Fjárlög 1989
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Pálmi Jónsson:
    Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. hefur nú mælt fyrir frv. til fjárlaga fyrir árið 1989. Öllum sem á hlýddu er það ljóst að í ræðu hæstv. ráðherra var ekki að finna eitt einasta orð sem boðaði stefnu í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar eftir að verðstöðvunartímabilinu lýkur í febrúarlok á næsta ári.
    Í fjárlagafrv. er þetta stefnuleysi hæstv. ríkisstjórnar augljóst. Svokölluð stefnuræða hæstv. forsrh. og fjárlagaræðan, sem hér var verið að enda við að flytja, hafa þar engu um breytt. Við þessar aðstæður er ekki mögulegt að fjárlagafrv. geti orðið trúverðugt. Margorð ræða hæstv. fjmrh. haggar ekki þeirri staðreynd.
    Það sem við blasir er m.a. þetta:
    1. Fjárlagafrv. afhjúpar stefnuleysi hæstv. ríkisstjórnar í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar.
    2. Forsendur frv. í verðlags-, launa- og gengismálum eru af þessum sökum gjörsamlega í lausu lofti. Niðurstöður á rekstraryfirliti A-hluta ríkissjóðs eru undir sömu sök seldar.
    3. Frv. boðar stórauknar skattaálögur á þjóðina eða sem svarar 3,5--4 milljörðum kr. að raungildi. Skattar til ríkisins eiga samkvæmt þessu að hækka frá fjárlögum þessa árs úr 26,2% í 28,1% af vergri landsframleiðslu.
    4. Ríkisstjórnarflokkarnir eru þegar berir að óheilindum hver í annars garð varðandi hinar nýju skattaálögur.
    5. Þrátt fyrir niðurskurð á fé til opinberra framkvæmda og þýðingarmikilla sjóða og tilfærslum til atvinnuvega vaxa útgjöld ríkisins að raungildi um 0,8%.
    6. Umfang ríkiskerfisins og kostnaður við ríkisreksturinn vex stórum og meira en sem nemur öllum niðurskurðinum á sama tíma sem samdráttar gætir í efnahagskerfinu og þrengt verður að öllum almenningi. T.d. boðar ríkisstjórnin 7% lækkun kaupmáttar launatekna.
    7. Frv. boðar að þrengt verði að atvinnuvegunum með minnkandi framlögum hins opinbera, með vaxandi skattaálögum og með stórhækkuðum þjónustugjöldum stofnana á vegum ríkisins.
    Virðulegi forseti. Ég mun nú leitast við að fara fáeinum orðum um nokkur þeirra atriða sem hér að framan hafa verið talin upp.
    Þegar núv. hæstv. ríkisstjórn var mynduð undir lok septembermánaðar greip hún til nokkurra bráðabirgðaráðstafana. Þessar bráðabirgðaráðstafanir voru sumpart fólgnar í því að framlengja tímabundna verðstöðvun og frystingu launa sem ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar hafði ákveðið en að hinu leytinu að efna til stórfelldra millifærslna í þjóðfélaginu sem hæstv. forsrh. hefur sjálfur lýst á þann hátt að verið væri að fara áratugi aftur í tímann. Tekin verða erlend lán til þess að standa straum af hluta af þessari millifærslu. Í fyrsta lagi 800 millj. kr. til frystideildar Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins og í öðru lagi 1 milljarður kr. til hins nýja Atvinnutryggingarsjóðs.
    Ljóst er að þessar erlendu lántökur þrengja þegar

svigrúmið í ríkisbúskapnum til þess að taka lán til annarra hluta, auk þess sem með þeim er verið að auka á erlenda skuldasöfnun, greiðslubyrði af erlendum lánum og viðskiptahalla. Þrátt fyrir að hæstv. fjmrh. segi að ríkissjóður muni ekki taka erlend lán á næsta ári gefur hann sjálfur í skyn að viðskiptahalli kunni að fara vaxandi og að erlend skuldasöfnun vaxi að sama skapi. Því er einnig spáð í fylgigögunm með þessu frv. að greiðslubyrði þjóðarbúsins af erlendum lánum vaxi á næsta ári úr 17% í tæp 19% af útflutningstekjum.
