Námslán
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Fyrirspyrjandi (Finnur Ingólfsson):
    Virðulegi forseti. Á þskj. 67, sem er 65. mál þingsins, er borin fram fsp. af mér og hv. þm. Páli Péturssyni til menntmrh. um námslán.
    Þessi fsp. er um margt lík þeirri sem hér var til umræðu fyrr í dag, en þó vil ég með nokkrum orðum innleiða þær spurningar sem á fsp. eru:
    Í fyrsta lagi: ,,Mun ráðherra láta fara fram á næstunni heildarendurskoðun á lögunum um námslán og námsstyrki?``
    Það er ekkert um Lánasjóð ísl. námsmanna í málefnasamningi núv. ríkisstjórnar og því er þessarar spurningar spurt.
    Í öðru lagi segir í a-lið 21. gr. reglugerðar nr. 578 frá 7. okt. 1982, þar sem um ákvörðunaratriði um lánsfjárhæðir er rætt, að framfærslukostnaður á námsstað breytist að öðru jöfnu með þróun verðlags og gengis og að sjóðsstjórnin skuli fylgjast með því hvernig þessar tölur þróast í samanburði við launatekjur.
    Á þessum eina staflið 21. gr. hafa verið gerðar fimm breytingar frá 1982 til 1986. Og þessar fimm breytingar hafa allar verið gerðar af menntamálaráðherrum Sjálfstfl. Þessar breytingar hafa leitt til þess að framfærsla námsmanna hefur verið mjög skert. En það má skipta þessari skerðingu í tvennt: Í fyrsta lagi skerðingu vegna breyttra viðmiðana á reiknuðum framfærslukostnaði og í öðru lagi frystingu á framfærslukostnaði. Vegna breyttra viðmiðana var gefin út reglugerð 27. des. 1984 þar sem gert var ráð fyrir því að árið 1985 skyldu fjárhæðir láns vegna náms á Íslandi fylgja þróun meðaltalsráðstöfunartekna samkvæmt útreikningi Þjóðhagsstofnunar frá 1. jan. til 31. des. 1985. Í september 1985 er þessi reglugerð felld úr gildi og engar frekari skýringar gefnar á því hvers vegna. Hins vegar er um frystingu á framfærslukostnaði námsmanna að ræða. Sú frysting hefst 3. jan. 1986 með reglugerð sem þáv. menntmrh., Sverrir Hermannsson, gaf út. Þar er gert ráð fyrir því að útgreidd lán í desember 1985 skuli vera þær sömu upphæðir og voru á tímabilinu september--nóvember 1985. Með reglugerð nr. 323 frá 2. júlí 1986 er síðan þessi sama reglugerð felld úr gildi. Og því er þessi önnur spurning á fsp. borin fram.
    Í þriðja lagi er spurt: Hyggst menntmrh. breyta eða láta fara fram könnun á framfærslukostnaði námsmanna? Ástæðan fyrir þessari spurningu er sú að hann gefur ekki rétta mynd af framfærslukostnaðinum. Húsnæðiskostnaðurinn sem gert er ráð fyrir í grunninum er 5140 kr. en það er engan húsnæðiskostnað hjá námsmönnum hægt að finna undir 8300 kr. á mánuði.