Ferðaskrifstofa ríkisins
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég tek undir það, sem fram hefur komið í þessum umræðum og skilja má á hv. fyrirspyrjanda, að það hefði verið betra ef hægt hefði verið að selja hlutabréf í Ferðaskrifstofu ríkisins, nú Ferðaskrifstofu Íslands, á almennum markaði. Það tókst ekki vegna þess að ekki var samkomulag um það á sínum tíma innan ríkisstjórnarinnar. Frv. tók því breytingum í ríkisstjórninni og síðan aftur í þingflokkunum og enn að einhverju leyti, að mig minnir, í meðförum Alþingis. Undir þetta vil ég sérstaklega taka og tel að framvegis eigi fyrst og fremst að reyna að koma fyrirtækjum í eigu ríkisins, eins og segir í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar, til almennings með beinni sölu án þess að það sé verið að taka fram að til starfsmanna skuli fara fyrst og fremst.
    En við megum ekki gleyma því að það eru ekki kvaðir á hlutabréfunum þannig að það er eðlilegt að nýir hluthafar geti selt án kvaða. Það er hið algenga og það þekkir lögfræðingurinn, hv. þm. Guðmundur Ágústsson, að það mundi vera óeðlilegt að setja kvaðir á hlutafjáreign, ef til sölu er á annað borð, um það að ekki megi selja öðrum aðilum. Þá er eðlilegast að slíkt sé í samþykktum félagsins og það er hægt að taka slíkt upp í samþykktir félagsins.
    En ég vil láta þess getið, af því að það hefur ekki komið fram í þessum umræðum, að til þess að þetta fyrirtæki, Ferðaskrifstofa Íslands hf., sé rekstrarhæft þarf að setja tryggingar fyrir ferðaskrifstofuleyfi, bankaviðskiptum og til flugfélaganna. Og ég held að ég fari rétt með að tryggingarupphæðin hafi í þessu tilviki verið 18 millj. kr. Þar af hlýtur starfsfólkið að leggja fram --- og mér skilst að það sé þannig --- 12 millj. kr. Og þar sem fasteignir eru engar sem fyrirtækið á þá verður þetta auðvitað gert með tryggingum af eigin fjármunum og fasteignum þeirra sem hafa keypt Ferðaskrifstofuna.