Lánasjóður íslenskra námsmanna
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Hæstv. forseti. Fsp. er á þessa leið:
    Í fyrsta lagi: ,,Hyggst menntmrh. fella úr gildi breytingar á reglugerð nr. 578/1982, um námslán og námsstyrki, sem gerðar voru 3. jan. og 2. apríl 1986, þannig að þau ákvæði, sem áður giltu um framfærslukostnað, gildi að nýju?``
    Svarið er þetta: Ég mun gefa út nýja reglugerð um úthlutunarreglur úr Lánasjóði ísl. námsmanna að höfðu samráði við alla hlutaðeigandi aðila.
    Í öðru lagi er spurt: ,,Ef svo er, hvenær mega námsmenn eiga von á að þær breytingar komi til framkvæmda?``
    Svarið er þetta: Ákvörðun um tímasetningu hefur ekki verið tekin, en ætlunin er að hluti þessarar breytingar komi til framkvæmda á þessu skólaári og að annað skref í rétta átt verði stigið í haust.
    Í þriðja lagi er spurt: ,,Telur menntmrh. að breytingar þær, sem gerðar voru á reglugerðum um Lánasjóðinn árið 1986, standist gagnvart lögum?``
    Ég tel, eins og hef lengi talið, að það sé fullkomið álitamál og er með það í sérstakri athugun.
    Varðandi málið að öðru leyti vil ég segja þetta: Ráðuneytið hefur ákveðið að skipa vinnuhóp með fulltrúum námsmanna og fleiri aðila til þess að fara yfir úthlutunarreglur úr Lánasjóði ísl. námsmanna á grundvelli þeirra talna sem m.a. liggja fyrir í fjárlagafrv. fyrir árið 1989. Ég bendi á í þessu sambandi, virðulegi forseti, að kostnaður sá sem orðið hefur við breytingar á tekjuviðmiðun Lánasjóðsins, breytingar sem ákveðnar voru af forverum mínum, er hvorki meira né minna en 312 millj. kr. á ári, þ.e. breyting tekjuviðmiðunar hefur haft í för með sér útgjöld úr Lánasjóðnum sem nemur á fjórða hundrað millj. kr. á verðlagi fjárlagafrv.
    Í annan stað bendi ég á að fjárlagafrv. gerir ráð fyrir nokkurri hækkun til Lánasjóðsins, á ráðstöfunarfé hans frá því sem er á árinu 1988. Það er takmörkuð hækkun en samtals nemur sú hækkun og breytingin á tekjuviðmiðun u.þ.b. 400 millj. kr., þannig að það er ljóst að það er svigrúm til að koma til móts við þær áherslur, sem uppi hafa verið af hálfu námsmanna og m.a. okkar alþýðubandalagsmanna á undanförnum árum, um leiðréttingar frá þeirri reglugerð sem gefin var út og vitnað er til í fyrsta lið fsp.
    Ég bendi einnig hv. fyrirspyrjanda á það að frá því að þessar reglugerðir komu út stöndum við frammi fyrir þeim veruleika að mynduð hefur verið ný ríkisstjórn í landinu sem tekur við halla á ríkissjóði upp á 5000 millj. kr. Í öðru lagi bendi ég á þann veruleika, sem allir í landinu hljóta að verða að taka tillit til, að þjóðartekjur á mann á árunum 1988 og 1989 dragast talsvert mikið saman. Þetta tvennt þrengir svigrúm til endurbóta, en að þeim verður unnið með þeim hætti sem ég hef hér lýst, virðulegi forseti.