Albert Guðmundsson:
    Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort hæstv. forsrh. telur það ekki svara vert að upplýsa á hvaða forsendum forseti Íslands skrifaði undir þessi bráðabirgðalög, ég veit að mér þætti það afskaplega leiðinlegt fyrir Alþingi og allt að því Alþingi til skammar ef forseti Íslands hefur fengið rangar upplýsingar þegar hún undirritar lög sem síðar, nokkrum vikum eftir undirritun, eru felld á Alþingi Íslendinga. Við sjáum öll, ef við viljum hugsa, í hvaða stöðu Alþingi annars vegar og þjóðhöfðinginn hins vegar eru eftir að hún hefur skrifað undir lög sem Alþingi fellir svo. Ég ítreka fyrirspurn mína til hæstv. forsrh.: Á hvaða forsendum voru lögin kynnt forseta Íslands með þeim hraða sem þá var hafður á? Ef ég man rétt var hún stödd utan bæjar, úti á landi, þegar til hennar var send flugvél með lögin til undirritunar. Mér finnst þetta vera stærsta atriðið í þessu máli og ég harma ef niðurstaðan á að verða sú að forseti Íslands hafi undirritað lög sem ekki hafa meiri hluta á Alþingi. Það finnst mér hafa komið glögglega fram hér með mínu tali fyrir Borgfl. og fyrirspurn Kvennalistans og með þátttöku Sjálfstfl. í þessum umræðum.