Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Á tæpu einu ári hefur það verið að gerast á hernumdum svæðum í Palestínu, svæðum sem haldið er hernumdum af Ísraelsher, að drepnir hafa verið óbreyttir borgarar, hátt í 400 manns, þar af 28 börn innan við 6 ára aldur, 13 börn á aldrinum 7--12 ára, 66 unglingar á aldrinum 13--17 ára, 132 unglingar eða ungt fólk á aldrinum 18--24 ára og 136 fullorðnir, 25 ára og eldri. Þetta var staða mála samkvæmt yfirliti Palestínumanna þann 27. sept. sl. og síðan hafa bæst í þennan hóp margir. Síðustu fregnir sem komu í gær greindu okkur frá að óbreyttir borgarar hefðu verið felldir, hús óbreyttra borgara brennd til ösku. Einnig var greint frá því að framkvæmdastjóri Flóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna í Palestínu hefði borið fram sérstakar umkvartanir í stjórnmálanefnd Sameinuðu þjóðanna í New York vegna þeirrar meðferðar sem starfsmenn Flóttamannaaðstoðarinnar hafa fengið þar sem þeir hafa verið handteknir og haldið í fangelsi án þess að réttarhöld hafi verið haldin yfir þeim og þannig komið í veg fyrir eðlilega gæslu þessarar stofnunar Sameinuðu þjóðanna.
    Þetta eru aðeins örfá atriði til að minna á það sem hefur verið að gerast í Austurlöndum fyrir botni Miðjarðarhafs á tæpu ári frá því að uppreisn Palestínumanna hófst á hinum herteknu svæðum sem Ísraelsher hefur haldið síðan í styrjöldinni 1967 og þar sem ísraelskir landnemar hafa verið að setjast að í æ auknum mæli síðan.
    Það hefur einnig verið að gerast á alþjóðavettvangi þrátt fyrir einstök atriði jákvæð í sambandi við viðræður um afvopnunarmál, eins og samninginn um eyðingu og fækkun skammdrægra og meðaldrægra eldflauga, að vopnakapphlaupið heldur áfram, að kjarnorkuvígbúnaðurinn er á fullri ferð hjá báðum risaveldunum, bætt er við nýjum vígtólum í kjarnorkuvopnabúrið og verið er að þróa vopnabúnað til þess að koma fyrir í himingeimnum. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hafa legið fyrir tillögur nú árum saman sem taka á þessum málum og þar sem gerð er krafa um stöðvun kjarnorkuvígbúnaðarins, svokölluð frysting kjarnorkuvopnanna, til þess að stemma stigu við þessari þróun.
    Hver er afstaða Íslands til þessara mála? Hver er afstaðan til þess sem hefur verið að gerast fyrir botni Miðjarðarhafs eins og hún birtist okkur í atkvæði Íslands á alþjóðavettvangi, á vettvangi þjóðanna? Hver er afstaðan til stöðvunar kjarnorkuvígbúnaðarins? Á síðasta ári fögnuðum við því að þáv. utanrrh., nú hæstv. forsrh. Steingrímur Hermannsson, breytti svo sem löngu var tímabært afstöðu Íslands á vettvangi Sameinuðu þjóðanna til stöðvunar kjarnorkuvígbúnaðarins. Með því slóst hann í hóp yfirgnæfandi meiri hluta þjóða heimsins og annarra Norðurlanda allra, sem greiddu tillögum um stöðvun kjarnorkuvígbúnaðarins og kjarnorkuvopnakapphlaupsins atkvæði sitt, og við fögnuðum því hér á Alþingi Íslendinga þessari stefnubreytingu, sem við viljum undirstrika, að Ísland

leggi lóð sitt réttum megin á vogarskálir þegar afvopnun er annars vegar.
