Sjávarútvegsskóli
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Hæstv. forseti. Frá því að starfshópurinn skilaði áliti, sem hv. fyrirspyrjandi gat um, 20. okt. 1986 hefur Alþingi samþykkt lög um framhaldsskóla. Þar er gert ráð fyrir því í 26. gr. að menntmrh. skipi fræðsluráð sjávarútvegs til fjögurra ára í senn og skal það skipað átta mönnum eins og hér er rakið og hér eru einnig nefndir tilnefningaraðilar í 26. gr. laga um framhaldsskóla nr. 57/1988.
    Það er nauðsynlegt að hafa þetta í huga vegna þess að það mál sem hér er hreyft kemur allvíða við sögu í umræðum um þessar mundir og er nauðsynlegt að samstilla þá umræðu.
    Það sem hefur verið í gangi og ég hef kynnst á síðustu vikum í menntmrn. er þetta:
    Það er í fyrsta lagi sjávarútvegsnám sem burðarás í Háskólanum á Akureyri.
    Það eru í öðru lagi hugmyndir uppi, m.a. frá nefndinni, um sérskóla á framhaldsskólastigi í sjávarútvegsfræðum. Enn fremur eru uppi hugmyndir um brautir innan hins almenna framhaldsskólakerfis, m.a. í þingmálum sem flutt hafa verið hér á hv. Alþingi af hv. 4. þm. Vesturl. o.fl.
    Í þriðja lagi liggur fyrir að ýmsir staðir óska nú eftir því að þar verði stofnaðir sjávarútvegsskólar á framhaldsskólastigi burtséð í raun og veru frá þeim hugmyndum sem nefndin sendi frá sér. Þessir staðir eru t.d. Dalvík og Vestmannaeyjar, svo tvö dæmi séu nefnd.
    Ég tel þess vegna að það eigi að reyna að ná utan um þetta mál í heild. Ég er sammála hv. þm. um að það er nauðsynlegt að taka þarna sérstaklega á þeim málum sem hafa verið í gangi og snerta námskeiðin. Ég sé þetta þannig fyrir mér að það yrði til samfellt fræðslukerfi í sjávarútvegi á Íslandi þar sem tekin eru inn námskeiðin, vinnustaðirnir líka sem slíkir, grunnskólinn, framhaldsskólinn, endurmenntunarkerfi, háskóli. Ég held reyndar að eitt brýnasta verkefni menntamála í þessu landi sé að endurvekja hina gömlu hugsjón sem lá til grundvallar alþýðufræðslunni á Íslandi.
    Ég hef út af fyrir sig verulegar áhyggjur af þróun mála í skólakerfinu eins og við er að búast. Ég hef ekki síður áhyggjur af því unga fólki sem þúsundum saman dettur mjög snemma út úr hinu almenna skólakerfi og á ekki leið inn í það aftur. Og ég spyr: Hvar er betra að byrja þau verkefni að opna skólakerfið með skipulegum hætti, sveigjanlegum hætti fyrir þessu fólki en einmitt í sjávarútveginum?
    Því miður, hæstv. forseti, get ég ekki á þessu stigi svarað spurningu hv. þm. með jái. Ég tel að hann hafi hreyft mikilvægu máli og ég mun vinna að því og ræða það við sjútvrh. og aðra hlutaðeigandi aðila.