Fjárlög 1989
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Albert Guðmundsson:
    Það er enginn sjálfskipaður né á annan hátt skipaður talsmaður stjórnarandstöðunnar. Það er ekki nauðsynlegt að þeir stjórnmálaflokkar, sem ekki eiga fulltrúa í ríkisstjórn, séu endilega þar með sjálfskipaðir stjórnarandstæðingar. Það er eðlilegt að fjölmennasti stjórnarandstöðuflokkurinn, sem er eini flokkurinn sem hefur lýst sig beint stjórnarandstöðuflokk, tali fyrstur við umræðu eins og t.d. stefnuræðu forsrh. og stefnuræðu eða kynningu fjmrh. fyrir hönd ríkisstjórnarinnar á fjárlagafrv. Það hefur verið hefð, að því að mér var sagt þegar ég var fjmrh., að flokkarnir, sem ekki eiga fulltrúa í ríkisstjórn, töluðu í þeirri röð sem stærð þeirra segir til um. Þessi hefð hefur ekki verið brotin svo mér sé kunnugt. Nú skeður það að hæstv. fjmrh. hefur talað og kynnt fjárlagafrv., og virðulegur þm., fulltrúi stærsta stjórnarandstöðuflokksins, hefur talað. Næstur í þeirri röð er fulltrúi Borgfl. og það er eðlilegt að hann taki næstur til máls áður en einstaklingar sem styðja stjórnina og standa að fjárlagagerð ríkisstjórnarinnar fá orðið eða aðrir flokkar sem eru fámennari á Alþingi.
    Ég óska eftir því, virðulegur forseti, enda hélt ég að um það væri samkomulag að fulltrúi Borgfl. fái að halda sínum rétti samkvæmt hefð og taki næstur til máls.