Getraunir
Þriðjudaginn 15. nóvember 1988

     Frsm. allshn. (Jón Kristjánsson):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti allshn. um frv. til laga um breyting á lögum um getraunir, nr. 59 frá 29. maí 1972.
    Nefndin kallaði til viðræðu um frv. Jón Ármann Héðinsson, stjórnarformann Getrauna hf., Hákon Gunnarsson, framkvæmdastjóra Getrauna hf., Svein Björnsson, formann Íþróttasambands Íslands, og Sigurð Þorsteinsson, framkvæmdastjóra Ungmennafélags Íslands.
    Varðandi frv. vill nefndin undirstrika að þessir aðilar, sem fyrir voru kallaðir, voru meðmæltir málinu en eins og fram kom í framsögu ráðherra fyrir frv. eiga þær breytingar sem þarna er um að ræða að gera það kleift að samnýta sölukerfi Íslenskrar getspár og Íslenskra getrauna. Þessi samnýting er mikið hagræði fyrir þá sem taka þátt í íslenskum getraunum og gefur möguleika á áheitum á einstök félög. Einkum er þessi samnýting mikið hagræði úti á landsbyggðinni og gefur jafna möguleika þar til þátttöku við þéttbýlið hér á höfuðborgarsvæðinu.
    Þar sem þessi breyting hefur mikinn stofnkostnað í för með sér er lögum um vinningshlutfall breytt þannig að möguleikar eru á því að lækka vinningshlutfall ofan í 40%. Það er sama lágmark og Íslensk getspá hefur í lögum.
    Nefndin vill undirstrika það sérstaklega að það kom fram að allur þessi gerningur byggist á fullu samkomulagi rekstraraðila Íslenskrar getspár og Íslenskra getrauna.
    Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt. Sighvatur Björgvinsson var fjarverandi lokaafgreiðslu málsins, en undir nál. skrifa Jón Kristjánsson, Kristín Halldórsdóttir, Geir Gunnarsson, Guðni Ágústsson, Hrafnkell A. Jónsson og Friðjón Þórðarson.