    Á sama tíma sem alvarlega horfir í atvinnumálum landsmanna er gripið til þess að taka ráðstöfunarfé Atvinnuleysistryggingasjóðs yfir í hinn nýja Atvinnutryggingarsjóð og með því verið að lama Atvinnuleysistryggingasjóð og gera honum ókleift að sinna sínu hlutverki ef til atvinnuleysis kynni að koma þegar líður á vetur. Fróðlegt væri að heyra það hér í þessari umræðu hvar Atvinnuleysistryggingasjóður á að fá fé til þess að sinna sínu hlutverki ef til slíks ástands kemur. Engin svör hafa enn þá fengist við því hvar á að taka peninga til þess að útvega sjóðnum ef á þyrfti að halda. Eðlilegt væri að verkafólk spyrði: Er þetta umhyggja hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. fjmrh. Alþb. fyrir hagsmunum verkafólks?
    Hér er sannarlega djarft spilað en verst er þó að allir virðast sammála um að þessar aðgerðir dugi hvergi og séu raunar gagnslausar til þess að rétta við stöðu atvinnulífsins í landinu. Hvarvetna eru fregnir um alvarlegan hallarekstur og yfirvofandi gjaldþrot þrátt fyrir þær bráðabirgðaaðgerðir sem ríkisstjórnin hefur gripið til. Ekkert hefur komið fram hjá hæstv. ríkisstjórn um það hvað eigi að taka við þegar verðstöðvunartímabilinu lýkur í lok febrúar. Stefnuleysið virðist algjört. Flestum mun þó vera ljóst að staða atvinnuveganna er þannig að svo lengi má ekki bíða með að koma þeim á réttan kjöl.
    Við þessar aðstæður, við þetta stefnuleysi í atvinnnu- og efnahagsmálum er auðvitað ekki mögulegt að leggja fram fjárlagafrv. sem byggir á traustum grunni. Forsendur frv. eru því algerlega í lausu lofti eins og áður sagði. Það er ekki að ófyrirsynju að í athugasemdum með fjárlagafrv. er sagt ,,að óvissa
um forsendur sé með mesta móti``. Frv. byggir á því að verðlag hækki frá meðalverði ársins 1988 til meðalverðs 1989 um 12%. Flestir munu sjá að þessi hækkun mun nú að mestu leyti komin fram.
    Hér er að engu leyti gerð tilraun til að gera grein fyrir því eða skýra hvað muni gerast í lok bráðabirgðaráðstafana ríkisstjórnarinnar í febrúarmánuði nk. Hæstv. ríkisstjórn ákvað að greiða niður hækkun búvöruverðs sem tók gildi í haust rétt eftir að ríkisstjórnin kom til valda. Í fjárlagafrv. er fé ætlað fyrir þessari niðurgreiðslu til 1. apríl nk. Engin grein er gerð fyrir því hvernig þá verði haldið á málum og ekki er annað sýnilegt en að þá verði þessari hækkun búvöruverðsins velt út í verðlagið. Gert er ráð fyrir að laun hækki á milli ára 1988 og 1989 um 8% og er meiri hlutinn af þeirri

launahækkun þegar kominn fram. Þá er gert ráð fyrir að gengi verði óbreytt á næsta ári. Allar eru þessar forsendur frv. vitaskuld óraunsæjar. Breytist þær að marki hafa þær veruleg áhrif á útgjöld fjárlaganna þannig að helsta skrautfjöður hæstv. fjmrh., tekjuafgangurinn, er líka í lausu lofti.
    Hæstv. ráðherra taldi að í fjárlagadæminu væri innbyggt samhengi á milli tekna og gjalda þannig að niðurstöður mundu ekki haggast að ráði þó að forsendur frv. brygðust. Ef hæstv. fjmrh. verður fram eftir næsta ári í sínu ráðuneyti mun hann komast að raun um að þetta er ekki rétt nema að litlu leyti.
