Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin hefur enga tryggingu fyrir því að bráðabirgðalögin verði samþykkt óbreytt hér á hinu háa Alþingi. Við vitum að sjálfsögðu um stuðning þeirra þingmanna sem ríkisstjórnina opinberlega styðja.
    Ég vil í öðru lagi vekja athygli á því sem svar við annarri spurningu að ríkisstjórnin lagði fram, eða ég fyrir hennar hönd, bráðabirgðalögin strax í upphafi þings. Ég vildi ekki á nokkurn máta tefja að þau fái skjóta afgreiðslu. Þau eru nú í höndum þingnefndar í Ed. og það er ekki á mínu valdi að hraða starfinu þar. Ég hef svo sannarlega ekki nokkurn skapaðan hlut á móti því, en nefndin verður að meta sjálf hvað hún þarf að afla sér ítarlegra upplýsinga um þau mál sem þarna er um að ræða.
    Um Atvinnutryggingarsjóðinn er það að segja að mikið af umsóknum hefur borist inn, um 50 talsins var mér sagt nýlega. Þessar umsóknir hafa verið metnar og unnar af Byggðastofnun. Mjög er þrýst á að byrjað verði að afgreiða þessar umsóknir, ekki aðeins af fyrirtækjunum sjálfum heldur af mörgum lánastofnunum sem hafa dregið að ganga til ákveðinna aðgerða gagnvart slíkum fyrirtækjum. Ég hef að sjálfsögðu ekki haft afskipti af því hvenær verður byrjað að afgreiða umsóknir, en mér skilst að það geti orðið í þessari viku og ég mun ekki tefja það á nokkurn máta.