Lánasjóður íslenskra námsmanna
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Fyrirspyrjandi (Guðmundur Ágústsson):
    Virðulegi forseti. Á þskj. 47, 45. mál þingsins, legg ég fram fsp. til hæstv. menntmrh. um málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna. Fyrirspurnin er í þremur liðum og er á þessa leið:
,,1. Hyggst menntmrh. fella úr gildi breytingar á reglugerð nr. 578/1982, um námslán og námsstyrki, sem gerðar voru 3. jan. og 2. apríl 1986, þannig að þau ákvæði, sem áður giltu um framfærslukostnað, gildi að nýju?
    2. Ef svo er, hvenær mega námsmenn eiga von á að þær breytingar komi til framkvæmda?
    3. Telur menntmrh. að breytingar þær, sem gerðar voru á reglugerðum um Lánasjóðinn á árinu 1986, standist gagnvart lögum?``
    Það er ekki að ástæðulausu að fsp. þessi er lögð fram því að nú hefur sest í stól menntmrh. fyrrv. formaður Alþb. og í sæti fjmrh. núv. formaður Alþb., en Alþb. gaf námsmönnum loforð um það að skerðing sú, sem Sverrir Hermannsson stóð fyrir á árinu 1986, skyldi leiðrétt um leið og Alþb. kæmist í ríkisstjórn. Raunar sögðu hinir háu herrar í Alþb. að skilyrði stjórnarsamstarfs yrði að lögunum um námslán og námsstyrki yrði framfylgt.
    Eigi verður séð á fjárlagafrv. hæstv. fjmrh. að ætlunin sé að leiðrétta þessa skerðingu. Það er ekki nema von að maður spyrji í hverju efndirnar eigi að koma fram. Eða eiga efndirnar kannski ekki að koma fram? Voru yfirlýsingar bara gefnar til að slá ryki í augu námsmanna?
    Á þinginu 1986 og aftur á þinginu 1987 þegar Alþb. var í stjórnarandstöðu lögðu nokkrir þm. flokksins, þar á meðal hæstv. menntmrh. og hæstv. landbrh., fram till. til þál. sem er á þessa leið, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela menntmrh. að fella úr gildi breytingar á reglugerð nr. 578/1982, um námslán og námsstyrki, sem gerðar voru 3. jan. og 2. apríl 1986, þannig að þau ákvæði, sem áður giltu um útreikning á framfærslukostnaði námsmanna, taki gildi að nýju.``
    Þessi ályktun er samhljóða fyrsta lið fsp. minnar. En þeir bættu við:
    ,,Jafnframt felur Alþingi ríkisstjórninni að gera ráðstafanir með aukafjárveitingum og lántökum til að tryggja eðlilega framkvæmd laga nr. 72/1982, um námslán og námsstyrki, út árið sem er að líða.``
    Þannig hljóðaði sú tillaga.
    Það þarf ekki að fara mörgum orðum um kjör námsmanna. Þau eru þingheimi kunnug.