    En hvað hefur verið að gerast síðustu daga undir merkjum nýrrar ríkisstjórnar á Íslandi? Hvaða ákvarðanir hefur formaður Alþfl., hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson, verið að taka án þess að ráðfæra sig við utanrmn. Alþingis, án þess að ráðfæra sig við ríkisstjórn Íslands? Varðandi Palestínumálið gerðist sá atburður 3. nóv. að ég hygg eða í byrjun vikunnar að hæstv. utanrrh. ákvað að Ísland sæti hjá við ályktunartillögu þar sem framferði Ísraelshers er fordæmt á hernumdu svæðunum og yfirtroðsla af þeirra hálfu í sérstakri ályktun. Þessi ályktun hlaut aðeins tvö mótatkvæði á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, frá Ísrael og Bandaríkjum Norður-Ameríku. 16 þjóðir sátu hjá, Ísland í þeim hópi. Af vesturveldunum eða vestrænum ríkjum sem svo eru kölluð voru í þessum hópi Stóra-Bretland og Kanada auk Íslands og síðan nokkur ríki sem búa við sérstök samskipti við Bandaríki Norður-Ameríku, efnahagslega og hernaðarlega, m.a. í Mið-Ameríku og Suður-Ameríku. En utanrrh. Íslands kaus ekki að skipa sér í hóp þeirra ríkja, um 130 talsins, sem greiddu tillögunni atkvæði, þar á meðal öll Norðurlönd nema Ísland.
    Síðan gerist það á fundi utanrmn. í gær, þriðja fundi nýrrar utanrmn., að hæstv. utanrrh. upplýsir nefndina um það um leið og hann reyndi að réttlæta afstöðu sína varðandi Palestínumálið að hann hafi ákveðið að breyta þeirri afstöðu sem fyrir lá af Íslands hálfu á allsherjarþinginu í fyrra til tillagnanna um stöðvun kjarnorkuvopnakapphlaupsins og skipa Íslandi í þá fámennu sveit sem heldur að sér höndum í því máli og situr hjá á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Þetta gerist þrátt fyrir það að ég hef frá því að utanrmn. var kölluð saman nú fyrir nokkrum vikum og aftur á öðrum fundi nefndarinnar óskað eftir því sérstaklega að hæstv. ráðherra kynnti viðhorf sín til líklegra átaka- og álitamála á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og við ræddum í utanrmn. sérstaklega um Palestínumálið. Hæstv. utanrrh. bregst við þessum tilmælum samstarfsaðila í ríkisstjórn með því að ráðstafa einhliða og án samráðs atkvæði Íslands á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í þessum stórmálum. Þetta tel ég vera mjög sérkennilega framkomu svo að ekki sé fastar að orði kveðið. Hér er um að ræða storkun gagnvart samstarfsaðilum Alþfl. í ríkisstjórn og hér er
um að ræða fullkomlega óeðlileg vinnubrögð gagnvart utanrmn. þingsins.
    Ég átti ekki von á slíkum vinnubrögðum af hæstv. núv. utanrrh. Ég var algerlega grunlaus að hæstv. ráðherra ætlaði að taka afstöðu í þá veru sem nú liggur fyrir og hann hefur kynnt. Að vísu hygg ég að ráðherrann hafi enn möguleika á því að breyta af þeirri afstöðu sem hann kynnti í gær í utanrmn. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna þar eð atkvæðagreiðslu var frestað í tveimur ályktunum varðandi frystingu kjarnorkuvopna og sú atkvæðagreiðsla hefur tæpast farið fram enn þar sem nú er morgunn vestur í New

York. Ég skora á hæstv. ráðherra að hringja til sendinefndar Íslands í New York og breyta afstöðu Íslands varðandi þessi mál, hreinsa þann blett sem á nafn Íslands mun falla ef hæstv. ráðherra heldur við þessa fráleitu afstöðu sína.