    Á tekjuhlið fjárlagafrv. er gert ráð fyrir nýjum skattaálögum sem, eins og áður sagði, nema að raungildi um 3,5--4 milljörðum kr. eða 50--60 þús. kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu. Nú hefur hæstv. fjmrh. látið það mjög í veðri vaka að þessar nýju skattaálögur eigi að leggjast nær eingöngu á stóreignamenn og hátekjumenn, svo sem eins og fólkið í Arnarnesinu og aðra slíka. Að vísu er hér gert ráð fyrir hækkun eignarskatta og tekjuskatta, bæði einstaklinga og fyrirtækja, og hugleiðingar eru um það að taka upp ný skattþrep bæði í tekju- og eignarskatti. Óljóst er hvernig þetta verður útfært. En einnig er stefnt að hækkun skatta sem eru hreinir neysluskattar og leggjast á allan almenning, svo sem hækkun vörugjalds, bensíngjalds og innflutningsgjalda af bifreiðum, enn fremur skattlagningu á orkufyrirtæki eða orkuskatt. Út yfir tekur þó þegar gert er ráð fyrir að leggja 12% söluskatt á sölu happdrættismiða og hliðstæða starfsemi, svo sem Lottó og Getraunir. Hér er um að ræða skatt á öryrkja og íþróttamenn. Þetta er skattur á Öryrkjabandalag Íslands, þetta er skattur á ungmennafélagshreyfinguna í landinu, þetta er skattur á íþróttahreyfinguna og margvíslega félagsstarfsemi og menningar- og mannúðarstarfsemi, svo sem eins og Slysavarnafélag Íslands, hjálparsveitir, Krabbameinsfélagið og fleira og fleira. Hér er einnig um að ræða skatt á uppbyggingarstarf Háskóla Íslands, á SÍBS og DAS, og þarf væntanlega ekki hér að tíunda hið þýðingarmikla starf og hlutverk þessara samtaka og stofnana. Ef þessir aðilar allir eru stóreignamenn í Arnarnesinu eiga þar fleiri heima en ég ætlaði.
    Nú hefur hæstv. forsrh. sagt það við þjóðina að ekki sé víst að tekið verði upp nýtt skattþrep. Og þeir framsóknarmenn fleiri eru farnir að koma í bakið á hæstv. fjmrh. varðandi þessar skattalagahugmyndir.
    Að sjálfsögðu breytast starfshættir framsóknarmanna lítið þótt komin sé ný ríkisstjórn. Það kemur ekki á óvart. En þegar allt er svo holgrafið í ágreiningi innan ríkisstjórnarflokkanna um það hvernig staðið skuli að þessum nýju skattaálögum er auðvitað þeim mun meiri óvissa um að þær komist nokkurn tíma fram því ekki veitir nú stjórnarliðinu af að standa saman ef það ætlar að hafa nokkra von um að geta komið málum, eins og nýjum skattaálögum, í gegnum neðri deild Alþingis.
    Ég hef gagnrýnt það nokkuð harðlega síðan fjárlagafrv. kom fram að á sama tíma og samdráttar

gætir í efnahagskerfinu og þegar að kreppir hjá öllum almenningi í landinu, þannig að hæstv. ríkisstjórn segir sjálf að á næsta ári muni kaupmáttur launa lækka um 7%, skuli ríkið taka til sín vaxandi hluta af ráðstöfunarfé þjóðarinnar.
    Í töflu með fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að ráðstöfunartekjur heimila hækki á næsta ári um 5%, framfærsluvísitala hækki um 12% og lánskjaravísitala hækki um 13%. Þetta kemur heim við annað það sem sagt hefur verið um samdrátt í kaupmætti launa.
    Hæstv. fjmrh. segir að frv. sé mikið aðhaldsfrumvarp og hann talar mikið um niðurskurð ríkisútgjalda. Þetta má til sanns vegar færa á vissum póstum í gjaldabálki frv. Það er vissulega niðurskurður á fé til opinberra framkvæmda sem víða hvar standa óbreyttar í krónutölu en eru annars staðar jafnvel lækkaðar. Það er einnig niðurskurður á fé til opinberra sjóða, þannig að sjóðirnir fá framlag sem er óbreytt í krónutölu frá fyrra ári. Svo er t.d. um Byggðasjóð, svo er t.d. um Framkvæmdasjóð aldraðra, en Framkvæmdasjóður aldraðra hefur mjög mikilvægu hlutverki að gegna, eins og allir vita, og miklar framkvæmdir eru í gangi við heimili fyrir aldraða í landinu.
    Hæstv. forsrh. sagði í ræðu sem hann kallaði stefnuræðu að Byggðasjóður verði efldur. Á því hefði auðvitað verið full þörf miðað við það alvarlega
ástand sem ríkir í atvinnulífi á landsbyggðinni. En það er nú öðru nær. Framlag ríkisins til Byggðasjóðs er óbreytt í krónutölu eins og áður sagði. Þess utan þætti sjálfsagt ýmsum fróðlegt að heyra það hvernig skattaálögur á lántökur sjóðsins muni koma til með að leika fjárhag hans.
