Fjárlög 1989
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Aðrir hv. þm. Sjálfstfl. hafa rætt hér um forsendur fjárlagafrv. og þá meginstefnu sem kemur fram í því og mun ég því ekki gera því efni veruleg skil í þessari ræðu minni. Það er þó ljóst að Sjálfstfl. er í stjórnarandstöðu og í andstöðu við stefnu ríkisstjórnarinnar (Gripið fram í.) það eru reyndar fleiri í andstöðu þótt ekki sé með sama hætti, þar á meðal sá þingmaður sem gengur nú úr salnum, hv. þm. Skúli Alexandersson, sem hefur lýst því yfir að hann treysti sér ekki til að verja þessa ríkisstjórn vantrausti ( SkA: Það var góð yfirlýsing að Sjálfstfl. væri í stjórnarandstöðu.) þannig að við erum á sama báti hvað það snertir og þakka ég hv. þm. fyrir hans frammíkall. Ég er sammála hv. þm. Skúla Alexanderssyni samherja mínum um þetta efni.
    Það er ljóst að efnahagsstefna þessarar ríkisstjórnar byggir á því að halda genginu rangt skráðu með millifærslum, fyrst og fremst til sjávarútvegsins og frystingarinnar, með því að færa fé frá einum til annars Þannig tekst ríkisstjórninni væntanlega að halda niðri verðlagi í landinu á næstu vikum, enda gilda hér lög um launastöðvun sem hæstv. fjmrh. stendur að ásamt öðrum í hæstv. ríkisstjórn. Það er hins vegar ljóst og hverjum manni auðsætt að eftir örfáa mánuði, eða þegar þessar bráðabirgðaaðgerðir taka enda, blasir hyldýpi við og hæstv. ríkisstjórn hlýtur þá, ef ekki fyrr, að þurfa að leiðrétta gengið og skapa útflutningsgreinunum og atvinnulífinu í landinu eðlilegan rekstrargrundvöll.
    Það er einkar athyglisvert að aðeins rúmum tveimur mánuðum áður en hæstv. fjmrh. tók við embætti, en þá var hann í stjórnarandstöðu, skrifaði hann greinargerð vegna niðurstaðna í þjóðhagsspá sem þá var birt. Í þessari greinargerð komu fram sjónarmið hæstv. ráðherra eftir að hann hafði dregið saman sitt álit. Þar segir hann m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þessi niðurstaða er enn dapurlegri fyrir þá sök að áfram ríkja óvenjulega hagstæð ytri skilyrði í efnahagslífi Íslendinga.`` Og síðar: ,,Það eru því ekki óhagstæð ytri skilyrði sem skapa hinn mikla efnahagsvanda. Þau eru áfram Íslendingum í hag. Vandinn er algerlega heimatilbúinn.``
    Þetta var birt í málgagni hæstv. fjmrh. 14. júlí í sumar.
    Þessar yfirlýsingar hæstv. fjmrh. eru þeim mun athyglisverðari fyrir þær sakir að á þeim tíma var komið fram það mikla verðfall sem orðið hefur á okkar mörkuðum erlendis fyrir okkar sjávarafurðir. Í dag flytur hæstv. ráðherra framsöguræðu sína fyrir fjárlagafrv. hér á Alþingi Íslendinga og segir þar orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Fjárlagafrv. fyrir 1989 flytur engan gleðiboðskap. Það byggir á viðurkenningu á því að nú kreppi að í íslenskum þjóðarbúskap.``
    Þetta er athygli vert því að í raun og veru hefur ekkert gerst í ytri skilyrðum þjóðarbúsins á þeim tíma sem liðinn er frá 14. júlí til dagsins í dag, ekkert annað en það að hæstv. ráðherra er nú sestur í ríkisstjórn en var þá utan stjórnar.

