Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegi forseti. Fyrir nokkrum dögum fengum við að heyra að utanrrh. hefði án alls samráðs við aðra ákveðið að Ísland sæti hjá á þingi Sameinuðu þjóðanna í síðustu viku við atkvæðagreiðslu um ályktun þar sem Ísrael er fordæmt fyrir þá stefnu og aðgerðir sem brjóta gegn mannréttindum Palestínumanna á hernumdu svæðunum og hann hefur gert grein fyrir hér og mikið hefur verið talað um. Það er furðulegt að ráðherrann telji sig geta setið hjá fyrir Íslands hönd og ég sannfærðist síður en svo af ræðu hans áðan að það hafi verið rétt ákvörðun af hálfu ráðherrans og þar með Íslands, því hann er að taka ákvörðun fyrir okkur öll.
    Mér finnst líka einkennilegt að ráðherrann skuli grípa til þess að tala um fortíðina og tala um ofbeldi og morð á gyðingum í Evrópu um miðja öldina og réttlæta það sem þeir eru að gera núna. Ég tók það þannig að hann væri nánast að réttlæta gerðir Ísraelsmanna í Palestínu núna með því að tala um að þeir hefðu verið beittir kúgun og ofsóttir áður fyrr. Þetta þykir mér mjög hæpið að draga fram og telja að það sé einhver réttlæting.
    Það er alveg rétt að Ísraelsríki var stofnað árið 1947 og að það var gert að frumkvæði vestrænna ríkja og Íslendingar áttu þar hlut að máli. Einmitt í ljósi þess verðum við að skoða þetta mál. Það er dapurlegt að vita til þess að þeir sem hafa verið ofsóttir og kúgaðir í aldaraðir, ekki bara á þessari öld heldur í aldaraðir, eins og gyðingar hafa verið, skuli nú kúga og ofsækja Palestínumenn.
    Þótt Íslendingar hafi átt hlut að máli þegar Ísraelsríki var sett á fót held ég að það sé leitun að þeim Íslendingi sem ekki hefur megnustu andúð á framferði Ísraelsmanna gagnvart Palestínumönnum og nú sérstaklega upp á síðkastið. Ráðherrann má heldur ekki gleyma því að Ísrael er sjálfstætt ríki með viðurkenningu hjá Sameinuðu þjóðunum og við höfum stjórnmálasamband við Ísrael, en að Palestínumenn eru kúgaðir á þessum stað og þeir hafa enga stöðu sem sjálfstætt ríki. Þegar verið er að tala um tvo deiluaðila hafa þessir tveir deiluaðilar mjög ólíka stöðu, ekki síst gagnvart okkur. Mér finnst ekki sanngjarnt að tala á þeim nótunum. Þegar verið er að ræða um að fordæma Ísraelsmenn, sem mér finnst fyllsta ástæða til þess að gera, er ekki þar með sagt að maður sé að réttlæta það sem hinir hafa gert. Og þó að mannréttindi séu fordæmd á einum stað er ekki þar með sagt að verið sé að réttlæta mannréttindabrot alls staðar annars staðar í heiminum. Þannig má ekki rugla því saman að þó við fordæmum það framferði sem Ísraelsmenn hafa orðið uppvísir að núna upp á síðkastið erum við ekki að réttlæta önnur mannréttindabrot. Ég er alveg sannfærð um að meiri hluti Íslendinga er á annarri skoðun en ráðherrann í þessu máli.
    En eins og fram hefur komið er það ekki eingöngu þessi ályktun, sem ráðherrann hefur tekið ákvörðun um að greiða atkvæði um, sem er í öllu ósamræmi við þann vilja sem komið hefur fram bæði á Alþingi

og ekki síður annars staðar í þjóðfélaginu. Þar á ég við ályktanir um afvopnunarmál sem ráðherrann hefur ákveðið að Ísland muni ekki styðja. Það hefur nú þegar verið gerð grein fyrir þeim ályktunum að einhverju leyti í þessari umræðu, en þær fjalla um svokallaða frystingu kjarnorkuvopna. Sú ályktun sem mesta athygli hefur vakið er tillaga flutt af Mexíkó, Svíþjóð og fleiri ríkjum. Þessi ályktun hefur verið flutt mörgum sinnum lítið breytt á þingum Sameinuðu þjóðanna og hefur Ísland setið hjá við atkvæðagreiðsluna þangað til í fyrra þegar þáv. utanrrh. og núv. hæstv. forsrh. ákvað að Ísland greiddi tillögunni atkvæði.
    Fimm sinnum hafa þingkonur Kvennalistans lagt fram tillögu á Alþingi um að Alþingi lýsi því yfir að það sé fylgjandi því að þessari tillögu sé greitt atkvæði og í umræðunni um þessa tillögu í fyrra kom fram að nánast þótti óþarfi að fjalla um þessa tillögu hvað þá heldur að samþykkja hana þar sem utanrrh. hafði þá þegar ákveðið að greiða þessari till. atkvæði. Hún var þar af leiðandi ekki borin fyrir þingið.
