Orlofsdeild póstgíróstofunnar
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):
    Virðulegi forseti. Á þskj. 82 hef ég leyft mér ásamt hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni, Skúla Alexanderssyni og Guðmundi Ágústssyni að bera fram eftirfarandi fsp. til hæstv. félmrh.:
    ,,Hvenær er þess að vænta að starfsemi orlofsdeildar póstgíróstofunnar ljúki, sbr. bráðabirgðaákvæði orlofslaga nr. 30/1987 sem tók gildi 1. maí 1988?``
    Með leyfi forseta vil ég lesa yfir þetta bráðabirgðaákvæði sem er örstutt. Þar segir:
    ,,Ef sú breyting verður gerð á orlofslögum sem ráðgerð er í þessu frv. þarf að taka ýmsar ákvarðanir, m.a. varðandi lok á starfsemi orlofsdeildar póstgíróstofunnar og þykir eðlilegt að félmrh. setji reglur um þau atriði í samráði við þá aðila sem mestra hagsmuna eiga að gæta.``
    Nú er það, að ég hygg, öllum hv. þm. ljóst að með þeirri breytingu á orlofslögum sem gerð var og tók gildi í maí sl., byrjun orlofsársins, varð grundvallarbreyting á orlofslöggjöfinni. Í staðinn fyrir að ávaxta þetta hjá orlofsdeild póstgíró eru nú tekin upp orlofslaun þannig að orlofsdeild póstgíróstofunnar átti að leggja niður. Það er einvörðungu um þrjá hluti að ræða að því er varðar orlofsgreiðslurnar. Það er í fyrsta lagi að þær séu geymdar í viðkomandi fyrirtæki og það greiði síðan orlofslaun á þeim tíma sem viðkomandi launþegi tekur sér orlof. Síðan er inni í orlofslögunum ákvæði þess eðlis að stéttarfélögum sé heimilt að semja við banka eða sparisjóði um ávöxtun þess orlofsfjár inni á reikningum. Það eru einvörðungu þessar þrjár leiðir sem lögin gera ráð fyrir að sé hægt að fara að því er varðar ávöxtun á orlofsfé.
    Því hefur verið hreyft hér oft áður að orlofsdeild póstgíró varð launþegum mjög dýr. Það voru sáralitlir vextir greiddir á orlofsfé sem þar var ávaxtað lengi vel þar til önnur stéttarfélög gripu inn í málið og fóru að ávaxta fé í bönkum og sparisjóðum úti um land. Þá hækkuðu vextir hjá orlofsdeild póstgíró. Ríkið hefur borgað tugi milljóna með þessari stofnun um árabil. Það er því ástæða til nú, þegar lögin gera ráð fyrir því að þessi stofnun verði lögð niður, að menn taki til hendinni og spari. Ekki mun af veita á hinum erfiðu tímum. Og það er mjög sjaldan sem hér kemur upp umræða um að ástæða sé til þess að nota tækifærið til að draga úr kostnaði sem er auðvitað sjálfsagt að gera og lögin gera ráð fyrir eins og frá þeim var gengið.
    Ég vænti þess að hæstv. félmrh. hafi svar sem stenst það að það verði farið að lögum og orlofsdeild póstgíró lögð niður.