    Þá er einnig niðurskurður á tilfærslum til atvinnuvega. T.d. er endurgreiðsla á söluskatti í sjávarútvegi og í iðnaði óbreytt sú fjárhæð sem var á fjárlögum þessa árs og jöfnunargjald er óbreytt. Framlög til landbúnaðarins eru stórlega skorin niður, t.d. jarðræktarframlög stórum lægri en á síðasta ári og framlög til búfjárræktar eru þurrkuð út.
    Þá er einnig fenginn nokkur niðurskurður í útgjöldum ríkisins með því að hækka verulega þjónustugjöld ýmissa stofnana ríkisins sem eiga að þjóna atvinnuvegum, fjárfestingaraðilum eða einstaklingum. Þar er til að mynda stórhækkun á þjónustugjöldum rannsóknarstofnana, svo mikil að varla er sýnilegt að þær geti risið undir starfsemi sinni eða hafi nokkra möguleika til að ná þeim gjöldum af atvinnuvegunum sem til er ætlast. Svo er einnig um ýmsar aðrar stofnanir sem annast þjónustu eða eftirlit á vegum ríkisins. Út yfir tekur þó þegar þessi gjöld eru hækkuð svo mikið að þau gera meira en að standa undir rekstri stofnananna því sumar þeirra eiga að skila tekjuafgangi til ríkissjóðs. Svo er t.d. um Vinnueftirlit ríkisins og skipulagsstjóra, svo nokkuð sé nefnt. Ég ætla að það verði ekki mikið tilhlökkunarefni fyrir fólkið á landsbyggðinni og í þéttbýlinu þegar liðssveitir Vinnueftirlits ríkisins verða sendar út af örkinni til þess að safna fé til ríkissjóðs eins og hér er gert ráð fyrir.

    Niðurskurðartillögur fjárlagafrv. eru margar hverjar einstaklega lagaðar til þess að þrengja að atvinnuvegunum eins og atvinnuvegirnir eru nú staddir í okkar landi. Það má í raun og veru segja það að í frv. felist atlaga að atvinnuvegunum. Auk þess sjá auðvitað allir að niðurskurður opinberra framkvæmda og niðurskurður á viðfangsefnum, eins og framlaga til Framkvæmdasjóðs aldraðra og Byggðasjóðs, hitta fyrst og fremst hagsmuni landsbyggðarinnar.
    En þrátt fyrir allan þennan niðurskurð, sem hér hefur verið lýst, þá er ekki um samdrátt að ræða í útgjöldum ríkisins samkvæmt þessu frv. á næsta ári. Það er öðru nær. Það er aukning á útgjöldum ríkisins, eða eins og segir í athugasemdum með frv., um 0,8% að raungildi. Og hvernig skyldi þá standa á því? Jú, það eru aðrir þættir í fjárlagadæminu sem fá aukið fé til ráðstöfunar. Umfang ríkisbáknsins og kostnaður við ríkisreksturinn vex þannig að það étur upp allan niðurskurðinn sem að framan hefur verið lýst og miklu meira til.
    Þetta tel ég gagnrýnisvert. Ég tel að þegar að kreppir í þjóðfélaginu þá verði að reyna að hafa hemil á útþenslu ríkisbáknsins, halda aftur af kostnaði við ríkisreksturinn þannig að rekstrarliðirnir taki ekki til sín sífellt stærri hluta af ráðstöfunarfé þjóðarinnar. Ríkisreksturinn hlýtur að verða að taka á sig sinn hluta af samdrættinum eða a.m.k. verður að stöðva útþensluna.
    Í fjárlagafrv. er brotin sú meginregla, sem fylgt hefur verið til þessa, að fé sem inn kemur vegna sérmerktra tekjustofna Vegagerðar ríkisins gangi til vegamála. Þessir sérmerktu tekjustofnar eru bensíngjald og þungaskattur af dísilbifreiðum. Það fé sem áætlað er að inn komi samkvæmt þessum sérmerktu tekjustofnum á næsta ári er samkvæmt tekjuhlið frv. 3565 millj. kr. En til vegamála er einungis áætlað að verja 3105 millj. kr. Þarna skakkar því 460 millj. kr. og að auki er ekki gert ráð fyrir því fé sem innheimst hefur umfram það sem skipt var til einstakra verkefna á vegáætlun þessa árs og var upphaflega áætlað að væru 285 millj. kr. en lítur út fyrir að verða nokkru minna eða um 200 millj. kr.
