Albert Guðmundsson:
    Virðulegur forseti. Ég trúi því, sem hv. 3. þm. Vesturl. sagði hér, að vinnubrögð í viðkomandi nefnd séu eðlileg og engar athugasemdir hafi komið fram við gang mála þar. Ég veit að hann er duglegur verkstjóri, ég þekki hann af fyrra samstarfi, þannig að ég hef enga ástæðu til að rengja það. Það að það skuli vera þegar búið að biðja 15 aðila að koma til umsagnar í nefndinni bendir í mínum huga á að það stendur nú til að tefja framgang málsins nokkuð og þætti mér ekki ósennilegt, þegar farið er að líða á það verkefni að 15 aðilar hefðu komið, að 5 eða 6 til viðbótar verði þá kallaðir.
    En það sem kom mér upp í ræðustól er annað og miklu alvarlegra mál. Út af fyrir sig skipta mig þessar umræður engu og þessi utandagskrárumræða, en svar hæstv. forsrh. er þess eðlis að ég ber kvíðboga fyrir framtíðinni ef þessi vinnubrögð eiga að verða framtíðinni sem leiðarljós. Ég spyr hæstv. forsrh. í beinu framhaldi af hans svari sem ég skrifaði niður. Hann sagði: Ríkisstjórnin hefur enga tryggingu fyrir samþykkt bráðabirgðalaganna. Þessi orð hlustuðum við öll á fyrir augnabliki. Á hvaða forsendum fékk hæstv. ríkisstjórn undir forustu forsrh. forseta Íslands til þess að skrifa undir þessi bráðabirgðalög? Ég er hræddur um að þar sé skýringar þörf því að forseti Íslands lætur áreiðanlega ekki leiða sig út í neitt glapræði. En það er alveg ljóst að það er engin trygging, eins og hæstv. forsrh. sjálfur gat um, fyrir því að umrædd bráðabirgðalög, sem forseti Íslands hefur undirritað, fái samþykki á Alþingi og það er alvarlegt mál.