Greiðslur fyrir sauðfjárafurðir
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Ég vil nú hvetja hv. fyrirspyrjanda til að hlaupa ekki um of til túlkana, mér fannst reyndar nokkuð bera á því hér áðan í umræðum um aðra fsp. að hv. fyrirspyrjandi var þá nokkuð fljótur til að draga víðtækar ályktanir og túlka með mjög víðtækum hætti svör sem gefin eru. ( Gripið fram í: Ráðherrann hefur möguleika á því að tala skýrar.) Ég vil í fyrsta lagi benda hv. fyrirspyrjanda á að það þarf að gera greinarmun annars vegar á ákvæðum búvörulaganna og hins vegar reglna sem settar hafa verið. Í öðru lagi vil ég benda hv. fyrirspyrjanda á það að í 2. mgr. 29. gr. laganna eru ákvæði sem heimila einstökum framleiðendum að semja um annan hátt á greiðslunum. ( EgJ: Við hvern og einn.) Við þá hvern og einn, hv. framíkallandi. Og í þriðja lagi er auðvitað flókið mál að fá það upp hvernig greiðslum er háttað hjá hverjum einasta aðila í landinu og þess er varla að vænta að menn geti staðið hér og fullyrt mikið um það, nema þá að hv. fyrirspyrjandi geti dregið fram afrit af reikningum sem sýni hvernig inngreiðslur hafi verið hjá einstökum sláturleyfishöfum. Við höfum ekki treyst okkur til að kveða upp úr um slíka hluti á þessu stigi málsins. Það hafa hins vegar borist fréttir af því að greiðslur hafi ekki verið með þeim hætti sem reglur Framleiðsluráðs landbúnaðarins, sem reyndar voru mótaðar á fundi í ráðinu þegar í októbermánuði 1985, mæla fyrir um, þ.e. að frumgreiðsla skv. 1. tölul. skuli vera 75% haustgrundvallarverðs. Hins vegar verða þær upplýsingar, ef þær koma, að sjálfsögðu teknar til athugunar af okkar hálfu ef mikill misbrestur hefur orðið á greiðslum án þess að um það væri samið við einstaka framleiðendur. Það er auðvitað sjálfsagt mál og leiðir af sjálfu sér að það munum við skoða sem og annað er lýtur að framkvæmd þessara laga og undir ráðuneytið heyra.