    Eins og allir vita höfum við unnið stórvirki í vegagerð hér á landi á undanförnum árum og höfum mikla þörf fyrir að halda því áfram. Á næsta ári er ætlunin að vinna fyrir verulegt fjármagn við jarðgöng í gegnum Ólafsfjarðarmúla sem er stórvirki. Allsendis óljóst er hvernig það verk verður fjármagnað miðað við þá skerðingu sem hér er gert ráð fyrir að verði á fé til vegamála. Fróðlegt væri að heyra hvort stuðningsmenn hæstv. ríkisstjórnar hugsa sér að standa að afgreiðslu fjárlagafrv. á þann hátt að um 660 millj. kr. af því fé, sem inn kemur eða hefur komið af sérmerktum tekjustofnum til vegamála í landinu, verði teknar í ríkissjóðshítina.
    Hafnaframkvæmdir hafa verið of litlar hér á landi á undanförnum árum. Það er út af fyrir sig ekki við núverandi ríkisstjórn að sakast. Á hinn bóginn má sá framkvæmdaliður ekki við því að hann fái óbreytta krónutölu frá því sem var á fyrra ári. Verkefnin eru

mikil í höfnum landsins. Þar þarf víða viðhaldsverkefni og það þarf nýbyggingar vegna þess að bátum fjölgar og skipin stækka. Hafnirnar eru víða hvar lífæðar byggðanna. Þær mega ekki grotna niður. Við þurfum áfram að draga björg í bú.
    Mér þykir einnig vert að vekja athygli á því að tiltölulega lítill liður er mjög lækkaður í þessu frv. en það er framlag til sjóvarnargarða sem á fjárlögum þessa árs er 25 millj. kr. en í frv. aðeins 10 millj. á næsta ári.
Sannast sagna undrast ég hverju það sætir að þessi liður skuli skorinn svo niður þar sem mjög miklar óskir eru um framlög til sjóvarnargarða víðs vegar um land og þarfirnar án efa miklar.
    Ýmsa fleiri liði fjárlagafrv. væri vitaskuld ástæða til að nefna. Ég vil aðeins segja það hér til að mynda í sambandi við styrki til menningarmála og aðra slíka styrki í fjárlagafrv. að ég dreg það mjög í efa að það hafi verið hyggilegt af hæstv. fjmrh. að færa þá upp í fjárlagafrv. eins og þar er raun á. Þessir liðir, sem sumir hverjir eru smáir, eru færðir upp mjög misjafnlega. Sumir eru hækkaðir mikið, aðrir lítið. Sumir eru látnir standa í stað, aðrir eru felldir út. Nýir liðir eru teknir upp, jafnvel liðir sem kostað hefur talsverða baráttu af hálfu fjvn. og Alþingis að fella út úr texta fjárlaganna, en fella á hinn bóginn inn í safnliði sem skipt er ýmist með bréfi af hálfu fjvn. eða af ráðuneytunum sjálfum. Ýmsir þessir liðir eru þess eðlis að þeir eiga betur heima í safnliðum á vegum ráðuneytanna þannig að ráðuneytin sjálf hafi þá meiri tök á því heldur en ef þeir eru sérmerktir í fjárlögum hvernig fé er til þeirra ráðstafað.
    Ég hlýt að segja það hér að þau vinnubrögð, sem tekin eru upp varðandi þessa liði og auðvitað margt annað í þessu fjárlagafrv., eru að mínum dómi ekki hyggileg. Nú hlýt ég að undrast það að hæstv. fjmrh. skuli ekki sjá sóma sinn í því að vera við þessa umræðu. ( Gripið fram í: Það er enginn ráðherra.) Það er enginn hæstv. ráðherra úr núv. ríkisstjórn sem hirðir um það að vera við 1. umr. fjárlaga eftir að hæstv. fjmrh. hefur lokið ræðu sinni. Þetta er óvirðing við Alþingi, þetta er óvirðing við okkur sem erum í stjórnarandstöðu og þetta er óvirðing við þjóðina. Ég tel þetta sannarlega ámælisvert og ég man ekki eftir því í annan tíma, og er ég búinn að sitja nokkuð lengi hér á hv. Alþingi, að hæstv. fjmrh. hafi ekki setið og hlustað á umræðu um fjárlög. Er þetta e.t.v. sú nýbreytni sem hæstv. fjmrh. hyggst taka upp þegar hann er að leita eftir nýju og betra samstarfi við hv. fjvn. og hv. Alþingi? Kannski er það svo.
