Fjárlög 1989
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þær umræður sem hér hafa orðið í dag um frv. til fjárlaga. Einkum fagna ég því að þeir fjárveitinganefndarmenn, sem hér hafa talað, hafa tekið undir óskir um það að samvinna fjmrn. og fjvn. geti orðið með ákjósanlegum hætti til þess að tryggja framkvæmd á margvíslegum breytingum sem við erum öll sammála um að nauðsynlegar séu.
    Ég held að það sé mjög mikilvægt að við reynum að þróa vinnubrögð við bæði endanlegan frágang fjárlagafrv. og við eftirlit með framkvæmd þess á nýju ári svo að þingið í heild sinni, og þar með þjóðin, hafi á hverjum tíma betri upplýsingar um gang mála og menn geti tekið sameiginlega á því að knýja fram breytingar sem allir telja nauðsynlegar. Eins og ætíð vill verða í umræðum af þessu tagi hafa komið fram fjölmargar athugasemdir við fjárlagafrv. sem teknar verða til nánari umfjöllunar í fjvn. og við síðari umræðu um frv. Mér finnst ekki ástæða til þess hér og nú að taka þær allar til umfjöllunar þó að ærin ástæða væri til að gera nánari grein fyrir skoðunum ríkisstjórnarinnar og þeim forsendum sem liggja að baki frv. vegna margvíslegra ummæla sem hér hafa fallið í umræðunni.
    Ég vil þess vegna endurtaka það sem ég sagði í upphafi: Í meðferð málsins hér á Alþingi er það eindreginn vilji minn að góð samvinna geti tekist við fjvn. og við alþingismenn alla um þá skoðun sem nauðsynlegt er að frv. fái og enn fremur um ákvarðanir sem tryggja að við getum á næsta ári haft betra og raunhæfara eftirlit með þróun ríkisfjármálanna frá einum mánuði til annars.
    Hv. þm. Pálmi Jónsson spurði að því hér fyrr í dag hvenær væri að vænta þess að frv. til lánsfjárlaga yrði lagt fram hér á Alþingi. Ég vænti þess að það geti orðið allra næstu daga, jafnvel á morgun, ef prentun verður lokið í tæka tíð. Hann spurði einnig hver yrðu verðlagsáhrif nýrra tekjuöflunaráforma sem fela í sér breytingu á neyslusköttum. Á þessu stigi er erfitt að svara nákvæmlega þeirri spurningu. Það fer m.a. eftir því hvaða hliðarráðstafanir eru gerðar við þær ákvarðanir. Þó er hægt að segja hér að það geti verið á bilinu 1/2--1 1 / 2 %, eftir því hvaða leiðir eru valdar og hvaða hliðarráðstafanir eru gerðar.
    Hv. þm. Pálmi Jónsson spurði einnig að því hvað tæki við eftir að verðstöðvunartímabilinu lýkur. Á þessu stigi er erfitt að fullyrða nokkuð um það. Ég held þó að þær tölur um verðlagsþróun, sem hafa verið að birtast að undanförnu og munu birtast næstu daga, muni sýna það að verulegur árangur hefur náðst í að hemja verðbólguna á þessum stutta tíma sem ríkisstjórnin hefur starfað. Og ég hef þá trú að á næstu mánuðum takist að undirbúa bæði gerð kjarasamninga og ákvarðana í efnahagsmálum sem tryggi það að eðlilegt framhald verði af þessari verðstöðvunarstefnu í reynd eftir að febrúarmánuður er liðinn þannig að ekki muni opnast neinar flóðgáttir verðhækkana né aðrar umtalsverðar breytingar verða í efnahagslífinu. Hins vegar veit enginn okkar nú hve

djúpur öldudalur samdráttarins kann að verða á næstu mánuðum og það er óhjákvæmilegt að ríkisstjórnin og Alþingi muni taka mið af þeim veruleika þegar hann birtist okkur skýrar, bæði við endanlega afgreiðslu fjárlaganna og eins í upphafi nýs árs. Þannig mun stefnan í efnahags- og atvinnumálum, sem ríkisstjórnin vinnur að, skýrast stig af stigi á næstu mánuðum í samræmi við þá þróun sem verður á þessum vettvangi.
    Hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson gerði mjög fróðlegan samanburð á því fjárlagafrv. sem hér er lagt fram og fyrsta fjárlagafrv. sem hæstv. þáv. fjmrh. og síðar forsrh., Gunnar Thoroddsen, lagði fram á fyrsta ári viðreisnarstjórnarinnar. Mér þótti að mörgu leyti vænt um það vegna góðrar samvinnu minnar við Gunnar Thoroddsen á sínum tíma að hans skyldi nú að svo góðu getið af einum virtasta og þingreyndasta þm. Sjálfstfl. Ég vænti þess að ræða hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar feli í sér, eins og oft vill verða þegar tímar líða, að menn fái að njóta sannmælis jafnvel í sínum eigin flokki og tími endurreisnar Gunnars Thoroddsens í Sjálfstfl. sé þar með hafinn. Ég tók a.m.k. eftir því, án þess að ég ætli að gera mikið úr þeim samanburði, að hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson sótti ekki fyrirmyndir um ágæt fjárlagafrv. til þeirra hv. þm. Þorsteins Pálssonar eða Matthíasar Á. Mathiesens, sem báðir hafa á síðari árum gegnt embættum fjármálaráðherra, heldur fór aftur til vetrarins 1959--1960.
    Nokkrir hv. þm. Sjálfstfl. hafa spurt að því hvort ríkisstjórnin standi öll að baki þeim tekjuöflunaráformum sem tekjuafgangur fjárlagafrv. tekur mið af. Svarið við þeirri spurningu er eindregið já, eins og fram hefur komið í ræðum hv. þm. Alexanders Stefánssonar og Sighvats Björgvinssonar. Hitt er svo einnig rétt, og gildir um þetta fjárlagafrv. og næstu mánuði, eins og nær alltaf hefur gilt þegar tekjuöflunarfrumvörp eru látin fylgja fjárlagagerð, að þau geta tekið ýmsum breytingum í eðlilegri vinnslu innan þingflokkanna og innan þingsins. Margt kemur til álita í þeim efnum. Kjarni málsins er hins vegar sá að ríkisstjórnin hefur sameiginlega einsett sér að afla þeirra tekna sem þarf til að tryggja tekjuafgangsstefnu frumvarpsins.
    Mér fannst þess vegna í sjálfu sér ekkert tilefni vera til að leggja svona
mikið út af orðum hæstv. forsrh. eða nokkurra annarra stjórnarþingmanna, eins og hér var gert, þó að það sé að vissu leyti fróðlegt að heyra það á málflutningi hv. þm. Friðriks Sophussonar að hann virðist telja að núv. hæstv. forsrh. sé einnig leiðtogi stjórnarandstöðunnar og fannst mér þar ómaklega að formanni Sjálfstfl. vegið í þeirri ræðu. Hins vegar er það misskilningur hjá hv. þm. Friðriki Sophussyni, sem var forsenda ærið margra spurninga sem hann bar fram til mín, að ég sæti enn í stjórn Landsvirkjunar og gæti þess vegna svarað hér úr ræðustól hvað sú ágæta stofnun hygðist gera á næstu mánuðum. Ég hef, eins og aðrir ráðherrar, vikið úr þessari stjórn á meðan ég gegni embætti ráðherra. Varamaður minn hefur tekið þar

sæti svo að ég hef ekki síðan ég tók sæti í þessari ríkisstjórn og mun ekki á meðan ég sit í henni eiga neina aðild að ákvarðanatöku innan stjórnar Landsvirkjunar þó að ég muni eðlilega reyna að hafa áhrif í þeim efnum eins og öðrum til að tryggja að skynsamleg niðurstaða fáist. Um þau atriði önnur sem hv. þm. spurði um er lítið að segja annað en það að afstaðan sem birtist í fjárlagafrv. er sú stefna sem ákveðin var við gerð fjárlagafrv., en hins vegar er um þessi efni eins og mörg önnur nauðsynlegt að fram fari viðræður bæði á milli þeirra ráðuneyta sem þessi mál heyra undir og eins þingsins alls til þess að tryggja sameiginlega niðurstöðu í þeim, eins og reyndar ætíð gerist þegar þessi atriði eru til umfjöllunar í þinginu.
