Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Ég hygg að sú umræða sem hér fer fram sýni það og sanni að Íslendingar hafa verulega ólíkar skoðanir á ýmsum málum í hinum stóra heimi og satt best að segja held ég að það væri hættulegt fyrir þessa þjóð ef svo væri ekki því að þá væri hér annað land með öðrum formerkjum.
    Ég vil undirstrika það að hæstv. utanrrh. hefur forræði yfir þessum málaflokki. Ríkisstjórn er ekki fjölskipað stjórnvald eins og Ólafur heitinn Jóhannesson margsagði okkur framsóknarmönnum og ég hygg að þeir sem rísa hér upp og lýsa yfir sérstökum áhyggjum af hvert þessi þjóð stefni í utanríkismálum hljóti þá fyrst og fremst að vera að deila á hæstv. utanrrh. eða bera til hans vantraust, hvort sem þeir eru úr hópi Sjálfstfl., Alþb. eða annars staðar. Þetta segi ég vegna þess að ég finn að inn í þessa umræðu hafa menn reynt að koma því á framfæri að af því að þeir flokkar sem nú stjórna landinu eru ekki sammála um allt í utanríkismálum sé þar með vonlaust að þeir geti unnið að stjórn landsins. Ég mótmæli þeirri mistúlkun á þeirri umræðu sem hér fer fram.
    Ég minnist þess að þegar ég sat á þingi Sameinuðu þjóðanna var þar til umræðu frystingartillaga Mexíkó og Svíþjóðar og það skal játað að ég gat ágætlega unað við afstöðu utanrrh. þess tíma sem boðaði að Íslendingar skyldu sitja hjá. Mér hefur foft fundist gæta hjá Svíum viss tvískinnungs í utanríkismálum. Mér hefur fundist að óbeit þeirra á kjarnorkuvopnum hafi þá fyrst komið til sögunnar þegar þeir komust að því sjálfir að þeir gætu ekki framleitt þau, en fram að þeim degi og þó nokkuð mörgum árum seinna, eftir að þeir sögðust nú vera hættir, var áhuginn til staðar að búa til kjarnorkuvopn. Mér hefur líka fundist stundum að þeirra vopnaskak, þ.e. þeirra stöðugu vopnasölur til annarra landa, samrýmist ekki þeirri mynd sem þeir vilja að menn hafi af þeirra ásýnd, sem þeir vilja að menn sjái á vettvangi Sameinuðu þjóðanna sem hina friðelskandi þjóð.
    Ég verð aftur á móti að segja það að eftir að sá árangur náðist að menn eru vongóðir um að stórveldunum takist að slíðra vopnin og fækka þeim efast ég enn meira um að það sé nein sérstök þjóðarnauðsyn að ráðast á hæstv. núv. utanrrh. fyrir þá afstöðu sína að hafa setið hjá í þessu máli.
    Varðandi Ísraelsríki og sögu þess alla er hægt að segja margt og það kom hér fram hjá hv. 17. þm. Reykv., sem var satt og rétt, að hjá Alþjóðaþingmannasambandinu í Búlgaríu greiddum við atkvæði á þann veg að hann sagði nei en ég sat hjá við tillögu sem þar var til umfjöllunar og gekk ekki aðeins út á uppreisnina á hernumdu svæðunum heldur miklu, miklu lengra og hún er á allan hátt miklu róttækari en sú tillaga sem var til umræðu á þingi Sameinuðu þjóðanna. Ég verð að segja það fyrir mig að þar hefði ég fært mig til þess að segja já og ég hygg að það sé mikil spurning hvort hv. þm. Geir H. Haarde hefði ekki setið hjá við þá tillögu á þingi Sameinuðu þjóðanna. ( GHH: Eins og utanrrh.) Eins

og utanrrh. Þetta segir okkur kannski að hér er ekki um sambærilegar tillögur að ræða.
    Þá er rétt að við víkjum örlítið að sögulegum staðreyndum og einnig hinu hvert mál hafa þróast. Það fyrsta sem hér hefur verið sett fram og margrætt, að örlög gyðinganna í seinni heimsstyrjöld hljóti að vera harmsefni, mikið harmsefni vestrænum þjóðum. Spurningin er aðeins þessi og hún er einföld: Er hugsanlegt að fyrir öll þau morð sem þá áttu sér stað hafi þeir eignast rétt til mannslífa í staðinn? Er hugsanlegt að Íslendingar eigi rétt til mannslífa vegna þess að Tyrkir drápu menn hér á landi á sínum tíma? Eiga Spánverjar e.t.v. rétt til mannvíga vegna þess að forfeður okkar Jóns Baldvins tóku trúlega þátt í því að drepa þá á Ísafjarðardjúpi og e.t.v. forfeður Þorvaldar Garðars Kristjánssonar líka? Þetta er spurningin sem brennur. Og ef Vesturlönd hafa haft jafnmikið samviskubit og hér hefur komið fram, eru það þá sanngjarnar vígsbætur fyrir glæpi sem Vesturlönd frömdu að það séu arabarnir sem skaffi börnin sem á að drepa í staðinn? Gengur það dæmi upp? Ég segi nei.
    Við fordæmum Rússa fyrir það að okkur finnst að þeir hafi ekki skilað þeim hernumdu svæðum sem þeir unnu í heimsstyrjöldinni síðari. Sjálfir trúa þeir því að þeir hafi aðeins skipulagt þar sams konar stjórnarfyrirkomulag og þeir búa við sjálfir en þeir hafi skilað þessum löndum. Það er þeirra mat. Við fordæmum þá fyrir þetta. Er það þá verjandi að Ísrael skili engu landi aftur?
