Ferðaskrifstofa ríkisins
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Fyrirspyrjandi (Guðmundur Ágústsson):
    Virðulegi forseti. Á þskj. 48 legg ég fram fsp. til hæstv. samgrh. um Ferðaskrifstofu ríkisins. Fsp. er í fimm liðum og er á þessa leið:
,,1. Hvert var matsverð og hvert var söluverð Ferðaskrifstofu ríkisins?
    2. Hvernig voru eignir metnar og hve stór hluti matsfjárhæðarinnar var viðskiptavild?
    3. Hve margir starfsmenn keyptu hlut í Ferðaskrifstofunni og hve hár var hlutur hvers starfsmanns?
    4. Hvaða kvaðir eru á sölu hlutabréfanna?
    5. Hefði verið hægt að fá hærra verð fyrir fyrirtækið á almennum markaði?``
    Á síðasta þingi var samþykkt sem lög frá hinu háa Alþingi frv. þáv. samgrh. um heimild til handa ríkisstjórninni að selja 2 / 3 hlutafjár í hutafélagi því sem skyldi stofnað um Ferðaskrifstofu ríkisins. Jafnframt var í þeim lögum ákveðið að starfsmenn skyldu eiga forkaupsrétt að því hlutafé. Um þetta frv. sköpuðust töluverðar umræður í Ed. Alþingis þar sem frv. var fyrst lagt fram og sýndist sitt hverjum um þessa fyrirhuguðu sölu og þá opnu heimild sem samgrh. var gefin til sölunnar.
    Eins og lesa má í Alþingistíðindum taldi ég frv. mjög loðið og að nauðsyn væri á, áður en frv. yrði að lögum, að skýra það nánar. Lutu þær athugasemdir mínar í fyrsta lagi að starfsmönnum, hverjir teldust starfsmenn í skilningi laganna. Var í frv. átt við alla starfsmenn eða bara þá sem voru fastir starfsmenn Ferðaskrifstofu ríkisins? Hvert væri raunverulegt verðmæti hlutafélagsins á almennum markaði og hvað ríkið gæti fengið fyrir það ef það yrði selt án forkaupsréttar starfsmanna? Hvernig skyldi farið með föl hlutabréf og hvaða verð sett á hlutabréfin?
    Málið var keyrt í gegn og hlutafélag síðan stofnað sem gefið hefur verið nafnið Ferðaskrifstofa Íslands hf.
    Nú á síðustu mánuðum hefur ýmislegt komið í ljós varðandi sölu ríkisins á hlutabréfum í Ferðaskrifstofu Íslands hf. Það hefur verið upplýst í fjölmiðlum að Eimskipafélag Íslands hf. hefur að einhverju leyti fjármagnað kaup starfsmanna á þeim hlutum sem þeir hafa keypt á grundvelli forkaupsréttar síns. Þegar svo er í pottinn búið verður ekki hjá því komist að tortryggja þessa sölu og spyrja þeirra spurninga hvort því markmiði með sölunni hafi verið náð að tryggja starfsmönnum sem frjálsum einstaklingum kaup á fyrirtækinu.
    Að síðustu vil ég leyfa mér, þó sú spurning hafi ekki verið lögð hér fram í tilvitnuðu þskj., að inna hæstv. samgrh. eftir því hvort hann hafi séð eitthvað óeðlilegt við sölu hlutabréfa ríkisins í Ferðaskrifstofunni.