Skipan gjaldeyris- og viðskiptamála
Þriðjudaginn 15. nóvember 1988

     Flm. (Guðmundur G. Þórarinsson):
    Herra forseti. Ég hef ásamt hv. þm. Inga Birni Albertssyni lagt hér fram á þskj. 37 frv. til laga um breytingar á lögum nr. 63 frá 31. maí 1979, um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála, með síðari breytingum. Frv. þetta var lagt fram á síðasta þingi en varð þá ekki útrætt.
    Frv. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,1. gr. 1. og 2. mgr. 12. gr. laganna orðast svo:
    Ekki mega opinberir aðilar né einkaaðilar semja um að taka lán erlendis nema með samþykki ríkisstjórnar. Til lána telst í þessu sambandi einnig hvers konar greiðslufrestur á þjónustu, svo og leigusamningar. Greiðslufrestur á vörum fellur ekki undir þetta ákvæði.
    Viðskiptaráðuneytið setur, að höfðu samráði við Seðlabankann, reglur um erlendar lántökur.
    2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.``
    Það sem hér er um að ræða er að rýmka heimild til greiðslufrests á innflutningi á vörum. En með lögum nr. 63 frá 1979, um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála, ásamt tilheyrandi reglugerðum, er kveðið á um að vörur megi ekki flytja til landsins nema greiðsla hafi verið innt af hendi eða tryggð með öðrum hætti, svo sem með lántöku eða greiðslufresti. En í þessu frv. er með vörum einnig átt við vélar og tæki. Um þetta mál hefur talsvert verið rætt á undanförnum missirum og flestir sem hafa kynnt sér þetta mál eru þeirrar skoðunar að það fyrirkomulag sem hér er um að ræða hafi í för með sér bæði aukinn kostnað og óhagræði miðað við það fyrirkomulag sem tíðkast í öðrum löndum.
    Það munu einfaldlega ekki til þess dæmi, eftir því sem flm. hafa kynnt sér, að fyrirkomulag sem þetta ríki með þjóðum, a.m.k. ekki þjóðum sem eru á svipuðu stigi viðskipta- og menningarlega og Íslendingar telja sig vera. Í þessu sambandi er sérstaklega rétt að ítreka og benda á að hér er um að ræða mjög takmarkaða rýmkun á heimildum til erlendrar lántöku. Hér er ekki talað um að rýmka varðandi lántöku vegna þjónustu- eða leigusamninga eða erlendrar lántöku almennt, heldur er eingöngu um að ræða vöruinnflutning. Rök í þessu sambandi eru fyrst og fremst þau að flm. telja ákaflega óeðlilegt að íslensk stjórnvöld taki að sér að sjá um viðskipti íslenskra manna við erlenda á þennan hátt. Þess eru ekki dæmi að íslenskir útflytjendur geti fengið erlend yfirvöld til þess að tryggja sér greiðslur á sama hátt og hér er gert. Það er óeðlilegt að íslenskur aðili sem pantar eða kaupir vöru frá Jensen í Danmörku geti ekki átt við hann nein viðskipti fyrr en íslenskum stjórnvöldum hefur verið gerð grein fyrir því að greiðsla hafi farið fram.
    Ef litið er aftur í tímann munu menn hafa hugsað það svo að lög þau sem hér um ræðir ættu að tryggja að aðhald yrði nokkuð að þenslu og innflutningi í landið. Þeir sem söguna kynna sér sjá þó að um það er ekki að ræða og hafa þessi lög auðvitað reynst haldlítil að því er lýtur að innflutningi og þenslu. Á síðasta ári jókst til að mynda innflutningur um 33% og viðskiptahalli við útlönd var mjög mikill. Landið

er yfirfullt af hvers konar varningi og það er kaupmáttur í landinu og aðstæður inni í landinu sem ráða því hvort hann selst eða ekki. Hins vegar er alveg ljóst að þetta fyrirkomulag sem við höfum, og mun einsdæmi meðal þróaðra landa, eykur mjög á kostnað. Það hækkar vöruverð. Eins og allir vita eru vörur fluttar til landsins og liggja hér á hafnarbakka þar til innflytjandi getur innt greiðslur af hendi í samræmi við lög og reglur. Þetta þýðir að verulegt magn af vörum liggur hér hverju sinni á hafnarbakka.
    Þetta þýðir í fyrsta lagi að greiðslufrestur erlendra framleiðenda og seljenda er ekki nýttur og kemur þess vegna ekki að notum við lækkun vöruverðs. En í mörgum tilvikum er hér um að ræða greiðslufrest án vaxta þar sem vörur liggja tvo til þrjá mánuði á hafnarbakka, eða jafnvel lengur, en sem kemur engum að notum.
    Í öðru lagi hefur þetta fyrirkomulag leitt til þess að hér á landi hefur víða verið komið upp viðamiklum vörugeymslum. Geymslukostnaður er mikill á hafnarbakka sem leggst ofan á vöruverð. Fjárfesting er mikil í þessum geymslum og vinnuafl við geymslur, umsjón, eftirlit og jafnvel tjón hækka vöruverð. En ekki bara það heldur er það jafnframt svo, sem flestir vita, að smásölukaupmenn greiða innflytjendum og framleiðendum gjarnan með svokölluðum vöruvíxlum. Heildsalar og innflytjendur selja þessa víxla í banka í því skyni að afla fjár til að leysa út nýjar sendingar. Bankar kaupa þessa vöruvíxla á gengi og eru þessi viðskipti eins og séð hefur verið í blöðum að undanförnu mjög dýr. Raunvextir af víxlum eru mjög háir. Eðlilega leggst þessi kostnaður ofan á vöruverð þannig að á sama tíma og lán hins erlenda framleiðanda eða seljanda nýtast ekki er í gangi hér og uppbyggt vörukaupavíxlakerfi sem er umfangsmikill þáttur í starfsemi íslenskra banka og e.t.v. ein skýringin á útþenslu bankakerfisins. Samdráttur í þessu vöruvíxlakerfi væri bein afleiðing ef lögunum yrði breytt í samræmi við þetta frv. Það mundi því þýða bæði samdrátt í kerfi bankanna og lækkun vöruverðs.
    Nú er talið að um 70% af heildarinnflutningi íslensku þjóðarinnar falli þegar undir heimiluð vörukaupalán. Á bannlista eru nú aðallega matur, fatnaður, heimilistæki og slíkt. En álitið er að í u.þ.b. helmingi tilvika af þessum 70% innflutningi sé lánsheimildin nýtt. Ef reynt er að meta þetta í tölum kemur í ljós að árið 1987 var heildarinnflutningur um 61 milljarður króna, þannig að 30% innflutningsins, þ.e. sá hluti sem ekki nýtur vörukaupalánanna, nemur um 18,3 milljörðum kr. Ef miðað er við að sama regla gilti um þessi 30% og gildir í reynd um 70%, þ.e. að heimildin sé notuð á helming, er hér um að ræða 9 milljarða kr. Og ef menn líta svo á að um væri að ræða þriggja mánaða greiðslufrest er heildarupphæðin sem um er að ræða um 2,2 milljarðar, en líklega tæki 1--2 ár að ná þessari upphæð. Seðlabankinn hefur metið að þessi upphæð gæti legið einhvers staðar á bilinu 1--4,7 milljarðar kr. Þess vegna er ljóst að röksemdir varðandi það að

