Fjárlög 1989
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Hér erum við komnir aftur til að ræða um fjárlagafrv. Sl. haust var líka rætt um fjárlagafrv. Hér hafa menn rætt um að ríkið þurfi meiri tekjur, þurfi meiri skatta, þurfi meira til sín. Sl. haust voru aðrir flokkar við stjórn. Þá hækkuðu fjárlög um helming frá árinu áður. Það er mesta hækkun sem hefur orðið á fjárlögum sem menn muna. Núna heldur þessi hækkun áfram. Það er mikil hækkun núna. Það eru 17 milljarðar sem það hækkar um frá því fjárlagafrv. sem var lagt fram í fyrra.
    Þessar hækkanir eru einhverjar þær mestu í sögu þjóðarinnar. Ef við tökum mið af árinu 1986, förum ekki lengra aftur í tímann en það, má ætla ef við aðeins framreiknum með verðlagi að það sé svona um það bil fimmtungs hækkun á fjárlögum frá 1986, 20% eða um 12 milljarðar. Og hvað þýðir þetta? Þýðir þetta betri afkomu fyrir fólkið? Þýðir þetta minni verðbólgu? Hvað þýðir þetta?
    Fjármálaráðherrar beggja þessara stjórna hafa lagt fram þessi frv. Þeir leggja áherslu á nýja skatta. Auðvitað þýðir þetta aðeins það að fólkið hefur minna til ráðstöfunar, fyrirtækin hafa minna til ráðstöfunar og við sjáum ástandið og orsakirnar núna í þjóðfélaginu. Fyrirtækin fara á hausinn vegna þess að það eru lagðir meiri skattar á þau. Einstaklingarnir þola ekki þær álögur sem eru lagðar á þá og víða eru gjaldþrot. Þetta eru hinar raunverulegu ástæður fyrir því ástandi sem er í þjóðfélaginu vegna þess að aldrei í sögu lýðveldisins hefur verið meira góðæri, meiri fiskveiði, betra verð í heild og betri útkoma. Þetta er óráð í stjórnun fjármála. Þeir þingmenn sem voru í síðustu stjórn geta ekkert þvegið hendur sínar í handlaug hér á því ástandi sem er núna. Þessar hækkanir eru svo gífurlegar að fólkið finnur fyrir því. Ráðstöfunartekjur eru minni og ofan á það bætist að við höfum niðurgreitt bankakerfi sem fólkið borgar og greiðir niður vegna þess að vextirnir eru miklu hærri hér en annars staðar. Ég held að það sé kominn tími til að menn líti aðeins lengra aftur í tímann og sjái hvað hefur farið úrskeiðis í stjórnun fjármála, í hvaða ráðuneytum, í hvað peningarnir hafa farið.
    Við höfum heyrt Sjálfstfl. mótmæla hér skattlagningu á íþróttafélög. En þeir gleymdu að mótmæla því á sl. ári þegar þeir skáru niður framlög til íþróttahreyfingarinnar. Í þessu fjárlagafrv. virðist gert ráð fyrir sköttum á skatta ofan. Við erum ekki enn þá búnir að sjá þau frv., því þau hafa ekki verið lögð fram, en það er gert ráð fyrir meiri eignarsköttum. Ég fullyrði það að fólk sem á húskofa úti í bæ þolir ekki meiri eignarskatta, því þessu er stefnt gegnt gamla fólkinu m.a., fólki sem er búið að búa allt sitt líf í sama húsinu, á það skuldlaust og er að ljúka ævidögum, er kannski eitt og hefur litlar tekjur, það þolir ekki meiri eignarskatta. Og það er fleira. Gert er ráð fyrir hærri tekjusköttum. Ég tel að fólkið þoli ekki öllu meiri tekjuskatta. En það er ekki gert ráð fyrir því að ríkið gangi á undan með fögru fordæmi. Nei, svo er ekki. Aðalatriðið er að auka útgjöldin og það góðæri sem hefur verið hefur farið

í að belgja út ríkið, ríkið hefur verið belgt út, það hefur ekki farið til fatlaðra, það hefur ekki farið til íþrótta og það hefur ekki farið í menningarmál yfirleitt. En það hefur farið í ráðuneytin. Hér var því lýst áðan hvernig hið háa sjútvrn. hefur fengið 17 millj. kr. á síðasta ári til að innrétta þar glæsilega. Þá vantar ekki peninga.
    Þetta frv. er ekkert annað en staðfesting á því að fjármálastjórn ríkisins er í rúst. Þeir menn sem hafa verið fjármálastjórar frá 1986 a.m.k. hafa ekki ráðið við það. Þeir hafa ekki ráðið við það. Útgjöld ríkisins hafa vaxið langt umfram verðlag, langt umfram verðlag. Þetta er ein aðalástæðan fyrir því ástandi sem núna er í þjóðfélaginu, þ.e. gjaldtaka ríkisins. Ríkið hefur tekið peningana frá fólkinu, það hefur tekið peninga frá fyrirtækjum og það er að koma í ljós núna. Áætlanir um aukna skattheimtu virka alveg öfugt vegna þess að fólkið þolir ekki meira og fyrirtækin þola ekki meira. Þetta er niðurstaðan. Ég held að ríkisstjórnin ætti að finna sér einhverjar aðrar leiðir út úr vandanum en þær að auka skattana því að með meiri sköttum mun það gerast að tekjur ríkisins, eins og við sáum í kvöld í sjónvarpinu, munu minnka vegna þess að fólkið og fyrirtækin hafa ekki þessar tekjur sem áætlað var vegna þess að ríkið er búið að taka allt frá þeim. Þetta mun verða niðurstaðan. Þær áætlanir sem voru gerðar í fyrra stóðust ekki vegna þess að skattarnir voru orðnir svo miklir. Þær áætlanir sem uppi eru núna um að auka skatta enn frekar munu fara sömu leið. Við stöndum því frammi fyrir því að tekjur ríkisins munu ekki vera nægar miðað við það sem gert er ráð fyrir í frv. Það eru rangar áætlanir og það er röng niðurstaða sem er fengin með þessu.
    Að öðru leyti ætla ég ekki að fara í gegnum einstaka liði og að sjálfsögðu ekki í gegnum þau frv. sem ekki hafa verið lögð hér fram, en við hljótum að líta á þessi fjármál, skoða þau á annan hátt en áður vegna þess að sú aðferð sem hingað til hefur verið notuð er röng. Ef þær skattaálögur sem núv. ríkisstjórn áformar að leggja á fólkið í landinu ná í gegn, þá þýðir það einfaldlega gjaldþrot þjóðarinnar, fólksins, fyrirtækjanna. Já, þetta er allt saman rangt og gengur ekki. Þetta er það sem er mesta vandamál þjóðarinnar í dag: Röng fjármálastjórn undanfarinna ríkisstjórna. Verði ekki snúið við af þeirri braut þá mun fara illa.