    Ég ætla ekki að ráðast á verk Thors Thors með því sem ég segi hér varðandi skiptinguna á Palestínu. Ég er sannfærður um það að hann vildi vel og taldi sig vera að vinna gott verk og ég trúi því að þegar hann vann það hafi e.t.v. engin lausn verið betri. Hvað hefur gerst síðan? Við segjum: Arabarnir réðust á Ísraelsríkið, þ.e. þann helming Palestínu sem gyðingarnir fengu. Hvers vegna réðust þeir á þennan helming? Vegna þess að ef við Íslendingar færum til Noregs í dag og heimtuðum hálft ríkið, við færum náttúrlega aldrei upp á minna, mundu Norðmenn rísa upp sem þar byggju og segja: Þetta er okkar land, þið fóruð fyrir löngu. Arabarnir litu að sjálfsögðu svo á að sá helmingur af Palestínu sem Sameinuðu þjóðirnar voru að úthluta væru jafnt þeirra land og
hinn helmingurinn. Þeir vissu það að landsstjórn Breta var búin að brjóta það sem þeir höfðu lofað þeim, að hleypa ekki fleiri flóttamönnum inn í landið áður en það fengi sjálfstæði. Nei, við skulum heldur ekki fordæma Arabana fyrir árásina, einfaldlega vegna þess að þeir þóttust vera að verja sitt föðurland og trúðu því að þeir væru að verja sitt föðurland. Það er nefnilega að mörgu leyti billeg lausn, hvort heldur það er hjá Bretum, Bandaríkjamönnum eða Frökkum, að láta nýjan aðila skaffa landið fyrir fólkið sem þeir vildu ekki taka við.
    Núna í dag standa málin því miður þannig að svo virðist sem forráðamenn Ísraelsríkis vilji ekki setjast að neinu samningaborði með þeim sem þeir hafa undirokað innan sinna landamæra. Þeir skipa þeim að

selja gyðingum sínar afurðir, þeir mega ekki selja þær sjálfir úr landi, hinn undirokaði hluti. Hann verður að búa við það að það er stöðugt þrengt að þeim á minna og minna svæði og kaupahéðnar Ísraels hirða stöðugt meira og meira land. Það er aðeins eitt sem þeir ráða ekki við. Hvað haldið þið að það sé? Það er mannfjölgunin. Þeim stendur ógn af fjölgun arabanna.
    Hér segja menn: Ísrael er réttarríki. Ég trúi því að svo sé. Meðan sá maður hefur þar völd sem var í innsta hring þess hóps sem lét drepa sendimann Sameinuðu þjóðanna á sínum tíma og enginn dómur hefur fallið yfir morðingjunum öll þau ár, þá spyr ég: Gera menn ekki meiri kröfur til réttarríkis en þetta? Er svo komið að við Íslendingar berum á því ábyrgð, e.t.v. umfram alla aðra menn í þessum heimi, hvað er að gerast á herteknu svæðunum í Ísrael? Og ætlum við ekki að hafa kjark og hugrekki til að segja við Ísraelsmenn: Þetta gengur ekki? Það gengur aldrei upp að vopnlaust fólk sé murkað niður, það gengur aldrei upp.
    Ég tel, því miður, að eitthvert stærsta vandamál þess að hægt sé að koma nokkrum skynsamlegum mannlegum rökum við sé gamli draumurinn um stóra ríkið hans Davíðs. Og það skulu menn vita að enn þann dag í dag hefur Ísrael ekki náð þeirri stærð sem rétttrúarmenn í þeirra röðum segja að eigi eftir að verða. Það er líka sagt í þeim fornu fræðum að þeir eigi eftir að upplifa það að allur heimurinn verði á móti þeim. Þess vegna bregður þeim ekkert við í dag, ekki nokkurn skapaðan hlut. Okkar von er sú að innan veggja Ísraels geri þeir sem þar eru að vaxa úr grasi sér grein fyrir því að þeirra hætta stafar fyrst og fremst af því í framtíðinni ef þeir ekki sjá að sér og fara að koma fram við hina herteknu eins og menn.
    Ég tel þess vegna að alveg eins og Íslendingar hafa fordæmt þá sem vilja halda öðrum undirokuðum með ýmsum hætti, hvort sem það er í Suður-Afríku eða annars staðar, getum við ekki horft fram hjá því að ástandið á herteknu svæðunum minnir á þrælahald heillar þjóðar. Svo alvarlegt er ástandið. Það er enginn vegur að sveipa slíkt dýrðarljóma. Menn segja í dag: Arabarnir gerðu þetta, þeir gerðu hitt. Þeir mega berjast eins og þeir vilja við fullorðna hermenn innbyrðis ef þeir hafa áhuga á því. En hver er munurinn á gasklefunum og því að drepa varnarlaust fólk með skotvopnum á götum úti? Hver er munurinn?
    Nei, íslenska þjóðin hefur nefnilega hreinum skyldum að gegna, að reyna að koma vitinu fyrir Ísraelsmenn í þessum efnum. Fyrir því eru söguleg rök eins og hér var mjög vel rakið af hv. 4. þm. Vestf. Þeir geta aldrei vænt okkur um það með neinum rétti að við viljum þeim illt. Ég vil ísraelsku þjóðinni allt hið besta, en ég el þá von í brjósti að m.a. á þingi Sameinuðu þjóðanna, sama þinginu og ákvað að þeir skyldu fá land, gleymið þið því ekki, hljóti þeir að átta sig á því að það er eitthvað stórt og mikið að þegar þetta sama þing telur að þeir séu búnir að brjóta svo af sér að það þurfi að fordæma þá fyrir framferðið.