Jón Sæmundur Sigurjónsson:
    Virðulegi forseti. Hv. 17. þm. Reykv. vék að því í ræðu sinni hér áðan að nú logaði allt í bullandi ágreiningi innan ríkisstjórnarinnar vegna deilna um utanríkismál. Í sambandi við það skal sagt, eins og öllum er kunnugt, að þessi ríkisstjórn var auðvitað ekki mynduð um utanríkismál. Hún var mynduð, eins og kunnugt er, um allt aðra hluti. Og síðasta ríkisstjórn féll ekki út af ágreiningi um utanríkismál. Það er því skiljanlegt að þegar aðilar innan ríkisstjórnarinnar, hverra afstaða er kunnug fyrir fram, verða fyrir því að þeir sem hafa forræði fyrir viðkomandi málaflokkum halda fram stefnu sinni í bág við þeirra afstöðu, vilji þeir fá tækifæri til að undirstrika hana. Það breytir samt engu um það að öllum var kunnugt um afstöðu allra í þessum málum. Það vita allir hver hún var og hver hún verður. Það sem við erum að gera í dag er að við erum að hnoðast um málin, við erum að ræða þau.
    En í dag er fordæmingardagur. Það er alveg greinilegt. Við erum að lyfta vísifingri og benda á þá sem sekir eru. Það eru atburðir eins og þeir sem hv. 1. þm. Norðurl. v. lýsti hér áðan sem særa réttlætiskennd okkar. Það var litla barnið í gær sem var skotið, það var litli drengurinn í fyrradag sem fékk skotið í bakið sem auðvitað vekja okkar réttlátu reiði og verða til þess að einhverjir okkar vilja fordæma. En í því sambandi má spyrja: Hvar voru fordæmingarmenn þegar sprengjunni var laumað inn í skólarútuna og 18--20 lítil ísraelsk skólabörn sprungu í tætlur? Hvar voru fordæmingaraðilar Kvennalistans þegar sprengjunni var hent inn í matvörubúðina og saklausar ísraelskar hagsýnar húsmæður, sem voru þar að kaupa í matinn, urðu fyrir limlestingum og dauða? Og hvar voru fordæmingar hv. þm. Páls Péturssonar þegar Palestínumenn réðust með sprengjuvörpum á saklaus ísraelsk sveitabýli og limlestu þar og deyddu bændur og landbúnaðarverkamenn? Þá heyrðist engin rödd.
    Gyðingar eiga sér langa sögu ofsókna, kúgunar og hremminga. Hv. 4. þm. Vestf. vék að því áðan. Nýjasta atvikið í þeirri sögu átti sér stað í þinginu í Bonn í gær. Forseti þess varð að segja af sér í dag. Við skulum ekki stilla okkur upp í röð þeirrar atburðarásar. Ef við fordæmum, þá skulum við fordæma allt óréttlæti hvar sem er, hvar sem það á sér stað í heiminum.
    Í grg. með þessari till. til þál. sem okkur hefur verið kynnt í dag segir, með leyfi forseta: ,,Palestínuþjóðin er til og verður að geta ráðið sjálf málum sínum.`` Þetta er afskaplega góð setning, feikilega góð, en hún á bara við svo miklu, miklu fleiri. Hvað um málefni þýsku þjóðarinnar t.d.? Hún tapaði stríði. Hún tapaði löndum og hún lifir í a.m.k. þremur hlutum ef ekki miklu, miklu fleiri. Engin fordæming þar. Það er kannski af því að þeir lifa í formlegu ríki og búa við það hernaðarlega ofríki að þeir geta sig hvergi hreyft og þar eru engin mannvíg. En óréttlætið er engu að síður til staðar og forsendur mjög svipaðar. ( Utanrrh.: Það eru mannvíg, hv. þm.,

þeir skjóta flóttamenn.) Að sjálfsögðu, hvernig gat ég gleymt því?
    En það eru líka miklu fleiri dæmi en þetta. Mig langar til að telja nokkur upp og þar eigum við að vera tilbúnir í startholunum til að fordæma. Hvað með Kúrda í Íran, Írak og Tyrklandi? Hvað um indíána Suður-Ameríku, svarta í Suður-Afríku, baháía í Íran, gyðinga í arabaríkjunum? Þeir eru meðhöndlaðir ósköp svipað og þeir sem eru ofsóttir, Palestínumenn innan Ísraelsríkis. Eða múhameðstrúarmenn á Filipseyjum, Síkkar á Indlandi, Eritreumenn í Eþíópíu, Tamílar á Shri Lanka, Tíbetar í Tíbet, Tyrkir í Búlgaríu, Ungverjar í Rúmeníu, Þjóðverjar í Rúmeníu, Armenar í Svartbakalandi, Serbar í Kosovo, Baskar á Spáni og í Frakklandi, Suður-Týrólar á Ítalíu, Líbanir í Líbanon, Saharabúar í Marokkó, gyðingar í Sovétríkjunum, Volgu-Þjóðverjar í Sovétríkjunum og baltísku þjóðirnar í Sovétríkjunum. Listinn er sjálfsagt miklu, miklu lengri. Við skulum fordæma ofsóknir gegn öllu þessu fólki, en ekki að tína gyðingana eina og sér út úr. Þeir eru að vísu vanir því í langri þrautasögu í gegnum heimssöguna alla. En af hverju eigum við að stilla okkur upp í þá röð?
    Enn fremur segir í grg. með þessari tillögu, með leyfi forseta, að áframhaldandi hernám Ísraelsmanna sé storkun við almenningsálit og ógnun við heimsfriðinn. Og í framhaldi af því að framferði Ísraelsstjórnar beri að fordæma.
    Hv. 2. þm. Vestf. sagði hér áðan að við hefðum fordæmt hernám Sovétríkjanna í mörgum löndum eftir seinni heimsstyrjöldina. Við fordæmum það þannig að það er storkun við almenningsálitið og við tökum þátt í því. En ég man ekki eftir neinni tillögu héðan frá Alþingi þar sem slíkt hefur verið fordæmt beinlínis. Við getum fordæmt hernám Sovétríkjanna á hluta Finnlands, Póllands, Rúmeníu og Kína. En af hverju gerum við það ekki? Af hverju kemur sú tillaga ekki fram? Þetta er storkun við almenningsálitið, en að vísu engin ógnun við heimsfriðinn. En það er bara vegna ógnarherveldis Sovétríkjanna sjálfra. ( ÓÞÞ: Klofnaði ekki heill stjórnmálaflokkur vegna þessara mála?) Það er alveg rétt og það er langt síðan. En kom einhver fordæming á Alþingi þess vegna? Ég held að það sé kannski kominn tími til að sá flokkur sameinist aftur. (Gripið fram í.)
    Enn fremur segir í grg. að krafist sé réttlætis fyrir palestínsku þjóðina sem orðið hefur þolandi ákvarðana sem Ísland ber ábyrgð á. Berum við þá ekki nákvæmlega eins ábyrgð á öllum ofsóknum Sovétríkjanna gegn öllum þeim þjóðum sem undir þau hafa verið undirokaðar? Jú. Í dag er fordæmingardagur. Við skulum ganga gegn öllu óréttlæti í heiminum og fordæma það. En hvernig væri að líta sér nær. Ég held að það sé af nógu að taka hérna heima.