Sjávarútvegsskóli
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Fyrirspyrjandi (Finnur Ingólfsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svarið svo langt sem það náði. Ég er hins vegar ánægður með það að vissu marki því að ég heyrði á máli ráðherrans að hann er á réttri leið.
    Aðeins langar mig til að benda á kannski tvö atriði. Þessi starfshópur, sem áður er til vitnað, hélt ráðstefnu með mörgum aðilum sem tengjast þessari sjávarútvegsfræðslu áður en hann skilaði áliti. Það var einróma álit þeirra sem þar voru að það væri skynsamleg leið sem þarna væri lögð til, að stofna slíkan sjávarútvegsskóla.
    Ég fagna því að ráðherra skuli ætla að hafa samvinnu um málið við sjútvrh. Ég held að það sé nauðsynlegt því að það er mjög nauðsynlegt að þetta tengist því fagráðuneyti einnig.
    Varðandi þá þrjá skóla sem starfandi eru á höfuðborgarsvæðinu í dag, Vélskólann, Stýrimannaskólann og Fiskvinnsluskólann fullyrði ég að skipulag þeirra sé í molum, því miður. Uppi í sjómannaskólahúsinu, þar sem Vélskólinn og Stýrimannaskólinn eru til húsa, er kannski verið að kenna ensku á 3. hæð fyrir hálfum bekk. Á sama tíma er verið að kenna sömu enskuna á 2. hæð fyrir hálfum bekk. Það er svo margt og alveg augljóst sem þarna er hægt að samnýta og verður í raun og veru að gera.