    Þegar hæstv. ráðherra var í stjórnarandstöðu réðist hann óþyrmilega að fyrirrennara sínum vegna svokallaðs matarskatts og sagði að hæstv. utanrrh., sem þá var fjmrh., væri brennimerktur maður og gæti ekki talað við fulltrúa launþegasamtakanna í landinu fyrr en hann drægi matarskattinn til baka. Aftur og aftur í fjölmiðlum og annars staðar klifaði hæstv. fjmrh. á þessum sjónarmiðum Alþb. Nú þegar hann er sestur í hæstv. ríkisstjórn heldur hann áfram skattlagningu á matvæli og gerir ekki minnstu tilraun til þess að efna loforð sín eða a.m.k. að standa við sínar yfirlýsingar. Þvert á móti bætir hann við sköttum á almenning í landinu. Að vísu talar hann þá um breiðu bökin, að hann ætli að sækja tekjur í ríkissjóð til þeirra sem meira mega sín. Og hverjir skyldu þetta nú vera? Þetta eru m.a. íþróttafólk, menntastofnanir og öryrkjar.
    Ég býst við að allir hv. þm. hafi kynnt sér þann boðskap sem kom fram hjá fyrrv. þm. Alþb. Helga Seljan þegar hann skrifaði hæstv. ráðherra bréf og bað hann nú um að endurskoða afstöðu sína. En hæstv. ráðherra situr fast við sinn keip og talar meira að segja um misskilning þegar hæstv. forsrh. segir að aðeins sé um lausleg áform að ræða og þess vegna sé óhætt fyrir Framsfl. að vera á móti þessum skattaálögum. Það hlýtur því að vera fullt tilefni til þess að spyrja við þessa umræðu: Stendur ríkisstjórnin öll og stjórnarflokkarnir í heilu lagi, því að þeir þurfa á öllum atkvæðum sinna liðsmanna að halda, að baki þeim áformuðu skattabreytingum sem hæstv. ráðherra hefur lýst?
    Ég hef nú rakið eitt dæmið þar sem hæstv. forsrh. segir að aðeins sé um lausleg áform að ræða og því sé óhætt fyrir Framsfl. að vera á móti þeirri skattheimtu. Getur verið að lausleg áform séu einnig um aðra skattheimtu og þess vegna sé lítið ef nokkuð að marka það fjárlagafrv. sem hér hefur verið lagt fyrir hv. Alþingi og hæstv. fjmrh. mælti fyrir fyrr í dag? Það er auðvitað ekki boðlegt að leggja fram fjárlagafrv. með þeim hætti að tekjumegin eða það sem fram kemur í 1. gr. frv. byggist á lauslegum áformum sem hæstv. forsrh. er á móti.
    Nú skal ég reyndar viðurkenna það að hæstv. forsrh. er yfirleitt á móti ríkisstjórnum hvort sem hann situr í þeim eða ekki. En nú vill svo til að þingmeirihluti núv. hæstv. ríkisstjórnar er ekki meiri en svo að hún þarf meira að segja á atkvæði forsrh. að halda. Manni hlýtur því að koma í hug að eitthvað sé bogið við stjórnarsamstarf sem byggir á því að hægt sé að leggja fram fjárlagafrv. þegar ætlunin er að sækja tekjur til nýrra tekjustofna sem aðeins eru lausleg áform og heill stjórnmálaflokkur, flokkur hv. þm. Páls Péturssonar, er á móti sumum þessara áforma. Ég hugsa nú ekki að hv. þm. Páll Pétursson sé á móti þeim, hann gerir hvað sem er til að sitja þeim megin sem ríkisstjórnir eru á hverjum tíma. En foringi hans, hæstv. forsrh. Steingrímur Hermannsson, er ávallt beggja megin við borðið, situr í ríkisstjórn en er líka á móti henni þegar því er að skipta. Það hlýtur því að vera í verkahring hæstv. fjmrh. að gera hreint

