Greiðslur fyrir sauðfjárafurðir
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Fyrirspyrjandi (Egill Jónsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir svör hans sem voru afar mikilvæg, sérstaklega að því er lýtur að fyrri hluta ræðu hans þar sem hann sagði alveg með skýrum hætti að í gildi væru reglur sem settar eru og byggðar á ákvæðum 29. gr. búvörulaganna og þeim reglum hefði verið fylgt m.a. með tilliti til vaxtaútreikninga.
    Það kom líka alveg ótvírætt fram í svari ráðherrans, þó að hann væri með nokkrar slaufur í kringum það, að þessum reglum hefur ekki verið fylgt og að því leyti hafa lög verið brotin á bændum. Hann staðfesti líka að ríkisstjórnin ætlaði ekki að bregðast við og sjá til þess, eftir að málið hefur nú verið upplýst með þessum hætti, að bændur fái hlut sinn eins og þeim ber. Það verður ekki skilið öðruvísi af orðum ráðherrans en að draga eigi það fram í miðjan desember að láta slíkt uppgjör fara fram. Í því tilefni þá vil ég spyrja ráðherrann, m.a. með tilliti til þeirrar umsagnar sem fyrir liggur frá hendi þriggja þekktra lögmanna um réttindi bænda á grundvelli 29. gr. búvörulaganna, hvort séð verði til þess að bændur fái þær vaxtagreiðslur sem þeim ber vegna þess að þeir hafa ekki fengið útborgun á afurðum sínum svo sem lögin kveða á um. Hvort þeir fái þá til viðbótar við afurðaverðið, sem þeim verður þá væntanlega afhent 15. des. ef ég skil hæstv. ráðherra rétt, vexti fyrir þann drátt sem þeir hafa orðið fyrir vegna þess að lögunum hefur ekki verið framfylgt.