Ragnhildur Helgadóttir:
    Frú forseti. Ég leyfi mér að þakka hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur fyrir að vekja máls á því atriði sem hér er rætt. Mig langar sérstaklega að draga fram þann þátt í þessum umræðum og undirstrika mikilvægi hans að hér er verið að útdeila fé án þess að menn hafi vissu um í hvers eigu þetta fé sé. Það a.m.k. liggur mjög nærri að svo sé. Til þessa sjóðs er stofnað undir mótmælum þeirra sem eru umboðsmenn eigenda Atvinnuleysistryggingasjóðs. Því fær enginn breytt nema löggjöf á Alþingi eins og á stendur. Vissulega hafa bráðabirgðalögin verið sett og halda gildi sínu þangað til þau eru felld, en engu síður er óvissan svo mikil í þessu að það sem þegar hefur verið gert, það sem þegar hefur verið úthlutað, er á afar hæpnum forsendum, að vísu e.t.v. löglegum, en hér á við það sem áður hefur verið sagt í öðru sambandi í þessum sal, að þetta er e.t.v. löglegt en þetta er svo sannarlega siðlaust gagnvart Alþingi og gagnvart eigendum Atvinnuleysistryggingasjóðs. Þess vegna tek ég mjög eindregið undir að það beri að bíða með úthlutanir úr sjóðnum þangað til lögin eru sett af Alþingi. Ég hygg að það hljóti að geta orðið samkomulag um það. Það heyrist á máli þingmanna að þeir eru fúsir til þess að leggja í það mikla vinnu að afgreiða lögin um þetta mál. Annað eins hefur verið gert hér á Alþingi og það á skemmri tíma.
    Þess vegna lýsi ég undrun minni á því að hæstv. forsrh. skuli segja bara með mestu rósemi að sér detti ekki í hug að hafa áhrif á að úthlutanir muni trúlega fara fram síðar í þessari viku eða nú á næstunni. Auðvitað á hæstv. forsrh. að grípa í taumana, það er það sem er alveg ljóst, og ná samstarfi við þingnefndir um að lögin verði afgreidd. Annars verður maður í æ meiri vafa um hvers konar stjórnarfar sé eiginlega komið á Íslandi ef bráðabirgðalögin, sem sett eru nokkrum dögum fyrir þingsetningu, verða framkvæmd með þessum hætti og við þessar aðstæður. Og eftir frægar yfirlýsingar hæstv. forsrh. nú í síðustu viku í tilbót, þá er von að menn hafi áhyggjur.