Lánasjóður íslenskra námsmanna
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Aðeins eitt orð. Hv. síðasti ræðumaður sagði að 1. þm. Reykv. hefði komið svínslega fram við námsmenn. Það getur verið að það sé hans álit. Mitt álit er að það sé kominn tími til þess að menn átti sig á því að hv. 10. þm. Reykv. tók að sér fyrir hönd Framsfl. eftir að skertir höfðu verið fjármunir til Lánasjóðs ísl. námsmanna að semja nýtt lagafrv. Lagafrv. var byggt á hans eigin hugmyndum. Hann skrifaði undir nál., ekki einu sinni heldur tvisvar, og í seinna skiptið eftir að lagafrv. hafði verið borið undir námsmenn. Hann hljóp frá þessu í bæði skiptin og aðallega vegna kosningaskjálfta og prófkjörsupphlaups hjá honum sjálfum hér í Reykjavík. Hann má gjarnan kalla vinnu mína svínslega framkomu í garð námsmanna. Ég var einn þeirra sem sömdu lögin frá 1982, sat í þeirri nefnd. En eitt vil ég segja: Þessi framkoma hv. 10. þm. Reykv. lýsir best hugrekki og þori þeirra manna sem ekkert vilja við kannast, enga ábyrgð taka, en það er sú lýsing sem hægt er að gefa á flestum framsóknarþingmönnum í dag og fer 10. þm. Reykv. þar ekki aftastur í flokki.