fyrir sínum dyrum við þessar umræður í dag. Standa hæstv. ríkisstjórn öll og stjórnarflokkarnir í heilu lagi með tekjuhlið þessa frv.? Þetta verður hæstv. ráðherra að staðfesta og maður verður að treysta því að hann, sem fer með æðstu völd í þessum efnum, hafi sér til fulltingis --- ja, stjórnarþingmann á borð við hæstv. forsrh. Þó að ég viti að hæstv. fjmrh. leggi ekki mikið upp úr slíkum stuðningi, þá þarf hann á honum að halda ef þessi tekjufrv. eiga að nást fram á Alþingi. Og hæstv. fjmrh. hefur fullt leyfi til þess að tala í þessum málum fyrir hönd ríkisstjórnarinnar allrar. Vandinn er hins vegar sá að ef hæstv. fjmrh. staðfestir að um þetta hafi verið samið er hann um leið að segja að hæstv. forsrh. sé að hlaupa frá sínum yfirlýsingum. Hann er bókstaflega að brennimerkja, svo að ég noti nú hugtak sem hæstv. ráðherra er tamt, hæstv. forsrh. sem ósannindamann og auðvitað á hv. Alþingi rétt á að vita hvor þeirra hefur rétt fyrir sér því annars er ekki hægt að taka mark á þeim lagafrv. sem lögð eru fram á Alþingi, þar á meðal jafnmikilvægum frv. og fjárlagafrv.
    Erindi mitt í ræðustól, hæstv. forseti, er þó fyrst og fremst að ræða örfá efnisatriði frv., en þó einkum þau sem snúa að iðnrn., og gera þar ákveðnar fyrirspurnir. Í fyrsta lagi vil ég benda á að samkvæmt texta sem er á bls. 303 og er í athugasemdum með fyrirliggjandi frv. kemur fram að í fjárlagafrv. er ekkert framlag til vöruþróunar- og markaðsdeildar Iðnlánasjóðs. Hér er um stefnubreytingu að ræða. Vöruþróunar- og markaðsdeild Iðnlánasjóðs var stofnuð þegar Iðnrekstrarsjóður sameinaðist Iðnlánasjóði. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hefur hann stuðning allra í sínum eigin þingflokki við þessa tillögu? Og ég get sagt honum af hverju spurt er. Það er vegna þess að þessi stuðningur hefur verið eitt aðaláhugamál hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar. Og ég spyr hæstv. ráðherra: Hefur hv. þm. Hjörleifur Guttormsson samþykkt að ekkert ríkisframlag renni til Iðnlánasjóðs í þá deild sem kölluð er vöruþróunar- og markaðsdeild? Hafi hann stuðning þess hv. þm. úr röðum Alþb. Er hér um stefnubreytingu að ræða hjá þeim hv. þm.?
    Í öðru lagi langar mig til þess að nefna sérstaklega liðinn ,,Ýmis orkumál`` og þá einkum og sér í lagi texta sem kemur fram á bls. 305 í athugasemdum með fjárlagafrv., en þar segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Framlag til niðurgreiðslna á rafhitun nemur 224 millj. 890 þús. kr. samanborið við 200 millj. kr. á árinu 1988 og hækkar því um 12%.``
    Þetta er merkilegur texti. Hann er merkilegur fyrir þær sakir að ekki alls fyrir löngu lýsti hæstv. fjmrh. því yfir hvað fælist í stjórnarsáttmála núv. hæstv. ríkisstjórnar þar sem stendur að útgjöld ríkisins muni ekki breytast á milli ára að raungildi, að það væri eðlilegt að taka tillit til þess útgjaldaauka sem hefði orðið á árinu. Þetta sagði hæstv. ráðherra, að vísu ekki orðrétt en efnislega, eins og ég veit að hann man sjálfur. Í mars á þessu ári var nefnilega gert samkomulag á milli iðnrn. og fjmrn. og það var staðfest í ríkisstjórn með minnisblaði frá báðum

