Orlofsdeild póstgíróstofunnar
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Spurt er: ,,Hvenær er þess að vænta að starfsemi orlofsdeildar póstgíróstofunnar ljúki, sbr. bráðabirgðaákvæði orlofslaga nr. 30/1987 sem tók gildi 1. maí 1988?``
    Því er til að svara að í 13. gr. laga nr. 87/1971, um orlof, með síðari breytingum, voru ákvæði um að launþegi skyldi innan eins árs frá lokum orlofsársins vitja orlofsfjár síns ella rynni það til lífeyrissjóðs launþegans. Samkvæmt þessu hefur verið talið að ávísanir á orlofsfé útgefnar af póstgíróstofunni héldu gildi sínu í eitt ár frá útgáfudegi. Í samræmi við þessa meginreglu þótti eðlilegt að setja hliðstætt ákvæði í reglugerð nr. 176/1988 um uppgjör orlofsfjár, þ.e. að póstgíróstofan skuli annast greiðslur þess orlofsfjár sem koma átti til útborgunar eftir 1. maí 1988 í eitt ár eða til 30. apríl 1989. Jafnframt var póstgíróstofunni falið að hafa með höndum innheimtu eldri vanskila til sama tíma.
    Samkvæmt framansögðu lýkur þeim verkefnum sem póstgíróstofan hefur haft fyrir félmrn. vegna innheimtu og vörslu orlofsfjár 30. apríl 1989, sbr. reglugerð nr. 176/1988. Um er því að ræða að póstgíróstofunni hefur verið falið að ljúka uppgjöri orlofsfjár sem áunnið var fram til 30. apríl sl. Innborgun orlofsfjár til póstgíróstofunnar stöðvaðist 1. maí sl. nema ef um er að ræða greiðslur vegna vanskila frá orlofstímabilinu til 30. apríl sl.