Orlofsdeild póstgíróstofunnar
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):
Virðulegi forseti. Það eru aðeins örfá orð út af því sem hæstv. ráðherra sagði. Ég vænti þess að ég megi taka það svo að það eigi ekki að halda þessu ,,apparati`` áfram með því að láta færslur fara þar í gegn og hafa starfskrafta þar áfram við. Er ekki meiningin að fara að lögum og leggja þessa starfsemi, orlofsdeild póstgíró, gjörsamlega niður þannig að ríkið þurfi enga ábyrgð að bera á henni lengur? Það hefur borgað tugi milljóna með þessu fyrirtæki í nokkuð mörg ár meðan það hefur verið starfandi. Ég vona að ég skilji það rétt að á þetta verði klippt gjörsamlega í endaðan apríl að ári og engir starfsmenn verði þar innan dyra sem sinna þeim þætti sem þarna hefur verið um að ræða.