þessum ráðuneytum að fjmrn. tæki að sér að greiða nákvæmlega jafnmikið að krónutölu til í niðurgreiðslur á rafhitun eins og gert var árið áður. Og áætlaðar tölur benda til að á þessu ári kunni sú greiðsla að vera 220--230 millj. kr. Árið 1987 voru greiddar 215 millj. kr., en síðan hafa nokkrir neytendur bæst við í hóp þeirra sem eiga að fá niðurgreiðslur skv. þessum lið. Ég hélt að þetta samkomulag væri enn í gildi, annað hef ég ekki heyrt. Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir að sjálfsögðu það að niðurgreiðsla á rafhitun hækkar ekki vitund á milli ára, nákvæmlega ekki neitt. Og ég spyr hæstv. ráðherra: Var honum kunnugt um þetta samkomulag? Vissi hann kannski ekki að fjmrn. er bundið af samningi við iðnrn. um að greiða 65 aura á hverja kwst. og sú upphæð sem kemur til útgreiðslu er ekki 200 millj. kr. heldur líklega nær 220 millj. kr. eða jafnvel hærri. Vegna þess texta sem kemur fram í athugasemdunum er mér nær að halda að hæstv. ráðherra hafi ekki haft hugmynd um þetta og það væri auðvitað alvarlegt mál.
    En það er fleira sem iðnrn. og fjmrn. gerðu samning um á sínum tíma, þar á meðal það, sem snertir þetta mál einnig, að Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins þyrftu ekki að standa skil á greiðslum af skuldum sem urðu til þegar verðjöfnunargjald á raforku var lagt af. Þessi upphæð er u.þ.b. 100 millj. kr. Ef þessi samningur hefði ekki verið gerður hefði líklega þurft
að hækka rafmagn til húshitunar um 10% og ég spyr: Byggir fjárlagafrv. á því að áfram verði staðið við ákvæði þessa samnings? Að vísu var það ekki tekið fram að það þyrfti að gerast á næsta ári, en ég spyr hæstv. ráðherra hvort framhald verði á þessari stefnu því ef svo verður ekki mun húshitunarkostnaður á landsbyggðinni hækka stórkostlega af sjálfu sér. Um síðustu áramót voru þessar upphæðir 40 millj. kr. hjá Orkubúi Vestfjarða og 56,7 millj. kr. hjá Rafmagnsveitum ríkisins, og verða áreiðanlega talsvert hærri er þær koma til greiðslu nú í lok desember á þessu ári. Þetta er kannski ekki stór upphæð en þó a.m.k. 100 millj. kr. Og allir vita að þessi fyrirtæki eru ekki aflögufær.
    Þessu til viðbótar langar mig til þess að spyrja hæstv. ráðherra, sem á sæti í stjórn Landsvirkjunar, hvort rætt hafi verið í stjórn Landsvirkjunar um að framlengja þá samþykkt sem gerð var í mars sl., um sama leyti og samningur var gerður á milli iðnrn. og fjmrn., um að gefa afslátt til húshitunar. Það gerði stjórn Landsvirkjunar, eins og hæstv. ráðherra veit, til þess að tapa ekki markaðshlutdeild því að olía til húshitunar hefur lækkað stórkostlega á undanförnum árum. Verð á gasolíu er í dag líklega innan við þriðjung af verði olíunnar fyrir þremur til fjórum árum síðan. Ég spyr þess vegna hæstv. ráðherra, sem jafnframt er stjórnarmaður Landsvirkjunar: Stendur til að þessi samþykkt muni standa á næsta ári? Samþykktin sem gerð var í mars gilti nefnilega eingöngu fyrir yfirstandandi ár og þetta eru u.þ.b. 100 millj. kr. til viðbótar. Þetta eru stórar upphæðir og mundi þýða að raforkuverð mundi enn hækka af

þessum sökum ef stjórn Landsvirkjunar sér ekki ástæðu til eða telur sig ekki geta haldið þeirri stefnu sem kom fram í samþykkt hennar fyrr á þessu ári.