    Hvað er það sem hæstv. ráðherra vill ekki taka undir á vettvangi Sameinuðu þjóðanna? Ég tel rétt að að komi fram í þýðingu utanrrn. hvaða ályktun það var sem hæstv. ráðherra gat ekki greitt atkvæði varðandi Palestínumálið. Ég leyfi mér, virðulegur forseti, að lesa þá ályktun hér, hún er ekki löng, eins og hún liggur fyrir í þýðingu frá utanrrn.:
    ,,Allsherjarþingið, meðvitandi um uppreisn Palestínumanna síðan 9. des. 1987 gegn hernámi Ísraels, sem hlotið hefur talsverða athygli og fengið hluttekningu almenningsálitsins í heiminum, áhyggjufullt yfir hinu alvarlega ástandi sem skapast hefur á palestínsku landssvæðunum sem hernumin hafa verið síðan 1967, þar með talin Jerúsalem, og öðrum hernumdum palestínskum landsvæðum vegna viðvarandi hernáms Ísraels, hernámsveldisins, og vegna áframhaldandi stefnu og aðgerða gagnvart Palestínumönnum, ítrekar að fjórði Genfarsamningurinn frá 12. ágúst 1949, um verndun óbreyttra borgara á stríðstímum, tekur til allra palestínskra og annarra arabískra landsvæða sem Ísrael hefur hernumið síðan 1967, þar á meðal Jerúsalem, minnist viðeigandi samþykkta sinna og samþykkta öryggisráðsins nr. 605/1987 frá 22. des. 1987, nr. 607/1988 frá 5. jan. 1988 og nr. 608/1988 frá 14. jan. 1988, viðurkennir þörfina á auknum stuðningi og aðstoð við og samstöðu með Palestínumönnum sem búa við hernám Ísraels, meðvitað um bráða nauðsyn þess að komast fyrir rót vandans með víðtæku, réttlátu og varanlegu samkomulagi, þar með talin lausn á öllum þáttum palestínska vandamálsins:
    1. Fordæmir viðvarandi stefnu og aðgerðir Ísraels sem brjóta gegn mannréttindum Palestínumanna á hernumdum palestínskum landsvæðum, þar með talið Jerúsalem, og þá sérstaklega aðgerðir eins og skothríð ísraelska hersins og ísraelskra landnema sem leitt hafa til mann- og líkamstjóns varnarlausra palestínskra borgara, barsmíða og beinbrota, nauðungarflutninga palestínskra borgara úr landi, takmörkunar á efnahagslegri starfsemi, eyðileggingu húsa, fjöldarefsinga og varðhalda ásamt því að banna aðgang fjölmiðla.
    2. Átelur harðlega stöðugt virðingarleysi ísraelska hernámsríkisins fyrir viðkomandi ákvörðunum öryggisráðsins.
    3. Ítrekar að hernám Ísraels á palestínskum landsvæðum síðan 1967, þar á meðal Jerúsalem, breytir í engu lagalegri stöðu þessara landsvæða.
    4. Krefst þess að Ísrael, hernámsveldið, virði þegar í stað og undanbragðalaust 4. Genfarsamninginn frá 12. ágúst 1949, um verndun óbreyttra borgara á stríðstímum, og láti þegar í stað af stefnu sinni og aðgerðum sem brjóta gegn ákvæðum samningsins.
    5. Skorar á öll aðildarríki samningsins að grípa til viðeigandi aðgerða í samræmi við skyldur þeirra skv.

1. gr. samningsins til að tryggja að Ísrael, hernámsveldið, virði samninginn undir öllum kringumstæðum.
    6. Hvetur aðildarríki Sameinuðu þjóðanna, stofnanir þeirra, opinberar stofnanir, fjölþjóðastofnanir, frjáls samtök og fjölmiðla að halda áfram og auka stuðning sinn við Palestínumenn.
    7. Skorar á öryggisráðið að taka til umfjöllunar ástandið á hernumdu palestínsku svæðunum þar sem tekið verði mið af tillögum í skýrslu S-19443 aðalritara Sameinuðu þjóðanna.
    8. Fer einnig fram á að aðalritarinn kanni ástandið á hinum hernumdu palestínsku landsvæðum eftir öllum þeim leiðum sem honum eru færar og leggi fram reglubundnar skýrslur þar af leiðandi, þá fyrstu eigi síðar en 17. nóv. 1988.`` Ártalið 1988 og 17. nóv. sem er skammt undan.
    Þetta er í heild sú ályktunartillaga þar sem Ísland sat hjá. Við höfum heyrt það frá hæstv. utanrrh. að hann hafi ekki treyst sér til þess að styðja þessa ályktun vegna meintra fúkyrða sem þar væri að finna. Ég bið hæstv. utanrrh. að tilgreina það hér á hv. Alþingi hvaða þættir það eru í þessari ályktun sem valda afstöðu hans.
    Ég ætla ekki, virðulegur forseti, að fara hér yfir þær ályktanir sem eru til afgreiðslu í dag á vettvangi Sameinuðu þjóðanna varðandi stöðvun kjarnorkuvígbúnaðarins. Þær eru efnislega svipaðar þeim ályktunum sem legið hafa fyrir allsherjarþinginu og sem ég birti sem fylgiskjal við þáltill. sem lögð var fram í desember 1986, 151. mál á þskj. 161, um afstöðu Íslands til stöðvunar kjarnorkuvígbúnaðar. Þar, í þeirri ályktun sem nú liggur fyrir Sameinuðu þjóðunum, er tekið tillit til þess sem hefur verið að gerast á
alþjóðavettvangi að undanförnu, þar á meðal þeirra jákvæðu skrefa sem stigin hafa verið af risaveldunum. En þessar ályktanir, sem þarna eru, eru tímabærar og í fullu gildi vegna þess að vígbúnaðarkapphlaupið er áfram á flugferð og stöðvun kjarnorkuvígbúnaðarins væri stórt og jákvætt skref eins og þessar ályktanir fela í sér.
