Kristín Halldórsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem var gagnleg út af fyrir sig. Það er kannski ástæða til að taka það fram að við kvennalistakonur höfum fullan skilning á erfiðleikum atvinnulífsins og viljum leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að leysa eða a.m.k. lina þann vanda sem þar er við að fást. Það er hins vegar ekki sama hvernig það er gert og við erum t.d. gersamlega andvígar því að enn sé sótt að launafólki með því að ganga á ráðstöfunarfé Atvinnuleysistryggingasjóðs. Okkur finnast það ekki stórmannlegar aðfarir stjórnvalda að frysta launataxta og afnema samningsrétt og ganga svo af fullkomnu miskunnarleysi í Atvinnuleysistryggingasjóð á sama tíma og víðast hvar þrengir að í atvinnulífinu og horfur á atvinnuleysi fara vaxandi. Atvinnuleysistryggingasjóður er sjóður launafólksins og hann má ekki skerða, allra síst nú með tilliti til ástandsins í atvinnumálunum.
    Við höfum reyndar ýmislegt fleira að athuga við framkvæmd þessa máls, eins og fram kom við 1. umr. í Ed., og það hafa margir aðrir þingmenn. En aðalatriðin eru þessi: Núverandi ríkisstjórn hefur ekki öruggan meiri hluta í báðum deildum Alþingis. Núverandi ríkisstjórn setti bráðabirgðalög tólf dögum áður en Alþingi kom saman til starfa. Frv. til staðfestingar á þeim lögum hefur legið fyrir þinginu allt frá þingbyrjun, en afgreiðsla þeirra er augljóslega ekki í augsýn á næstu dögum, ekki einu sinni í fyrri deild. Þrátt fyrir margar og margvíslegar athugasemdir þingmanna úr stjórnarandstöðu lætur ríkisstjórnin sem hún hafi öll ráð í hendi sér og lætur starfa eftir bráðabirgðalögunum eins og gulltryggt sé að þau fáist samþykkt óbreytt sem í rauninni er ólíklegt. Svona vinnubrögð eru, virðulegi forseti, óviðunandi.
    Ég tel fullvíst að allir þingmenn stjórnarandstöðunnar, a.m.k. vil ég lýsa því yfir fyrir hönd kvennalistakvenna, séu reiðubúnir til þess að leggja þá vinnu af mörkum sem þarf til þess að unnt verði að eyða allri óvissu varðandi þetta mál. Annað er ekki sæmandi gagnvart Alþingi og ekki heldur gagnvart þeim aðilum sem treysta á aðgerðir stjórnvalda í atvinnulífinu. Og vegna orða hv. formanns fjh.- og viðskn. Ed. vil ég taka fram að aðalatriðið er ekki fyrst og fremst seinagangur þingsins heldur er meginatriðið það, eins og kom fram í máli fleiri sem hér hafa talað, að það er unnið af fullum krafti eftir bráðabirgðalögum sem ekki hafa hlotið staðfestingu þingsins og engin trygging er fyrir að þau hljóti slíka staðfestingu í óbreyttri mynd. En það vakti athygli mína og furðu að hæstv. forsrh. sér ekki ástæðu til að reyna að hafa áhrif á hvort beðið er með útdeilingu fjár úr Atvinnutryggingarsjóði meðan beðið er eftir staðfestingu þingsins á þessum lögum og ég vil hvetja hæstv. forsrh. til að endurskoða þessa afstöðu sína.