    Það er ljóst að ef ekki hefur verið gert ráð fyrir þessu í fjárlagafrv., og mér býður í grun að svo hafi ekki verið, horfir til þess að raforkuverð til húshitunar muni hækka allverulega. Ég veit ekki hvort hv. þm. Alexander Stefánsson ræddi þessi áhugamál sín í sinni ræðu hér áðan. En hann hefur nú verið einn helsti varðmaður landsbyggðarinnar um þetta efni í röðum framsóknarmanna. Hefur hv. þm. Alexander Stefánsson skoðað þetta mál? Eða treystir hann sérstaklega hæstv. ráðherra til að fara með þessi mál og kannski betur en hæstv. fyrrv. fjmrh.?
    Staðreyndin er nefnilega sú að sá árangur náðist í tíð síðustu ríkisstjórnar að rafhitunarkostnaður lækkaði miðað við laun og hann hefur aldrei verið lægri á þessum áratug. Munur á hitunarkostnaði heimila á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu hefur aldrei verið minni.
    Nú hef ég ekkert minnst á áform eða kannski lausleg áform hæstv. ríkisstjórnar um að leggja skatta á orkufyrirtæki. Hvers konar skattar eiga það að vera? Tekjuskattar, sem hvetja orkufyrirtækin til þess að hætta að reka fyrirtækin með einhverjum hagnaði þar sem það er hægt öllum til góðs, eða orkuskattur á hverja einingu, sem auðvitað mun stórhækka orkuverðið og það verða landsmenn að greiða.
    Ég óska eftir að hæstv. ráðherra upplýsi okkur um þessi mál þegar hann flytur sína svarræðu síðar í kvöld því að hér er stórmál á ferðinni, mál sem er ákaflega viðkvæmt fyrir alla landsbyggðina. Ég veit að hér inni eru hv. þm. sem skilja þetta mjög vel og stóðu með mér í þeirri baráttu að lækka orkuverðið á yfirstandandi ári. Treysta þeir því að hæstv. ríkisstjórn muni halda áfram þeirri stefnu? Hafa þeir kannað það í þessu fjárlagafrv. hvort ekki sé gengið á rétt fólksins sem býr úti á landi og þarf að kynda hús sín með raforku? Ég spyr þá menn sem hæst létu á síðasta vetri og hér sitja í salnum: Hafa þeir kannað þetta mál? ( SV: Það verður kannað.) Það verður kannað, segir guðfaðir ríkisstjórnarinnar. M.ö.o., hann staðfestir það hér og nú að það hafi alls ekki verið kannað. En hann segir, þessi voldugi þingmaður sem hefur líf ríkisstjórnarinnar í greip sinni: ,,Það verður kannað``.
    Vona ég nú að hæstv. fjmrh. hafi heyrt erkibiskups boðskap. Hitt er svo annað mál hvort hann er ráðinn í því að hafa slíkan boðskap að engu. Það kemur í ljós, enda veit guðfaðirinn að hann hefur líf ríkisstjórnarinnar í hendi sér. En þetta voru athygli verðar upplýsingar sem komu hér fram í framíkalli hv. þm. Stefáns Valgeirssonar. ( SV: Það voru engar upplýsingar.)