    Varðandi ummæli hv. þm. Geirs H. Haarde um hátekjuþrep í tekjuskatti vil ég bara ítreka það sem ég hef sagt áður: Um það hefur engin ákvörðun verið tekin og ástæða þess að það hefur verið nefnt í sambandi við tekjuöflunaráform þessarar ríkisstjórnar er að ærið margir í stuðningsliði stjórnarinnar, bæði innan þings og utan og einnig ýmis samtök í landinu, hafa viljað skoða þessa leið. T.d. hefur einn af stjórnarandstöðuflokkunum lýst yfir stuðningi sínum við þessa leið. Hins vegar hafa margir bent á það að á henni væru ýmsir gallar, eins og hv. þm. Geir H. Haarde gerði hér í sinni ræðu. Ég hef þess vegna talið nauðsynlegt að framkvæma nýja athugun á kostum þeim og göllum sem þessu máli tengjast, til þess að allir þeir sem vilja skoða málin nú fái til þess tækifæri að nýju.
    Hv. þm. Hrafnkell A. Jónsson vék nokkuð að hugmyndum í efnahagsmálum sem hafa komið frá forustu samtaka launafólks. Ég vil í þessu sambandi vekja sérstaka athygli á því að sú leið, sem þessi ríkisstjórn fór í mörgum höfuðþáttum sinna fyrstu aðgerða varðandi aðgerðir í málefnum útflutningsatvinnuveganna og hvað tekjuöflun snertir í því skyni, er í höfuðatriðum svipuð og þær tillögur sem forseti Alþýðusambands Íslands setti fram í ágúst- og septembermánuði sl., eðlilega að undanskildu því sem hann sagði um launamálin. En þegar það er tekið frá og skoðuð meginleiðin sem farin er til þess að glíma við vanda útflutningsgreinanna af hálfu þessarar ríkisstjórnar, þá er hún í grófum dráttum sú hin sama og forseti Alþýðusambandsins lagði til í ræðu á formannafundi Alþýðusambandsins.
    Hitt er svo rétt að árétta einnig að úr þeim herbúðum hefur á undanförnum mánuðum komið eindregin andstaða við gengisfellingu. Mér fannst þess vegna fróðlegt að heyra það hér að hv. þm. Hrafnkell A. Jónsson skyldi í reynd vera að tala fyrir gengisfellingu, en ég skildi mál hans á þann veg. Ég er sannfærður um það að gengisfelling væri alls ekki aðgerð í þágu launafólks við þær aðstæður sem nú eru í okkar þjóðfélagi.
    Virðulegi forseti. Ég vænti þess að ég hafi þar með svarað flestum þeim beinum spurningum sem til mín var beint í þessari umræðu. Margt hefur gott verið sagt af hálfu allra sem hér hafa talað. Mér fannst sú

ræða sem hv. þm. Albert Guðmundsson flutti á margan hátt vera mjög athyglisverð og sönn. Hún endurspeglar einlægan vilja vonandi allra alþingismanna til þess að takast á við þau miklu vandamál sem við er að glíma í okkar þjóðfélagi. Mér fannst ég heyra á hans máli að í hans huga væri djúpur skilningur á því að fólkið í landinu gerði þær kröfur til bæði þings og ríkisstjórnar að allra leiða væri leitað til þess að snúa óheillaþróun undanfarandi ára við. Það finnst mér vera kjarninn í því verkefni sem við okkur blasir. Fjárlagafrv. er bara einn þáttur þess mikla verks. Það er eins og ég sagði í minni framsöguræðu aðeins upphafið á langri ferð. Það sem er eftir er að ganga frá frv. sjálfu í endanlegri gerð og vinna að öðrum aðgerðum í efnahagsmálum sem óhjákvæmilega verður að framkvæma á næstu mánuðum. Mér finnst andinn í þeirri umræðu sem hér hefur verið í dag sýna það að fulltrúar allra flokka eru reiðubúnir til að taka þátt í þeirri vinnu með opnum huga og ég fagna því. Það finnst mér vera jákvæð viðbrögð við þeim hugleiðingum sem ég setti fram í minni framsöguræðu og sýna það að allir flokkar og allir þingmenn bera á vissan hátt ábyrgð á þeirri þróun sem orðið hefur í okkar þjóðfélagi og ber þannig skylda til að takast á við það verkefni að reyna að greiða úr þessum vandamálum.