    Þess vegna er það fráleit afstaða af hálfu hæstv. utanrrh. að vísa þessum tillögum frá, skipa sér á bekk þeirra sem ekki taka afstöðu með þessum ályktunum, og það með þeim rökum að þetta séu úreltar tillögur og jafnvel til skaða. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. ráðherra reyni hér á eftir að rösktyðja afstöðu sína eins og hún hefur legið fyrir, en jafnframt minni ég á það að hæstv. ráðherra hefur enn ráðrúm til þess að breyta þessari afstöðu sem hann kynnti í utanrmn. þingsins í gær.
    Virðulegur forseti. Um þetta mál má margt segja. Við hljótum að spyrja: Hvers konar Alþfl. er það sem stendur fyrir slíkri stefnumótun af hálfu Íslands á alþjóðavettvangi? Hvaða samræmi er í þessari afstöðu, sem hér liggur fyrir af hálfu hæstv. utanrrh., og þeim samþykktum sem Alþjóðasamband jafnaðarmanna hefur gert og tekið síðast í Madrid á fundi Alþjóðasambands jafnaðarmanna sl. vor? Ég held að

það sé mjög lítið, enda eru það engin ný tíðindi að þessi flokkur, sem hæstv. utanrrh. mælir fyrir, er hreint viðundur í viðhorfi til alþjóðamála miðað við þá afstöðu sem jafnaðarmenn víða um heim hafa tekið og mótað á sínum vegum í sambandi við vígbúnað og í sambandi við vandamálin fyrir botni Miðjarðarhafs, sérstaklega varðandi Palestínumálið.
    Ég vara hæstv. ráðherra við að feta þá braut sem hann hefur lagt hér út á. Ég fullyrði að fyrir því er enginn meirihlutastuðningur í ríkisstjórn Íslands. Ég fullyrði að hæstv. ráðherra mælir þar ekki fyrir munn Alþb., það liggur fyrir. Ég hef lesið ummæli hæstv. forsrh. til þessa máls eins og þau birtust í fyrradag eða í gær í dagblaðinu Tíminn þar sem hann m.a. segir að hann geti ekki séð að annað sé hægt, efnislega, en fordæma framferði Ísraelsmanna á herteknu svæðunum og fleira sem fram kemur í þessu viðtali.
    Ég tel að sú stefna sem hæstv. ráðherra fylgir í þessum málum sé andstæð því sem rætt var á milli stjórnarflokkanna, þeirra flokka sem tekið hafa saman um myndun ríkisstjórnar sem settist hér á stóla 28. sept. sl. Ég bendi á að það er ekki aðeins í þessum málum á alþjóðavettvangi sem hæstv. ráðherra er að troða samstarfsmönnum sínum um tær. Hann sá ástæðu til þess að bæta við frammi fyrir alþjóð í ríkissjónvarpinu í gærkvöld og kynna þar þá stefnu sína að koma upp nýjum herflugvelli á Íslandi, nýjum herflugvelli á vegum NATO þrátt fyrir ákvæði stjórnarsáttmálans um að engar ákvarðanir skuli teknar um nýjar meiri háttar hernaðarframkvæmdir á Íslandi af núv. ríkisstjórn. ( EgJ: Hvar á hann að vera?) Virðulegur 5. þm. Austurl. spyr hvar hann eigi að vera. ( EgJ: 4.) Hv. 4. þm. Austurl. Hann hefur hækkað aðeins í tign alveg nýlega. Hann spyr um hvar völlurinn eigi að vera. Það á enginn hernaðarvöllur að bætast við á Íslandi. Við þurfum að strika yfir þá sem fyrir eru, hv. þm. Þó ég viti að hv. þm. hafi áhuga á því að fjölga þeim eins og hefur komið fram m.a. í nýlegri þáltill. sem hann stendur að hér í þinginu.