lögin verki sem stýritæki vegna erlendrar lántöku og þenslu standast tæpast þar sem 70% af innflutningnum er þegar laus við þessi lög samkvæmt sérstökum reglugerðum.
    Það er ákaflega erfitt að meta það hvort þensluáhrif fyrst í stað yrðu einhver af þessu. Mér sýnist nú að þau séu afar lítil. Og eins og þjóðlífið stefnir nú, þar sem samdráttareinkenni eru að verða augljós, hygg ég að menn þurfi síður að óttast það. Enda hafa menn ekki velt áhrifum á peningamarkaðinn eða peningamagn í umferð að undanförnu fyrir sér þegar menn hafa heimilað kaupleigustarfsemi, sem ég tel reyndar mjög þarfa starfsemi í þessu þjóðfélagi, notkun greiðslukorta og ekki síst notkun greiðslukorta erlendis, sem er orðin mjög mikil, yfirdráttarheimildir sem heimilaðar hafa verið á ávísanareikningum o.s.frv. Ef menn skoðuðu þær upphæðir sem um er að ræða hygg ég að menn komist að þeirri niðurstöðu að ekki er verið að tala um stórar tölur þegar allt kemur til alls.
    Það er ákaflega þýðingarmikið að ef þessi greiðslufrestur erlendra seljenda og framleiðenda er nýttur, sem eru vafalaust með ódýrustu lánum sem hægt er að fá, gæti þrýstingur minnkað mjög á lánsfjármarkaði innan lands og vextir lækkað. Eða menn gætu sparað sér erlend lán sem svara því sem þarna er um að ræða. Hið úrelta kerfi sem við lýði er á Íslandi, og varðar afskipti ríkisvalds af viðskiptum íslenskra og erlendra aðila við vöruinnflutning til landsins, er auðvitað ekkert annað en leifar af gömlu hafta- og stýrikerfi. En þetta kerfi hefur leitt af sér ýmiss konar óhagræði og óarðbæra starfsemi í þjóðfélaginu, eins og hér hefur áður verið drepið á. Má þar nefna ofþenslu eða ofvöxt í vörugeymslukerfi flutningsaðila og vöruvíxlakaupakerfi banka, auk þess sem það veldur hækkun á vöruverði.
    Þegar Alþingi breytti á sínum tíma ákvæði í lögunum nr. 63 frá 1979, um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála, á þann veg að ekki þyrfti staðfestingu gjaldeyrisbanka svo að tollafgreiða mætti vöru voru flestir þeirrar skoðunar að verið væri að breyta lögunum á þann veg sem þetta frv. leggur til. Svo var þó ekki og mun mörgum ef ekki flestum hafa komið það á óvart. Frv. sem hér er til umræðu er skref í átt að meiri fríverslun og aðlögun að viðskiptaháttum helstu viðskiptaþjóða okkar. Hér er um að ræða mikilvægt skref í aðlögun að þróun innan Evrópubandalagsins.
    Það er e.t.v. ekki úr vegi og í tengslum við þetta mál að geta þess að einmitt á þessu ári eru 200 ár liðin frá því að einokunarverslun Dana var aflétt. Ef menn líta á þróun verslunar frá þeim tíma með öllum þeim innflutningshöftum, einhliða verðákvæðum konungs og ákvörðunum sem teknar voru og talin miða að því marki að halda niðri óeðlilegum innkaupum og lántöku, hygg ég að flestar þær ákvarðanir verði broslegar þegar litið er yfir þær nú. Nú hefur verðlagning þróast mjög í frjálsræðisátt og samkeppni orðið virkari þó að um tímabundin áhrif sé að ræða nú þegar verðstöðvun er í landinu.

    Ég held að það sé mjög mikilvægt að þingmenn geri sér grein fyrir því að það fyrirkomulag sem fyrir er í landinu og þau lög sem í gildi eru um innflutning á vöru eru í reynd ekkert annað en leifar af gömlu hafta- og stýrikerfi.
    Að svo mæltu, herra forseti, legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og fjh.- og viðskn. að lokinni þessari umræðu.