Skipan gjaldeyris- og viðskiptamála
Þriðjudaginn 15. nóvember 1988

     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Hér liggur frammi frv. til laga um breytingu á lögum nr. 63 frá 1979, um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála. Flm. eru hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson og Ingi Björn Albertsson. Ég vil lýsa stuðningi mínum við frv. sem ég tel mjög tímabært. Það felur í sér mikla og góða breytingu á utanríkisverslun okkar. Eins og hv. 1. flm., Guðmundur G. Þórarinsson, kom hér inn á í ræðu sinni eru í frv. mörg og mikilsverð atriði til bóta.
    Ég vil minna á að afskipti stjórnmálaafla vegna þessara hafta hafa oft á tíðum ýtt undir hrossakaup, okurstarfsemi og miður heppilega milliliði sem hafa með vörukaupum hagnast á þessum höftum. Það er nokkuð ljóst, eins og ég kom inn á í ræðu í síðustu viku, að þessar viðskiptahömlur eru síðustu leifar af selstöðuversluninni og afskiptum Dana af okkar verslunarháttum. Ég tel óþarft að vernda erlenda verslun með þeim hætti sem hér er gert og andstætt hugmyndum fríverslunarmanna. Með þessum breytingum mundi miklum þunga létt af bankakerfinu og áhættan af vanefnd kaupenda leggjast á erlenda aðila í stað innlendra. Það er því kominn tími til að þessi breyting nái fram að ganga. Það mundi þýða lægra vöruverð og á margan hátt miklu hagstæðari útkomu fyrir þjóðfélagið í heild þar sem fjármagnskostnaði yrði velt yfir á erlenda seljendur og við mundum losna við að greiða hann í vöruverði.
    Það er ekki nokkur vafi á því að þetta mundi þýða mikinn sparnað fyrir alla aðila, minna rými yrði tekið undir vörugeymslur og við mundum fá miklu betri verslun í landinu. Ég fagna því frv. og vona að það fái skjóta og góða afgreiðslu hér á hinu háa Alþingi.