    Ég nefni hér enn smáliði sem sýna handahófskennd vinnubrögð hæstv. fjmrh. eða e.t.v. vinnubrögð í sambandi við smáliði, hæstv. ráðherra --- sem nú gengur í salinn --- sem eiga sér skýringar sem ekki liggja í augum uppi. Þar er til að mynda hækkað við Æskulýðssamband Íslands um 117%. Fáir munu sjá eftir því. En á sama tíma er hækkað við Æskulýðsráð um 11%, Ungmennafélag Íslands um 11% og Bandalag ísl. skáta um 10%, svo dæmi séu tekin. Þetta er aðeins dæmi um vinnubrögð sem kannski eiga

sér aðrar rætur en handahóf en munu verða til þess að fjvn. og Alþingi mun væntanlega þurfa meira fé til að breyta hinum einstöku smáliðum en ella væri ef hæstv. ráðherra hefði notað venjubundin vinnubrögð í sambandi við liði af þessu tagi.
    Ég mun ekki fara lengra út í það nú að fjalla um einstaka liði frv. Ég á sæti í fjvn. og þó að ég sé þar í minni hluta og í stjórnarandstöðu þá á ég ekki von á öðru en að þar verði gott samstarf svo sem yfirleitt hefur verið, a.m.k. mun ég reyna á það áður en ég fer að tala hér mjög um einstaka liði frv. sem er auðvitað ærin ástæða til í mörgum greinum. Ég mun því bíða með það til 2. umr. eða þangað til að séð verður hverju fram vindur um starf fjvn. og samstarf þar.
    Ég geng þess að sjálfsögðu ekki dulinn að eðlilegt er að sýna í öllum slíkum málum, sem kosta kunna aukin útgjöld, bæði hófsemi og varfærni. Á þann máta hygg ég að stjórnarandstaðan eða a.m.k. við fulltrúar Sjálfstfl. munum sýna okkar vilja í verki. Það kemur hins vegar ekki í veg fyrir það að þar sem með óvenjulegum hætti er um vélað af hálfu hæstv. fjmrh. og þar sem brotnar eru meginreglur, þá munum við ekki við það geta unað.
    Hæstv. fjmrh. sagði í upphafi sinnar ræðu að fylgifrumvörp með fjárlagafrv. mundu birtast á næstunni. Eigi að síður hlýt ég að spyrja hæstv. ráðherra: Hvenær má vænta þess að fram verði lagt frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1989 og þau frumvörp sem þarf að leggja fyrir Alþingi varðandi hina nýju skattheimtu sem fjárlagafrv. boðar? Mig langar til þess að spyrja nokkurra fleiri spurninga og ég beini þeim til hæstv. fjmrh.: Hver verða verðlagsáhrif hinna nýju neysluskatta sem ráðgert er að taka upp samkvæmt fjárlagafrv.? Og hvernig hyggst hæstv. ríkisstjórn lækka verð á orku til fiskvinnslufyrirtækja svo sem yfirlýsingar hafa staðið um? Og ég spyr enn: Hvað á að taka við þegar verðstöðvunartímabilinu lýkur í febrúar? Og ég spyr einnig: Hvenær hyggst hæstv. ríkisstjórn taka einhverja stefnu í efnahags- og atvinnumálum?
    Ég spyr vegna þess að atvinnufyrirtækjunum er að blæða út. Þau þola ekki að hæstv. ríkisstjórn liggi á meltunni fram eftir vetri eða langt fram á útmánuði. En ég spyr einnig vegna þess að nauðsynlegt er að hæstv. ríkisstjórn birti stefnu sína áður en afgreiðslu fjárlaga lýkur. Ef það er ætlun hæstv. ríkisstjórnar að sama stefnuleysið ríki áfram, og fjárlagafrv. verði afgreitt við þær aðstæður, verða fjárlögin sýndarplagg, forsendur þeirra fúasprek og niðurstöðutölur marklausar.