    Mig langar til að lesa, með leyfi forseta, aðeins upp úr þessari tillögu sem Mexíkó, Svíþjóð og fleiri hafa flutt, bara tvo liði í henni. Tölul. 1: ,,hvetur enn einu sinni Sovétríkin og Bandaríkin sem tvö fremstu kjarnorkuveldin til að lýsa yfir, annaðhvort með einhliða yfirlýsingu samtímis eða með sameiginlegri yfirlýsingu, tafarlausri frystingu kjarnavopna sem að formi og umfangi yrði sem hér greinir:
    a. Hún mundi fela í sér allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn og skotbúnað þeirra, algera stöðvun framleiðslu kjarnavopna og skotbúnaðar þeirra, bann við allri frekari uppsetningu kjarnavopna og skotbúnaðar þeirra, algera stöðvun framleiðslu kjarnakleyfra efna í hernaðarlegum tilgangi.``
    Svo er einnig tekið fram hér: ,,Hún yrði háð viðeigandi eftirlitsráðstöfunum og reglum um eftirlit.``
    Þarna er gert ráð fyrir eftirliti og allsherjarstöðvun. Það er mjög einkennilegt að halda því fram að með því að frysta kjarnorkuvopn getum við
ekki fækkað þeim. Þetta er mjög einkennilegt vegna þess að ef kjarnorkuveldin tækju mark á þessari ályktun og hættu tilraunum með, framleiðslu og dreifingu kjarnorkuvopna væri tekið stórt skref í átt til afvopnunar. Ef fólk vill ekki viðurkenna það hlýtur það að stafa af blindu á staðreyndum. Ég er alveg viss um að meiri hluti þjóðarinnar er fylgjandi því að við styðjum þessa tillögu því að það hefur komið ótvírætt í ljós í skoðanakönnunum að Íslendingar eru á móti kjarnorkuvopnum og vilja t.d. að Norðurlönd verði lýst kjarnorkuvopnalaust svæði. Þess vegna er ákvörðun utanrrh. nú alveg furðuleg og óskiljanleg.
    Með afstöðu sinni til þessara tillagna hefur ráðherrann markað sér sérstöðu og er sú sérstaða fólgin í því að taka stórt skref aftur á bak varðandi afstöðu til afvopnunarmála.
    Í viðtölum við utanrrh. í fjölmiðlum hefur hann gjarnan talað um tímaleysi varðandi ákvarðanatöku um afstöðu til þessara tillagna og hann hélt því fram áðan að hann hefði aðeins haft hálfa klukkustund til að taka

afstöðu til 20 tillagna í afvopnunarmálum. Þetta er hreinn fyrirsláttur. Ráðherrann veit alveg jafn vel og ég að það líður langur tími frá því að tillögurnar eru lagðar fram í nefnd og þangað til þær koma til atkvæðagreiðslu. Það var því hægur vandi fyrir ráðherra að kynna sér málin. Mér er einnig kunnugt um að á mánudagsmorguninn fengu fulltrúar á þingi Sameinuðu þjóðanna, sem eru þar á vegum Alþingis og hv. þm. Páll Pétursson minntist á áðan, tillögurnar um afvopnun, allar tillögurnar, þessar 20 og sjálfsagt fleiri, sem átti að greiða um atkvæði í gær og í dag. Þær lágu í endanlegri mynd fyrir á mánudaginn var og í uppkasti mikið fyrr. Mér þykir því furðu sæta að ráðherrann beri fyrir sig tímaskort í þessu máli.
    Eins og fram hefur komið fer atkvæðagreiðslan um frystingartillögurnar fram í dag og það er í fyrstu nefnd. Það er í nefnd en ekki í allsherjarþinginu sjálfu. Þótt venjan sé að greiða atkvæði í allsherjarþinginu á sama hátt og í nefndum finnst mér sjálfsagt að breyta út af því í þetta sinn ef búið er að greiða atkvæði í nefndinni sem er ekki alveg öruggt að sé búið. Tímaleysistal hæstv. ráðherra er e.t.v. komið til af því að hann er ekki sáttur við þá ákvörðun sem hann tók. Varðandi þessar tillögur er enn þá tími til að breyta afstöðu Íslands, e.t.v. í fyrstu nefnd en alla vega er hægt að taka breytta afstöðu þegar tillagan kemur fyrir allsherjarþingið. Ég skora á ráðherrann að gera það nú þegar því að enn er tími. Hæstv. ráðherra verður að gera sér grein fyrir því að þótt hann hafi vald til að taka afstöðu eins og honum sjálfum þóknast hlýtur það að vera skylda hans að taka tillit til skoðana annarra.
    Áætlanir um nýjan herflugvöll, sem ráðherrann virðist einnig vera búinn að taka ákvörðun um, sem þó er ekki herflugvöllur eins og hann sagði í gær í fréttunum, eru enn eitt dæmið um hvernig hann misnotar vald sitt í ósamræmi við meiri hluta á Alþingi og ég tala nú ekki um í ríkisstjórn eins og hér hefur komið fram.