuli hafa farið fram fyrir 15. des. Það hefur heyrst meira um það á þessu hausti en undanfarin haust að greiðslur hafa ekki verið samkvæmt reglum Framleiðsluráðs, þ.e. að 3 / 4 hlutar hafi verið greiddir á fyrsta gjalddaga. Afurðastöðvar hafa í því sambandi borið við óvenju erfiðri stöðu vegna taprekstrar undanfarinna ára sem og ónógri fyrirgreiðslu viðskiptabanka. Við í landbrn. höfum rætt við viðskiptabankana um þetta mál og ég vænti þess að niðurstaða komi allra næstu daga, þegar birgðastaðan um síðustu mánaðamót verður ljós, frá þeim þremur bönkum sem aðallega veita afurðalánafyrirgreiðslu til landbúnaðarins. Í framhaldi af því vænti ég að ljóst verði að afurðalánafyrirgreiðslan frá bönkunum og ríkinu verði með sambærilegum hlutföllum og hún hefur verið undanfarin haust.
    Ég vil í þessu sambandi einnig minna á að í stjórnarsáttmálanum eru ákvæði um endurskoðun afurðalánaviðskipta í heild sinni og mér er kunnugt um að í því máli hefjist vinna á allra næstu dögum af hálfu ríkisstjórnarinnar. Og ég tel að skoða og endurskoða beri reglur um greiðslur til bænda í samhengi við þá endurskoðun á afurðalánaviðskiptunum sem nauðsynlegt er að fari fram.
    Í þriðja lagi er spurt: Ætlar ríkisstjórnin að beita sér fyrir því að ekki sé brotinn réttur á sauðfjárbændum í þessum efnum og þá með hvaða móti? Sé svo að réttur sé brotinn á bændum, sem ég vil nú ekki fullyrða á þessu stigi málsins eða taka svo djúpt í árinni, mun ríkisstjórnin að sjálfsögðu beita sér fyrir því og reyna að stuðla að því að þegnar hennar á þessu sviði eins og á öðrum verði ekki órétti beittir. En ég geri skýran greinarmun annars vegar á þeim verklagsreglum sem reynt hefur verið að styðjast við

og hins vegar ákvæðum laganna, og það væri auðvitað sýnu alvarlegri hlutur ef ákvæði laganna væru ekki að fullu virt í þessu sambandi heldur en að einhverjar breytingar séu á inngreiðslum miðað við dagsetningar, sem byggjast fyrst og fremst á verklagsreglum og þeim reglum sem Framleiðsluráð landbúnaðarins hefur haft til viðmiðunar.
    En það verður að sjálfsögðu ekki að fullu ljóst fyrr en í lok ársins þegar málin verða gerð upp hvernig greiðslum hefur verið háttað í öllum tilfellum.