    Ég tel að Alþfl. hafi barið upp á rangar dyr þegar hann leitaði eftir samstarfi við Alþb. um ríkisstjórn landsins hafi það verið ásetningur flokksins að fylgja fram þeirri stefnu í utanríkismálum sen núv. formaður flokksins, hæstv. utanrrh., stendur hér fyrir. Ég tel að hann hafi þar farið húsavillt og ég harma að hæstv. ráðherra skuli sjá ástæðu til að byrja feril sinn með þeim hætti sem hann hefur gert, bæði gagnvart samstarfsaðilum sínum heima fyrir en alveg sérstaklega á alþjóðavettvangi þar sem blettur, og það fleiri en einn, hafa fallið á nafn Íslands sem tekur sér sérstöðu á vettvangi þjóðanna í mjög vafasömum félagsskap svo ekki sé meira sagt.
    Virðulegur forseti. Þingsköp okkar leyfa það ekki, sem þó er að finna í þingsköpum ýmissa grannþjóða, að mál séu tekin upp til ákvörðunar með dagskrártillögum á þinginu. Það er heimilt á danska þinginu t.d. þar sem slíkar tillögur hafa verið samþykktar oftsinnis, m.a. varðandi utanríkismál,

brugðist skjótt við og leitað afstöðu þingsins til slíkra mála. Því miður leyfa þingsköp okkar Alþingis ekki slíka skjóta afgreiðslu. Ég hefði talið það eðlilegt að nú á þessum mínútum, þessari klukkustund hefðum við hér á Alþingi getað skorið úr um hver væri vilji þingsins í þessum málum þannig að hægt væri að koma í veg fyrir þann ásetning ráðherrans að sitja hjá við nefndar tillögur í dag á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. En þennan möguleika höfum við því miður ekki.
    Ég kynnti á vettvangi utanrmn. í gær drög að ályktunartillögu varðandi deilur Ísraels og Palestínumanna. Þessi drög voru tekin saman um síðustu helgi áður en ég frétti af því að tillagan væri að ganga til atkvæða varðandi Palestínumálið þar vestra. Málið var rætt í utanrmn. þingsins í gær. Ég leitaði eftir samstöðu nefndarinnar um að flytja þetta mál. Niðurstaðan varð sú að þetta mál hefur verið lagt hér fram á þinginu, það hefur verið skráð sem þingskjal og ég hef beðið um að því verði dreift á borð hv. þm., þar sem er till. til þál. um deilur Ísraels og Palestínumanna. Flm. þessarar till. eru
auk mín hv. 12. þm. Reykv. Kristín Einarsdóttir, sem er fulltrúi Kvennalistans í utanrmn., og hv. 1. þm. Norðurl. v. Páll Pétursson, formaður þingflokks Framsfl. Þetta mál mun koma hér fram fullbúið með fylgiskjölum á næsta fundi þingsins, en fylgiskjöl eru í þýðingu og það er ástæðan fyrir því að málið liggur ekki fyrir fullbúið hér í dag. Ég taldi hins vegar eðlilegt að það kæmi hér fyrir hv. Alþingi þegar við ræðum þessi afdrifaríku mál.
    Ég vil að lokum, virðulegur forseti, lýsa yfir megnri óánægju minni með framgöngu hæstv. utanrrh. í nefndum málum, miklum vonbrigðum með hvernig hann hagar atkvæði fyrir Íslands hönd á alþjóðavettvangi í viðkvæmum stórmálum án þess að leita samráðs, hvernig hann brýtur á samstarfsaðilum sínum í ríkisstjórn, hvernig hann gengur gegn anda stjórnarsamnings nýrrar ríkisstjórnar, hvernig hann, með þeim ákvörðunum sem hann er að taka, er að veikja það samstarf sem þrír flokkar bundust um myndun ríkisstjórnar landsins fyrir röskum mánuði eða u.þ.b. einum og hálfum mánuði.
    Ég geri kröfu til þess að hæstv. ráðherra skoði sinn gang og ég þakka virðulegum forseta fyrir að leyfa þessa umræðu hér utan dagskrár nú á þessum degi þegar atkvæði eru að falla á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og þegar það liggur fyrir að sífellt er að versna ástandið í Palestínu á herteknum svæðum sem Ísraelsmenn lögðu undir sig og á hugsanlegum tímamótum þar sem boðuð hefur verið stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna nú um komandi helgi. Allt er þetta tilefni til að ræða þessi mál hér í þinginu og ég vænti þess að hæstv. ráðherra mæli hér eitthvað sem boðar stefnubreytingu frá þeim ákvörðunum sem hann hefur tekið.