    Nú skulum við aðeins bíða við. Það er einn þáttur þessa máls eftir. Og hann er þessi: Hæstv. forsrh., þessi maður sem hefur lag á því að vera bæði í ríkisstjórn og utan ríkisstjórnar og ber aldrei ábyrgð á neinum málum sem eru erfið, er þó stuðningsmaður þessarar hæstv. ríkisstjórnar, að maður heldur að minnsta kosti, stundum en ekki alltaf, ekki þegar á að

leggja á öryrkjaskatt. En stundum er hann stuðningsmaður sinnar eigin ríkisstjórnar. Það kemur að minnsta kosti fyrir. Hann hefur sagt: ,,Það á að lækka rafmagn til fyrirtækja í útflutningsgreinum sem hafa jafna notkun yfir árið.`` Þetta hafa menn skilið svo að nú eigi að lækka rafmagn til frystingarinnar í landinu og nefndar hafa verið tölur eins og 25%. Þeir sem þekkja til í þessum rekstri vita að rafmagnskostnaður þessara fyrirtækja er í kringum 2% af heildarútgjöldum fyrirtækjanna. Þannig að þetta er talsvert sem þarna á að gerast. En hvernig á að gera þetta? Sér maður það í fjárlagafrv.? Hefur hv. þm. Stefán Valgeirsson
kynnt sér það? Getur verið að hægt sé að lækka verð til nokkurra notenda sem taka til sín mikið rafmagn án þess að einhver annar borgi þessar háu upphæðir? Ég spyr manninn sem situr í Landsvirkjunarstjórn, hæstv. fjmrh.: Getur Landsvirkjun prentað slíka peninga? Ég held ekki. Eðli málsins samkvæmt verða einhverjir að borga brúsann. Ef ekki þessi fyrirtæki, þá einhverjir aðrir. Ef ekki þeir sem nota raforkuna nú þá börnin okkar, eins og hæstv. ráðherra segir stundum, við vísum þessu fram á framtíðina með því að auka erlendar skuldir þjóðarinnar. Það hlýtur þó hæstv. ráðherra og stjórnarmaður Landsvirkjunar að vita að ef ekki kemur nægilega mikið í kassann þar þýðir það að ekki er hægt að borga niður jafnhratt þau lán sem Landsvirkjun hefur tekið. Og einmitt niðurgreiðslur á þessum lánum, afborganir og vextir, eru líklega um 85% af heildarveltu fyrirtækisins.
    Svona hókus-pókus yfirlýsingar án þess að nokkuð sé á bak við þær verða auðvitað að opinberast með einhverjum hætti. Og það hlýtur að vera tími til þess nú, þegar fjárlagafrv. er til 1. umr., að fá skýr svör um það hvernig hæstv. ríkisstjórn ætlar að fylgja þessari stefnu sinni fram. Ástæðan fyrir því að spurt er er sú m.a. að Orkubú Vestfjarða, Rafmagnsveitur ríkisins og önnur orkudreifingarfyrirtæki eru ekki aflögufær. Það hlýtur því að vera ávísun eða tilvísun á Landsvirkjun sem hér er verið að tala um. Það hlýtur þess vegna að vera ætlast til þess að Landsvirkjun geri eitthvað í þessum efnum. En nú vill svo til að Landsvirkjun er sjálfstætt fyrirtæki sem þarf ekki að gegna hæstv. ríkisstjórn. Stjórn fyrirtækisins hefur nefnilega miklu meiri völd á sínum málefnum heldur en ef um ríkisfyrirtæki væri að ræða. Og það hefur verið staðfest margoft af lögfræðingum að Landsvirkjun er ekki ríkisfyrirtæki. Þess vegna hlýtur hæstv. ríkisstjórn að hafa vitað hvernig hún ætlaði að lækka rafmagn til frystingarinnar í landinu um 25% áður en þessi yfirlýsing var gefin. Og vegna þess að um orkufyrirtækin er fjallað í þessu frv. hljótum við að krefjast þess að við þessa umræðu komi fram svör um þessi mál.
    Hæstv. forseti. Ég hef aðeins vikið hér að örfáum atriðum frv. og nánast ekkert rætt um meginstefnu þess. Það hafa aðrir hv. þm. Sjálfstfl. gert. En ég óska eftir því að hæstv. fjmrh. skýri þau sjónarmið sem ég hef óskað eftir að hann geri og svari þeim fyrirspurnum sem ég hef borið fram hér í minni ræðu.